606. - Þessi bloggstíll heitir: "Vaðið úr einu í annað."

Mikið er veðrið gott þessa dagana. Ef birtutíminn væri svolítið lengri mundi ég segja að það væri vor í lofti.

Einhvern vegin er það svo að allskyns guðrækilegar vísur og sálmar sitja í minninu á manni og dúkka þar upp þegar minnst varir. Ein er svona:

Vertu Guð faðir faðir minn
í frelsarans Jesú nafni.
Hönd þín leið mig út og inn
svo allri synd ég hafni.

Það er mjög tíðkað að gera grín að Guðstrú og þessháttar. Ekki er ég barnanna bestur í því.

Þegar ég var prófdómari í Laugagerðisskóla kom einu sinni svar á Kristinfræðiprófi sem var svona: "Þú skalt gjalda keisaranum sitt og Guði hitt." Þetta þótti mér hraustlega mælt og hló mikið.

Ó, Jesú bróðir besti
og besti vinur mesti

var líka einhvern tíma sungið af mikilli tilfinningu.

Pukurpólitík er vinsælasta pólitíkin á Íslandi í dag. Sama hvað um er að ræða aldrei skal viðurkenna það nema óhjákvæmilegt sé. Það er beinlínis hræðilegt  nú á þessum síðustu og verstu tímum að horfa uppá hve stjórnmálamenn eru fastir í þessu hjólfari. Ég held að Geir hafi meira að segja haldið eins miklu leyndu fyrir sjálfum sér um bankahrunið og hann mögulega gat.

Boðað hefur verið frumvarp um Stjórnlagaþing. Gott ef framsóknarmenn þykjast ekki ætla að flytja það sjálfir. Um það verður rifist talsvert en síðan verður það svæft í nefnd. Óværum svefni þó því margir munu reyna að vekja krógann.

Ég hef verið að velta því fyrir mér hverjir stjórni þessu landi. Allir þykjast vilja lækka vextina. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bannar það. Davíð sem þó er bráðflinkur við að hækka og lækka vexti getur ekki einu sinni komið vitinu fyrir landstjórann og er þá fokið í flest skjól. Jóhanna grúfir sig bara ofan í pappírana sína og segir að það megi lækka vextina einhvern tíma seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þér fer þetta vel. Að vaða úr í í annað. ..En fyrr má nú rota en skjóta sagði kerlingin

Hallgerður Pétursdóttir 17.2.2009 kl. 15:37

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk. Svo má líka rota pínulítið eins og einu sinni var sagt.

Sæmundur Bjarnason, 18.2.2009 kl. 01:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband