30.1.2008 | 02:34
235. - Fischer, blogg almennt, íslenskt mál og nýyrði
Mér virðist Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson geta um fátt annað bloggað en Fischer og hugsanlegan arf eftir hann.
Fyrir mér er Fischer dauður og grafinn. Erfðamál hans finnst mér ekki koma mér við. Vel geta orðið einhverjar deilur um þau síðar meir, en mér finnst óþarfi að vera að bollaleggja um þau fram og aftur núna.
Af hverju skyldi ég vera að bögglast við að blogga næstum því á hverjum degi? Ekki geri ég mér vonir um að breyta heiminum. Ekki held ég að mikil eftirspurn sé eftir áliti mínu á hinum ýmsu málum. Og ekki er ég svo frægur að minni spámenn hópist að mér eins og flugur að mykjuskán. Ekki blogga ég oft á dag og reyni að linka í allar þær fréttir sem koma á mbl.is eins og sumir virðast gera. Í alvöru talað hvernig skyldi standa á því að nokkur hópur fólks (ekki mjög stór að vísu) skuli daglega kjósa að kíkja á bloggið mitt? Ég bara skil þetta ekki.
Hvað skyldu bloggarar á Íslandi vera margir? Hvað ætli Moggabloggarar séu stór hluti af þeim? Hvenær verða menn bloggarar? Hvað þarf að blogga mikið til þess? Hve oft? Hve langt? Hve reglulega? Og svo framvegis. Skyldi blogg hafa áhrif? Stundum vinna fjölmiðlamenn sér það til hægðar að vitna fram og aftur í blogg. Það sýnir bara þeirra eigin leti. Er til eitthvað sem heitir Bloggþörf? Er blogg árátta? Hve margir lesa blogg? Til hvers lesa menn blogg?
Bloggið er ágæt aðferð fyrir fjölskyldur og allskyns hópa til að halda sambandi og ræða um allt mögulegt. Fólk er oft svolitla stund að ná úr sér hrollinum við þetta en með tímanum verður það ósköp eðlilegt. Þeir sem eru með ritræpu eins og ég geta skrifað fjandann ráðalausan ef þeir kæra sig um, en gæta þess bara að fylgjast með því sem aðrir segja.
Íslenskt mál hefur lengi verið mér hugleikið. Einu sinni fyrir löngu síðan fór ég á tölvusýningu í Þjóðarbókhlöðunni. Þar fluttu nemendur við tölvudeild háskólans erindi um hin ýmsu mál sem tengdust tölvum. Sum þessara erinda hlustaði ég á og man að mér kom á óvart hve flytjendurnir vönduðu sig við að finna íslensk orð yfir allt mögulegt sem að tölvum laut. Á þeim tíma óðu ensk orð uppi um þetta og voru miklu tamari þeim sem við tölvur unnu. Ekki er mér ljóst hvort þetta hafði áhrif.
Eru orð eins og gemsar og lappar að vinna sér þegnrétt í málinu? Orðið tölva hefur greinilega gert það, en fjöldi fólks virðist þó halda að segja eigi talva.
Nýyrði þurfa að henta vel í allskyns beygingum og samsetningum til að geta talist góð. Gemsar og lappar falla ágætlega að þeim kerfum sem fyrir eru. Mér finnst vanta orð yfir það sem á löppum er gjarnan notað fyrir mús. Skrats-mús eða kropp-mús eru afleit orð. Orðið mús er þjált í samsetningum og skilst vel. Engin nauðsyn er þó að það sé hluti af því orði sem þarna þarf að koma.
Árni Mathiesen er sennilega sá sem mest hefur haganast á fjölmiðlasirkusnum að undanförnu. Andstæðingar hans í dómaraskipunarmálinu fræga voru einmitt að ná sé á strik þegar það mál hvarf skyndilega úr umræðunni. Nú þarf sennilega tvöfalt átak til að koma því í umræðuna á ný og Árni sleppur líklega með skrekkinn.
Ofan gefur snjó á snjó.
Snjóum vefur flóa tó.
Tófa grefur móa mjó.
Mjóan hefur skó á kló.
Svona var einu sinni ort. Og dýrt er kveðið, ekki vantar það. Mér finnst nóg komið af andskotans snjónum. Nú mætti vorið alveg fara að koma.
Athugasemdir
Ég held nú að ferðavél eða fartölva sé álíka algengt eins og að segja lappi. Sjálf nota ég yfirleitt fartölva. Að sama skapi reyni ég yfirleitt að nota farsími frekar en gemsi :) Mér finnast gemsi og lappi leiðinleg orð.
Hef ekki heyrt margar tilraunir til að íslenska touch pad, hvað með snerti mús?
Hafdís 30.1.2008 kl. 19:26
Já já. En það eru samt margir sem nota orðin gemsi og lappi. Það er líka ekkert á móti því að til séu nokkur orð um þessi merkilegu fyrirbæri. Snertimús lítur ágætlega út. Ég held að það sé jafnvel betra að hafa það bara í einu orði.
Sæmundur Bjarnason, 30.1.2008 kl. 23:08
Ég nota alltaf orðið gemsi, líka í þýðingum og prófarkalesarar láta það óáreitt. Orðið er komið inn í íslenska orðabók (Marðar) en merkt þar með orðinu "slangur". Fartölvu nota ég alltaf, aldrei lappa, og mér finnst orðið snertimús ljómandi gott yfir þetta fyrirbæri - sbr. touch-screen er snertiskjár.
Orð eru skemmtileg!
Lára Hanna Einarsdóttir, 30.1.2008 kl. 23:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.