120. blogg

Margt og mikið mætti skrifa um bloggskrif og blogglestur, að ég tali nú ekki um bloggvini og önnur bloggsetur en Moggabloggsetrið.

Held að ég geri það samt ekki núna. Einhverjir gætu fonnemast.

Já, ég sé að dönskusletturnar eru mér oft eðlilegar. Fonnemast þýðir móðgast og er afbökun úr dönsku en þar er gjarnan sagt at blive fornærmet. Í mínu ungdæmi var þetta þó sagt svona. Krakkarnir mínir og sumir aðrir sem ég umgengst skilja stundum ekkert í þessum dönskuglósum mínum. Nú á dögum er það enskan sem öllu ríður á slig.

Verst hvað fáir lesa mitt eðla blogg. Þeir geta sjálfum sér um kennt og ekki get ég gert að því þó þeir missi af einhverju vel sögðu og góðum dönskuslettum.

Líka er hægt að skrifa um hvernig maður notar bloggið. Ég er t.d. nú nýlega búinn að uppgötva að miklu betra er að skrá sig inn á bloggið og skruna þar yfir nýjustu færslurnar hjá bloggvinunum en að gera þetta eins og ég var vanur. Þ.e. að klikka á myndirnar eða nafnið hjá þeim. Ég vil nefnilega gjarnan fylgjast með því hvað mínir bloggvinir skrifa. Með þessu móti getur það verið viss ókostur að eiga of marga bloggvini enda safna ég þeim ekki eins og frímerkjum líkt og sumir virðast gera.

Bjarni er búinn að fá pakkann sinn. Merkilegt nokk þá var hann alveg látinn í friði. Bjarni fékk því sinn harðfisk og sitt Ópal ósnert. Bahamabúar kunna ekki að meta svona góðgæti svo hann getur líklega setið að þessu einsamall. Annars er aukabrúðkaupsveisla hjá honum í dag. Vona að allt gangi vel þar.

Spjallaði talsvert við Bjarna í gær gegnum tölvuna, en slíkt kostar víst ekki neitt. Það er af sem áður var þegar maður tímdi helst ekki að tala í síma til útlanda því það var svo dýrt. Nú er aftur á móti orðið svo dýrt að senda pakka til útlandsins að það gerir maður helst ekki.

Auðvelt er að skrifa langt mál um lítið efni. Vonandi er þó ekki of seinlegt að lesa þetta raus.

Mundi skyndilega og óforvarendis  (dönskusletta enn og aftur) eftir einu bæjarnafni til viðbótar við þau sem ég greindi frá um daginn: Það er nafnið Bognibrestur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyþór Árnason

Já mér finnst þú eigir að sletta dönsku áfram. Við megum ekki gleyma því að einu sinni áttum við danskan kóng. Og það er ljótt að sparka í hunda, þótt stundum yrði maður arfavitlaus út í þá.

Eyþór Árnason, 22.9.2007 kl. 15:03

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já og ég er meira að segja fæddur í konungsríkinu Íslandi, hugsið ykkur það elsku börn.

Sæmundur Bjarnason, 22.9.2007 kl. 16:24

3 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Minnir mig á mömmu sem í mínu ungdæmi brá fyrir sig þessum dönskuslettum og mér þótti hið eðlilegasta mál enda hluti af máltilverunni í Dal. Íslenskan var samt í hávegum höfð og við leiðrétt í tíma og ótíma til að kenna okkur gott íslenskt mál. Mamma er af einhverjum ástæðum hætt að sletta 

Gíslína Erlendsdóttir, 23.9.2007 kl. 19:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband