425. - Um bókina "Í öðru landi" eftir Eddu Andrésdóttur

Las um daginn bókina "Í öðru landi" eftir Eddu Andrésdóttur. Merkileg bók en alls ekki gallalaus að mínum dómi. Í bókinni segir Edda frá föður sínum, sjúkdómnum sem hann gekk með (Alzheimer) og láti hans. Kannski hafa bækur af þessu tagi ekki oft verið skrifaðar á íslensku. Mér finnst einn helsti galli hennar hvað hún er sundurlaus. Alls ekki er fjallað faglega um Alzheimer sjúkdóminn og afbrigði hans og ekki heldur um dauðann sjálfan.

Öðrum þræði er bók þessi æviminningar enda ekki auðvelt að skrifa heila bók á þann hátt sem lýst er hér að framan án þess að fleira komi til en Alzheimer og dauði. Í æviminningunum sérstaklega og reyndar i bókinni allri er mikið reynt að túlka skáldlega sýn á tilveruna. Þetta finnst mér Edda ekki ráða nógu vel við og varð ósjálfrátt hugsað til bókar Jóns Kalmans Stefánssonar "Himnaríki og helvíti" til samanburðar. Fyrri hluti þeirrar bókar er eitt það áhrifamesta og skáldlegasta sem ég hef lesið í seinni tíð.

Sjálfsævisögur er án nokkurs vafa erfitt að skrifa og í fljótu bragði man ég ekki eftir nema einni sjálfsævisögu sem mér fannst virkilega góð. Það er bókin "Í verum" eftir Theodór Friðriksson. Ég man að ég týndi mér gjörsamlega þegar ég las þá bók og tel mig hafa miklu betri skilning eftir en áður á fyrri hluta tuttugustu aldar hér á landi. Líklega væru æviminningar Eddu betri ef þær væru skrifaðar af öðrum en henni sjálfri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Yngvi Högnason

Takk fyrir að minna á Theodór,það er kominn tími til að lesa hann aftur eftir 20 ár. Var það ekki hann sem kom að eyðibýli og fann þar skyr í ámu sem að hafði verið skilið eftir en smakkaðist vel eftir að skafið hafði verið ofan af?

Yngvi Högnason, 21.8.2008 kl. 22:44

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst bók Eddu með sama marki brennd eins og allt sem um alzheimer er skrifað: skorti á undanbragðalaustgri sýn á það sem gerist í þeim sjúkdómi sem er allt annað en skáldlegt. Ég hef kynnst alzheimer og hann er það ömurlegasta sem fyrir manneskju getur komið. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.8.2008 kl. 22:57

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, mig minnir að skyrsagan sé um hann. Theodór var alla sína ævi þrátt fyrir eymd og volæði alltaf að einhverju skáldskapargutli, en mér finnst hann hvergi hafa náð sér á verulegt flug nema í sjálfsævisögunni.

Sæmundur Bjarnason, 21.8.2008 kl. 23:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband