28.8.2007 | 03:10
104. blogg
Síðasta blogg mitt var um kjör Vigdísar Finnbogadóttur árið 1980. Skal nú fram haldið því karlagrobbi.
Síðasta bloggi lauk með frægri ræðu minni í Borgarnesi. Hún var semsagt ekki lengri en þetta. Þegar henni lauk kvað við kröftugt lófatak og þó ég segi sjálfur frá þá held ég bara að mitt ávarp hafi verið það besta sem þarna var flutt.
Ástæðan fyrir því að ég gat birt ræðuna orðrétta hér var sú að nokkrum dögum eftir fundinn var komið að máli við mig og ég beðinn að leyfa birtingu ræðunnar í Morgunblaðinu. Ég samþykkti það og þar var hún svo birt þann 26. júní. Að vísu sem innsend grein og engin grein gerð fyrir því að þarna var um ávarp að ræða. Blaðagreinar og ræður eru ekki alveg það sama en kannski stendur þetta alveg undir því að vera kallað blaðagrein.
Eins og flestir vita þá er hægt að skoða mikinn fjölda tímarita á íslensku, færeysku og grænlensku með þvi að fara á timarit.is. Þessi vefsíða er mjög góð og nánast furðulegt hve sæmilega hnitmiðuð leit tekur stuttan tíma. Auk þess er líka oft fróðlegt að blaða í blöðum og tímaritum. Síðast þegar ég vissi voru samt flest tímaritin þarna nokkuð gömul. Þó ekki öll, ég man t.d. ekki betur en Lesbók Morgunblaðsins sé þarna eins og hún leggur sig fram til 2000 a.m.k. Svo er vel líklegt að smátt og smátt bætist efni við.
Þegar ég fer að íhuga málið betur sýnist mér að ræðuhandritinu hafi eitthvað verið breytt. T.d. er útilokað að lokasetningin hafi verið nákvæmlega svona hjá mér á fundinum en að segja á sunnudaginn kemur getur vel hafa verið rétt þegar hún birtist í Morgunblaðinu 26. júní.
Seinna frétti ég að eftir fundinn hafi staðið til að bjóða öllum sem ávörp fluttu til einhvers konar samsætis með Vigdísi. Ég fannst þá ekki enda hafði ég farið í afmælisveislu strax og fundinum lauk. Sú afmælisveisla var á frumlegum stað eða í gangamannakofa (sem var nú reyndar alls enginn kofi) í Hítardal. Sem betur fer var hægt að komast þangað alla leið á bílum.
Ekki man ég mikið eftir þessari afmælisveislu sem mig minnir að væri haldin vegna afmælis Ingólfs á Flesjustöðum eða hugsanlega Jóns bróður hans í Mýrdal. Áreiðanlega var drukkið eitthvað af brennivíni þarna og ég man að Sveinn Kristinsson frá Dröngum, sem þá var að ég held skólastjóri í Laugagerði var þarna.
Mér er vera Sveins þarna minnisstæð vegna þess að við minntumst eitthvað á væntanlegt forsetakjör og ég man ekki betur en Sveinn hafi verið stuðningsmaður Vigdísar. Annar hvor okkar tók svona til orða man ég mjög greinilega. Heldurðu að stelpan hafi þetta ekki?" Hinn tók að sjálfsögðu undir þetta. Þarna var karlremban semsagt óforvarendis komin uppá yfirborðið.
Mig minnir að það hafi verið daginn eftir Vigdísarfundinn sem 17. júní var haldinn hátíðlegur með hefðbundnum hætti í Skallagrímsgarðinum í Borgarnesi. Meðan á skemmtiatriðum stóð í garðinum varð Halldór E. Sigurðsson fyrrverandi ráðherra á vegi mínum. Hann var þarna á ferð ásamt einhverju fólki sem ég man ekki eftir að hafa þekkt. Hann heilsaði mér og sagði eitthvað á þessa leið: Mér er sagt að þú hafi messað vel á fundinum í gærkvöldi." Ekki man ég eftir að ég hafi getað svarað þessu af nokkru viti, en mig minnir að Halldór hafi verið einn af fáum stjórnmálamönnum sem var eindreginn stuðnigsmaður Vigdísar í forsetakjörinu.
Að lokinni skemmtuninni í Skallagrímsgarði var haldið á Íþróttavöllinn sem þá var austan við Borgarbrautina á móti Esso-stöðinni og við hliðina á húsinu sem einu sinni var prentsmiðja og síðan eitthvað annað og vel getur verið að sé ekki lengur uppistandandi.
Ekki man ég vel eftir nema einu af þeim skemmtiatriðum sem fram fóru á íþróttavellinum. Það var að fulltrúar allra þeirra sem í framboði voru í forsetakjörinu tóku þátt í vítaspyrnukeppni. Þar var ég fulltrúi Vigdísar og ég man bara eftir einum öðrum af þátttakendunum. Það var Guðjón Yngvi Stefánsson framkvæmdastjóri Sambands Sveitarfélaga á Vesturlandi, hann var fulltrúi Péturs Thorsteinssonar. Guðjón þekkti ég síðan ég var að alast upp í Hveragerði. Hann er sonur Stefáns hreppstjóra sem þar bjó örskammt frá Bláfelli. Guðjón er nokkrum árum eldri en ég og ég þekkti flesta eða alla bræður hans og sá yngsti þeirra var bekkjarbróðir minn.
Ekki man ég nákvæmlega hvernig vítaspyrnukeppnin fór fram en ég man vel að ég sigraði glæsilega í henni. Gætti mín bara á því að skjóta nokkuð fast og að hitta á markið, en það tókst ekki öllum. Guðjón var reyndar miklu betri knattspyrnumaður en ég. Var á sínum tíma sjálfsagður í úrvalslið Hveragerðis og mikill markaskorari. Var samt aldrei mjög góður skallamaður, en markheppinn með afbrigðum. Mig minnir að á unglingsárum hafi heyrnarleysi hrjáð Guðjón og hann hafi gengist undir uppskurði á höfði útaf því og að það hve erfitt hann átti uppdráttar sem skallamaður í knattspyrnu hafi tengst því.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.