30.8.2007 | 02:57
106. blogg
Ég sé að margir bloggarar skrifa gjarnan mun styttra mál en ég og eru alls ekki jafnfastir í fortíðinni.
Málæði mitt er reyndar með ólíkindum og getur varla haldist til eilífðarnóns. Einhvern tíma tekur þetta enda. En er á meðan er. Meðan ég hef gaman af að skrifa held ég því eflaust áfram.
Ég hef stundum verið að velta því fyrir mér hvort ég ætti ekki að stefna á að myndskreyta bloggið mitt. Einu sinni þóttist ég vera ágætur myndasmiður. Mér finnst bara að myndskreyting sé dálítið mikið vesen. Ég mundi ekki nenna að vera alltaf með myndir. Sumir stunda það greinilega að safna saman furðulegum myndum af netinu og setja þær á bloggið sitt. Ég býst frekar við því að ég mundi einskorða mig við eigin myndir.
Í gær rakst ég á áhugavert og skemmtilegt blogg á Moggablogginu. Það er eftir Gest Gunnarsson. Ég man vel eftir Gesti síðan ég vann á Stöð 2. Þá var hann að mig minnir mest við gerð sviðsmynda og ýmiss konar aðstoð við þáttagerð.
Hann kallar sjálfan sig í blogginu forstjóra Ritverkamiðstöðvarinnar þá sjaldan hann víkur frá því að skrifa endurminningar sínar. Sumt af þessu held ég að hann hafi verið búinn að skrifa áður, en búti það svo niður og setji í smáskömmtum á bloggið.
Ég hef ekki hugmynd um hvað eða hvar þessi Ritverkamiðstöð er og Gúgli virðist ekki kannast við hana. Kannski er hún bara hugarfóstur Gests.
Hann er lærður pípulagningamaður en hefur lagt gjörva hönd á margt annað um dagana og er sagt frá sumu af því á blogginu.
Meðal annars er þetta af blogginu hans:
=====================
Á morgnana mættum við í olíustöð Olíufélagsins sem var úti á flugvelli og fengum lista yfir biluð kynditæki sem við svo gerðum við. Mikið tengdist þetta frostinu því að í olíunni var vax sem storknaði í frosti og þá drapst á fýringunni.
Ef einhver truflun varð á eldinum sló öryggi út og þurfti maður oft ekki að gera annað en setja það inn aftur. Allur þessi búnaður var svo fullkominn að lítill möguleiki var á að kviknað gæti í þess vegna og hefi ég aldrei getað skilið hvernig olíukynditæki gat kveikt í sumarbústað forsætisráðherrans á Þingvöllum.
========================
Þetta er allt gott og blessað. En mér finnst þetta síðasta ekki passa alveg. Ég veit að vísu ekki neitt um brunann á Þingvöllum, en man mjög vel eftir honum. Ég veit samt af eigin reynslu að olíukynditæki geta kveikt í. Þar sem eldur er þar getur kviknað í hvort sem öryggisbúnaður er mikill eða lítill. Þessu kynntist ég vel á Vegamótum. Þegar ég kom þangað fyrst var brennari í búðinni og veitingahúsinu en sjálfrennandi olía í íbúðarhúsinu.
Í íbúðarhúsinu rann olían bara inn í ketilinn í gegnum skammtara sem stjórnaði því hvort mikil eða lítil og olía rann inn í ketilinn og þarmeð hve mikill eldurinn var eftir að kveikt hafði verið í olíunni. Þessi aðferð er á margan hátt varasöm og gæti ég sagt margar sögur frá þeim málum og geri kannski seinna.
Brennararnir eru mun betri en þeim fylgir sá ókostur að ef rafmagnið fer þá fer hitinn líka. Á þessum árum (uppúr 1970) var rafmagnsleysi nokkuð algengt a.m.k. á þessum slóðum.
Ég gæti vel trúað að einn af leyndardómum þess að vera vinsæll á blogginu sé að blogga reglulega. Líklega er það þess vegna sem ég hef bloggað svona mikið að undanförnu. Nei annars, mér er víst alveg sama hvort margir eða fáir lesa þetta.
Einhver var að bollaleggja um það um daginn að vinsældir bloggs mætti betur marka af fjölda athugasemda en fjölda heimsókna. Þessu er ég alls ekki sammála og satt að segja vorkenni ég þeim (ef þeir eru einhverjir) sem fá fleiri athugasemdir en heimsóknir.
Áhugavert innlegg frá Salvöru Gissurardóttur sá ég alveg nýlega þar sem hún ræðir um það hvernig Morgunblaðið stjórnar umræðunni á Moggablogginu. Ráðlegg þessum örfáu lesendum mínum að fylgjast með skrifum Salvarar, hún veit svo sannarlega sínu viti.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Blessaður Sæmundur. Gaman að finna þig á blogginu. Ég er viss um að þú er með nokkrar sögur frá gömlu Stöð tvö í pokahorninu rétt eins og Gestur. Kveðja,
Eyþór Árnason, 30.8.2007 kl. 20:48
Blessaður.
Já, eflaust gæti ég sagt ýmislegt frá árunum á Stöð 2 og kannski á ég það eftir. Ég er eiginlega mest í einhvers konar minningum, ekki þó eins markvisst og Gestur. Ég gæti best trúað að hann væri að skrifa bók.
Sæmundur Bjarnason, 30.8.2007 kl. 21:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.