269. - Internetið, Netútgáfan, BBS og fleira

Hvað er Internetið?

Hvernig kynntist fólk því fyrst?

Sumir álitu það bara tölvupóst.

Aðrir irk.

Enn aðrir álíta það bara blogg.

Sumir hafa mestan áhuga á netflakki og álíta það bara vafra.

Internetið þróast. Fyrst var Gopher, svo Lynx, síðan Mosaic, þar á eftir Netscape, þá Internet Explorer o.s.frv.

Þetta er bara um vafrana. Svipað má segja um annað. Ég man að fyrsta póstforritið sem ég notaði hét Elm. Seinna var ég svo sakaður um að vera einn af síðustu notendum þess forrits hér á landi. Upphaf Internetsins má rekja til sjöunda áratugar síðustu aldar þó sumir haldi að þetta sé nýlegt fyrirbrigði.

Internetið er að verða svo altækt í nútímasamfélögum að vel er hægt að tala um byltingu, sem jafna má við prentlistina. Það er hjóm eitt að vera að tala um einstök fyrirbrigði eins og útvarp, sjónvarp, síma eða tölvur í samanburði við Internetið. Heimurinn verður aldrei samur eftir þá byltingu sem Internetið hefur valdið.

Hér á Íslandi var undanfari Internetsins á margan hátt BBS-in svonefndu. Þau voru gríðarlega vinsæl hér á árunum uppúr 1980. Fyrst líklega á Keflavíkurflugvelli, en síðan um landið allt. Svolítið ágrip af sögu þeirra er að finna í Rafritinu sem ég gaf út á árunum eftir 1990. Það má finna á vef Netútgáfunnar. Um Netútgáfuna mun ég ef til vill blogga meira á næstunni.

Netútgáfan var merkileg tilraun sem ég stóð að ásamt börnunum mínum þremur. Netfangið er snerpa.is/net. Ekkert hefur þó bæst við af efni þar síðan árið 2001. Ég hef ekki látið verða af því að breyta netfanginu þó það væri auðvitað í lófa lagið. Vel mætti líka endurvekja þetta framtak. Í rauninni er ég hissa á að enginn skuli gera það. Nóg er til af efni.

Í fyrra var ég beðinn um að halda smátölu um Netútgáfuna á bókavarðarþingi eða einhverju þessháttar sem haldið var á Selfossi. Ef til vill mun ég birta þá samantekt fljótlega.

Afleiðing af því hve oft ég blogga og mikið er sú að ég óttast stundum að ég sé að endurtaka mig. Þó held ég að ég hafi ekki gert mikið af því hingað til. Hafi einhverjir samt orðið varir við slíkt bið ég þá endilega að láta mig vita í kommenti. Þau les ég alltaf. Svo má líka senda mér e-mail á netfangið saemi@snerpa.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Mér finnst þú ekki endurtaka þig...

Þetta var áhugaverð færsla eins og allar hinar.

Es. Takk fyrir að skrá þig á BLOGG - TOPPLISTANN. Ef þú þarft hjálp við að setja tengilinn á bloggið þitt (nauðsynlegt að hann sé með) sendu mér þá e-póst ( eysteinsson@compaqnet.se ) 

Gunnar Helgi Eysteinsson, 5.3.2008 kl. 06:34

2 identicon

Isss, ProCom! Kermit er og var málið. Svo kom ýmislegt annað sem ýtti aldeilis við ímyndunaraflinu út fyrir 80x24 stafina. Aldrei hefði maður trúað hvað það er orðið ekki mörgum árum seinna.

Kv

trigger

Tryggvi R. Jónsson 5.3.2008 kl. 18:16

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, blómatími BBS-anna var skemmtilegur. Svo kom menntanetið og ég man að ég var með þeim fyrstu til að tengjast því án þess að vera tengdur skóla.

Gaman að heyra í þér Tryggvi. Ég hélt allaf að þú værir kennari en ekki nemandi þangað til ég hitti þig.

Sæmundur Bjarnason, 5.3.2008 kl. 18:21

4 identicon

Þetta voru miklir framfaratímar en svona til að þú hefðir nú á endanum rétt fyrir þér þá tók ég kennsluréttindanám ;)

Tryggvi R. Jónsson 5.3.2008 kl. 20:33

5 identicon

Svipað framtak og netútgáfan er í gangi á http://is.wikisource.org/

Þar er að finna efni sem hefur til dæmis verið birt á Project Gutenberg og farið í gegnum prófarkalestur Distributed Proofreaders.

Jóhannes Birgir Jensson 6.3.2008 kl. 10:52

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, einmitt. Þeir fengu leyfi til að nota textana frá Netútgáfunni og eru að vinna í þessu og bæta við. Ég hef bara ekki fylgst nógu vel með þessu. Þakka þér fyrir að minna mig á þetta. Þessi starfsemi er á öðrum grunni en Netútgáfan var á sínum tíma og auðvitað er það bara eðlilegt.

Sæmundur Bjarnason, 6.3.2008 kl. 12:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband