168. blogg

Gíslína í Dal er dáin.

Hún var mikil hetja. Ég þekkti Gíslínu afar lítið, en fjölskyldu hennar og frændgarð dálítið. Auðvitað vissum við öll að endalokin voru nærri. Hún ekki síður en aðrir. Engu að síður bloggaði hún af fádæma æðruleysi og yfirvegun. Hún var afburða vel ritfær og leyndi engu í skrifum sínum. Hún fegraði málin ekki heldur og sagði frá því sem á daga hennar dreif og skrifaði einnig um málefni dagsins. Með Gíslínu sjáum við á bak konu sem þorði, vildi og gat.

Hvernig í ósköpunum fann Birgitta Jónsdóttir bloggið mitt? Varla les hún öll Moggabloggin. Kannski leitaði hún að nafninu á mömmu sinni. Þetta er nú bara forvitni hjá mér, ég kann illa á þetta dót. Ég sé samt ekki betur en ég sé orðinn númer 366 á vinsældalista Moggabloggsins, sem er mjög gott. Og svo er bloggvinum mínum að fjölga þessa dagana frekar en hitt.

Enn á ný er torrent.is komið í fréttirnar. Þetta með að menn sameinist um að hjálpa hverjum öðrum um dýr forrit er auðvitað ekkert nýtt. Ég held að einhver slík mál séu að veltast í dómskerfinu einmitt um þessar mundir og vissulega eru hlutir oft fljótir að breytast í þessum geira. Skaðabótakröfur þeirra sem fordæma þetta framtak eru oft ákaflega mikið í skýjunum. Afbrot þeirra sem að þessu standa eru heldur ekki neitt óljós. Lög og lagatúlkanir í þessum efnum eru hins vegar langt á eftir tímanum og rót vandans liggur kannski þar.

Ég man vel eftir því þegar rokkið kom til landsins. Allt í einu urðu allir, sem vildu teljast vera eitthvað, að vera í hvítum þröngum peysum og svörtum gallabuxum með hvítum saumum. Ég skildi aldrei almennilega af hverju þetta var, en svona var þetta bara.

Svo man ég vel að ég heyrði á þessum árum fyrst minnst á Harry Belafonte og hlustaði með mikilli aðdáun á hann syngja Banana boat song. Ég minnist náttúrlega ekki á Presley sjálfan. Hann var í guðatölu og menn leggja ekki nafn hans við hégóma. Svo fóru rokk og ról kvikmyndir að koma til Reykjavíkur, en búandi í nápleisi langt frá höfuðstaðnum þá hafði maður náttúrlega ekki mikinn sjens á að sækja svoleiðis. Ég er samt ekki frá því að einhverjar þeirra hafi komið til Hveragerðis löngu seinna, en ekki eru þær sérlega minnisstæðar.

Mig minnir að ég hafi sagt eitthvað um bílskúrinn hans Jóns Guðmundssonar í síðasta bloggi. Auðvitað er rangnefni að kalla þetta bílskúr. Jón hefði áreiðanlega aldrei gert það sjálfur. Skúrar af ýmsu tagi voru á þessum árum karlmönnum mjög kærir og eru líklega enn. Jón Guðmundsson og Magnús Hannesson í Grasgarðinum sameinuðust um að byggja veglegan skúr á lóðamörkunum milli lóða sinna og áttu hvor sinn helminginn.

Jón var smiður og fékkst eflaust við eitthvað sem tengdist þeirri iðn í sínum helmingi. Magnús var hinsvegar með búskap í sínum hluta. Þar hafði hann nokkrar kindur sem hann annaðist. Mér er minnisstætt að hann slátraði heima á haustin og við krakkarnir sóttum mikið í að liggja einhvers staðar í leyni til að horfa á þegar kindurnar voru skotnar. Auðvitað máttum við það ekki, en það var óheyrilega spennandi að sjá þetta.

Þá eru það gömlu myndirnar. Ég á ennþá eitthvað eftir af þeim og Bjössi sendi mér einmitt nýjan skammt í dag.

Á þessari mynd eru þau systkinin Sigrún, Ingibjörg og Vignir. Vignir er þarna eins og dálítið klemmdur milli systra sinna en engin ástæða til að vorkenna honum það.

 

 

 

 

 

 

 

Hér hafa þau sest niður og þetta er eiginlega ágætismynd.

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er aftur á móti mynd sem ég veit fremur lítið um. Vel getur verið að hún sé tekin á skátamóti sem haldið var við Hagavík í Grafningi einhvern tíma á sjötta áratugnum. Ég er ekki með öllu viss um hverjir þetta eru en skal reyna að segja frá hverja ég þekki. Það gæti verið Jósef Skaftason sem er lengst til vinstri og snýr baki í myndavélina. Fyrir framan hann er hugsanlega Jóhannes Finnur bróðir hans. Sá stóri sem er framan við fánann og næstur í röðinni er hinsvegar nokkuð auðþekktur. Það er áreiðanlega Jói á Grund. Við hliðina á honum gæti verið Óskar Bjarnason síðan Atli Stefánsson og haldandi um stöngina á miðri mynd gæti vel verið Muggur, þ.e. Guðmundur Stefánsson bróðir Atla. Við hliðina á honum sýnist mér vera Guðmundur Bjarnason bróðir Óskars og síðan lengst til hægri og dálítið frá hópnum er greinilega Ásgeir Jónsson. Ég get með engu móti áttað mig á hver það er sem heilsar að skátasið (eða hermanna) bak við röðina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband