634. - Pólitíkin enn og aftur. Léleg tík það

Pólitískir langhundar eru eitt það versta sem ég veit. Þessvegna reyni ég að blogga  fremur stutt þegar ég hætti mér á hið pólitíska svið.

Hugsjón sjálfstæðismanna er að koma bæði í veg fyrir persónukjör og að stjórnlagaþing verði haldið. Allt útlit er fyrir að þeim takist að koma í veg fyrir að persónukjör verði í komandi kosningum. Enn er ekki vitað með stjórnlagaþingið. Hætt er við að ef það kemst á koppinn þá verði það í svo útþynntri útgáfu að það verði að litlu gagni. Sjálfstæðismönnum tókst ekki að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef svo kannski gengur þessi strategía ekki upp heldur.

Það er alveg rétt hjá Sóleyju Tómasdóttur að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að skila framlaginu frá Goldfinger. Það er í tísku núna að skila aftur ólöglega fengnum framlögum og er það vel. Framlagið frá Goldfinger er kannski ekki ólöglegt en starfsemin þar er í það minnsta umdeild hvað sem annars verður um hana sagt.

Ómar Ragnarsson er hættur sínum pólitíska slag. Ég held samt að hann eigi skilið að komast á þing. Miklu fremur en Ástþór Magnússon. Ástþór er þó misskilinn. Hann vill vel en sér ekki sjálfur hvenær hann á að draga sig í hlé og eftirláta öðrum sviðið. Það er merkilegt að ekkert skuli hafa komið útúr því pólitískt sem kallað hefur verið búsáhaldabyltingin. Hvað eiga einlægir stuðningsmenn þeirrar byltingar eiginlega að gera í komandi kosningum? Sitja heima? Kannski er það skást.

Ekki er auðvelt að koma auga á hvernig litlu framboðin ætla sér að fá atkvæði. Aðallega eru þau með eða á móti EBE aðild eða þau eru með eða á móti frjálsu framsali fiskveiðiheimilda. Af hverju ekki að sameinast og fara að tala um eitthvað sem máli skiptir?

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Mér brá þegar ég frétti að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þegið framlag frá Goldfinger og fer Sóley með rétt mál.

Hilmar Gunnlaugsson, 26.3.2009 kl. 15:54

2 Smámynd: Heimir Tómasson

Persónukosningar eru það eina sem að getur komið einhverjum breytingum á. Er það því engin furða þó Sjallarnir vilji ekki sjá það.

Heimir Tómasson, 26.3.2009 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband