293. - Minningar úr Hveragerði (bloggið um gatnamótin á Auðbrekku og Nýbýlavegi er svolítið neðar)

Það sem hér fer á eftir eru fáeinar frásagnir frá æsku minni í Hveragerði, sem ég hef áður sett á bloggið, en af því að lesendur mínir eru orðnir svo miklu fleiri núna, þá er ég að hugsa um að endurnýta þær.

Skrítið hvað maður man og hvað ekki. Ein af mínum fyrstu berskuminningum er að ég skar mig illa á hægri úlnlið. Nánast þvert yfir púlsinn og það blæddi mikið. Einhvern tíma var mér sagt að ég hafi verið þriggja ára þegar þetta gerðist. Þetta var niður við Ullarþvottastöð og það var flöskubrot sem ég skar mig á. Ég var ábyggilega ekki gamall þegar þetta var og eldri systur mínar hafa eflaust verið þarna með mér að passa mig. Ég man vel og nákvæmlega eftir atburðinum sjálfum. Hvar þetta var við Ullarþvottastöðina, hvernig glerbortið var (botn á grænni brennivínsflösku), að það lá ofan á einskonar fjalhöggi og að ég var líklega einn þarna þegar atburðurinn átti sér stað, a.m.k. var enginn til þess að trufla mig þegar ég lamdi hendinni ofan á flöskubotninn. Síðan man ég einungis eftir því að pabbi kom og sótti mig, vafði vasaklút um sárið, tók mig upp og hélt á mér heim á leið. Ég man vel eftir því að vasaklúturinn sem hann notaði var rauður og hvítur og gæti lýst honum í smáatriðum. Ég man meira að segja mjög vel hvar við vorum staddir (við norðvesturhornið á Kaupfélaginu) þegar ég tók eftir því að vasaklúturinn var rauður og að mér þótti mjög smart að hafa svona rauðan vasaklút bundinn um handlegginn. Meira man ég eiginlega ekki eftir þessum atburði, en mér er sagt að Lúðvík Nordal (afi Davíðs Oddssonar) hafi verið sóttur á Selfoss þar sem hann var héraðslæknir á þessum tíma og hann hafi saumað sárið saman.

Á þessum árum var það góð skemmtun að rúlla bíldekkjum á undan sér og lemja í þau með spýtu. Einhverju sinni fórum við Vignir uppá hól hjá elliheimilinu (þar sem kirkjan er núna) með dekk til að láta rúlla niður hólinn. Vel gæti verið að ég hafi verið svona 9 ára þegar þetta var og Vignir 6, ég man það ekki með neinni vissu, en okkur gekk ágætlega að láta dekkin renna niður hólinn þó heldur torsóttara væri að paufast með þau upp aftur. Dekkin lentu gjarnan á girðingunni við Sunnuhvol eða runnu meðfram henni. Í eitt skiptið náði Vignir (minnir mig) að láta sitt dekk renna með miklum hraða niður brekkuna án þess að það beygði nokkuð af leið. Þegar það kom að girðingunni við Sunnuhvol lenti það á steini og sveif í fallegum boga yfir girðinguna, en því miður lenti það í næsta stökki á þvottasnúru þar sem mikið af drifhvítum þvotti hafði verið hengt til þerris og reif hana niður í svaðið og vöðlaði þvottinum undir sig. Ekki þorðum við að gera vart við okkur til að geta fengið dekkið aftur, heldur hlupum í burtu og fórum skömmustulegir heim og sögðum okkar farir ekki sléttar. Mamma varð síðan að fara til Guddu á Sunnuhvoli og leysa dekkið út og man ég ekki annað en að það hafi gengið vel.

Ætli ég hafi ekki verið svona tíu eða tólf ára þegar við vorum nokkrir krakkar eitthvað að hamast í snjókasti skammt frá hótelinu rétt við spennistöð sem þar var. Af einhverjum ástæðum fórum við að henda snjókúlum í spennistöðina og einbeittum okkur von bráðar að glugga á henni sem var allhátt frá jörðu og ekki mjög stór. Fljótlega kom kapp í okkur og við fórum að hamast við að þekja gluggann með snjókúlum sem festust jafnan við gluggann vegna þess hve snjórinn var mátulegur til snjókúlugerðar. Þá var það sem götuljósin í þorpinu kviknuðu skyndilega. Ekki veit ég alveg af hverju það var, en okkur varð samhengið fljótlega ljóst. Götuljósin kviknuðu þegar dimmdi í spennistöðinni. Stórmerk uppgötvun. Sennilega höfum við lært heilmikið á þessu. A.m.k. situr þessi uppgötvun í mér. 

Ingimar í Fagrahvammi átti eitt sinn gríðarstóran Sankti Bernharðshund (það var áður en hann eignaðist Kalló, úlfhundinn fræga, sem ættaður var úr Geysi á Bárðabungu eins og margir vita) Hundurinn, sem ég held að hafi verið kallaður Bjössi, beit eitt sinn strák í þorpinu (son Helga Geirssonar, minnir mig) svo flytja þurfti hann á sjúkrahús. Þá sagði bróðir stráksins: „Ég vildi að hann hefði bitið mig, þá hefði ég fengið að fara til Reykjavíkur". Þetta þótti hraustlega mælt og líka er á það að líta að á þeim tíma var mikið ævintýri að fá að fara í langferð eins og frá Hveragerði til Reykjavíkur.

Þegar ég stundaði nám við Miðskóla Hveragerðis undir lok sjötta áratugar síðustu aldar var einn af kennurum mínum séra Gunnar Benediktsson, klerkur, kommúnisti, rithöfundur og margt fleira. Einhverju sinni var séra Gunnar að kenna okkur stærðfræði. Líklega hefur það verið í forföllum, því ég man ekki til þess að stærðfræði væri hans fag. Hins vegar var hann óviðjafnanlegur íslenskukennari og ég man ekki betur en að hann hafi kennt okkur dönsku líka.

Þegar sá sem tekinn hafði verið upp að töflu hafði lokið við að skrifa dæmið upp sagði Gunnar: "Ég held að best sé að byrja á því að útrýma öllum kommum."

Það var ekki fyrr en almennur hlátur glumdi við í skólastofunni sem Gunnar áttaði sig á tvíræðni orðalagsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Lúðvík Nordal? Tengdafaðir Davíðs Oddssonar? Seðlabankastjóra? Tengdafaðir þess Davíðs var Þorsteinn Thorarensen, bókaútgefandi m.m. Er ég að misskilja eitthvað? Kaffi eða te, Sæmundur?

Ellismellur 28.3.2008 kl. 22:06

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Úps, þetta eru pennaglöp hin mestu. Auðvitað var Lúðvík Nordal móðurafi Davíðs.

Sæmundur Bjarnason, 28.3.2008 kl. 22:24

3 Smámynd: Eyþór Árnason

Skemmtilegar sögur Sæmi minn. Kveðja

Eyþór Árnason, 29.3.2008 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband