3041 Á erfitt með að skrifa um annað enTrump eða veiruna

Ég hélt að mannkynið mundi sameinast um að ráða niðurlögun kórónaveirunnar slæmu, en svo er ekki. Eins og fyrri daginn ætla lyfjarisarnir að græða feitt á þessum faraldri. Eflaust hafa þeir sínar afsakanir á reiðum höndum. Evrópusambandið tók þátt í happdrætti miklu um bóluefni, sem efnt var til, og tapaði. Að minnsta kosti virðist það hafa tapað dýrmætum tíma fyrir öðrum stórþjóðum og samböndum. Líklega verður það samt þriðji heimurinn sem tapar mestu í mannslífum talið, þegar allt kemur til alls, en það er bara vaninn. Þeir ríku fljóta alltaf ofaná.

Að mörgu leyti takmarkar það mín skrif að ég skuli alltaf skrifa mest um það sem hæst ber í fréttum hverju sinni. Í raun og veru er það einskis virði. Það er svo margt annað sem er merkilegra en það. Samt er það svo með mig að minnsta kosti, að með aldrinum hefur áhugamálum mínum fækkað verulega.

Nú er svo komið að mér þykir fátt skemmtilegra en að velta fyrir mér heimsmálunum. Verst hvað fáir virðast hafa svipuð áhugamál og ég. Þó get ég eiginlega ekki kvartað. Ef ég læt svo lítið að blogga fæ ég venjulega svona eitt til tvöhundruð heimsóknir. Ekki læt ég mig dreyma um að ég hafi mikil áhrif á hugsunarhátt þeirra sem þetta blogg lesa. Það er heldur ekki tilgangurinn. Ég er að þessu einkum sjálfum mér til hugarhægðar.

Pólitíska afstöðu hika ég þó ekki við að taka. Forðast samt ástæðulaus stóryrði. Þykist vera vinstri sinnaður, en er það kannski ekki. Óhóflega íhaldssamur kynnu einhverjir að segja. Að minnsta kosti innhverfur (introvert). Gott ef ekki á einhverfurófinu. Man alltaf eftir því að Þorsteinn Antonsson skilgreindi sjálfan sig sem með Asperger-heilkenni. Sem ég hef hingað til haldið að væri á einhverfurófinu. Núorðið má vist ekki segja að fólk sé einhverft, pólitískri rétthugsun samkvæmt á víst að segja að það sé á einhverfurófinu. Já, ég las eitt sinn flestar bækur hans. Það er að segja Þorsteins Antonssonar. Konan min er þar að auki bekkjarsystir hans frá Laugarvatni. Og já, hann var eða er svolítið skrýtinn. Ég er samt ekki að líkja mér við hann sem rithöfund, en kannski er ég á þessu margumrædda rófi. Ofarlega vonandi.

Allir sem mér eru nákomnir eða eiga einhver samskipti við mig, eru sálgreindir miskunnarlaust af mér, þó ég skrifi lítið um það hér. Og reyndar hvergi. Skrifa lítið um sjálfan mig, eða það finnst mér allavegana. Hef allt þetta faraldursár 2020 haldið mig nokkurn vegin alveg við það uppátæki mitt að taka upp svokallað „intermittent fasting 16:8“ og það hefur orðið þess valdandi að mér hefur tekist að létta mig talsvert en þó ekki alveg nógu mikið.

Sennilega hef ég farið rangt með nafn leiðtoga öldungardeildar bandaríkjaþings í bloggi hér fyrir nokkru. Hann heitir Mitch McConnell og hefur að undanförnu verið að semja við leiðtoga fulltrúadeildarinnar um aðstoðarpakka ríkisvaldsins vegna veirunnar margfrægu. Hún heitir Nancy Pelosi (altsvo leiðtogi fulltrúadeildarinnar ekki veiran) og nú er í gildi fjárveiting sem dugir til sunnudagskvölds nk. Trump hefur samþykkt þá aukafjárveitingu og ef þingið kemur sér saman um þennan pakka er reiknað með að Trump skrifi undir hann líka.

Mitch McConnel virðist vera búinn að fá nóg af ruglinu í Trump og óskaði Biden til hamingju með sigurinn um daginn og hlaut að launum fordæmingu Trumps. Sumir óttast jafnvel að Trump geri eitthvað alvarlegt af sér síðust daga sína í embætti, en ég held að hann geri það ekki. Haldi samt áfram að berjast í dómstólum því hann neitar með öllu að trúa því að nokkur maður í heiminum sé sér fremri í neinu. Elskar samt USA, held ég. Annars eru bandarísk stjórnmál svo margflókin að erfitt er að botna í þeim. Mikilvæg eru þau engu að síður.

IMG 5130Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Föðurlandsvinurinn Donald J. Trump yfirgaf lífstíl sinn sem miljarðamæringur til að þjóna Guði og Bandaríkjunum.

Föðurlandssvikarinn Joe Biden falsaði kosningar í Bandaríkjunum og seldi sál sína guðlausum Kommúniarflokki Kína til að geta lifað lífstíl miljarðamærings.

Hér á landi eru menn einnig að selja landið sósialistum Evrópusambandsins.

Í Mattheusarguðspjalli 16:26 stendur skrifað:

"Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?

Guðmundur Örn Ragnarsson 22.12.2020 kl. 22:06

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Evrópusambandsríkin hafa samið um kaup á meira bóluefni gegn Covid-19 en Bandaríkin, miðað við íbúafjölda þessara ríkja, samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni. cool

Og enda þótt bólusetning sé hafin í Bandaríkjunum dóu þar um 3.400 manns vegna Covid-19 síðasta sólarhring.

Öll Evrópusambandsríkin og Noregur hafa nú þegar samið um að fá 72% meira af bóluefni gegn Covid-19 en allir íbúar þessara landa þurfa, Bandaríkin 54% meira og Ísland 27% meira en allir landsmenn þurfa.

Bólusetning gegn Covid-19 hefst í Evrópusambandsríkjunum og hér á Íslandi eftir nokkra daga. cool

Og heilbrigðisráðuneytið ætlar að skrifa undir samning um kaup Íslands á bóluefni Moderna á gamlársdag.

Reiknað er með að
Lyfjastofnun Evrópu samþykki það bóluefni eftir tvær vikur, 6. janúar, og mánuði seinna bóluefni AstraZeneca.

Þar að auki þarf ekki að bólusetja nema 60-70% af íbúum hvers lands til að ná hjarðónæm
i og stefnt er að því að um 75% íbúa Íslands, sem fæddir eru árið 2006 eða fyrr, verði bólusettir. cool

Covid-19 Tracker - Bloomberg

Vaccination of Health Workers to Start in Hungary on December 27

Þorsteinn Briem, 23.12.2020 kl. 11:04

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þú verður að gera það áramótaheit að hætta að skrifa um Trump og veiruna. Skrifa þess í stað um Biden og veiruna embarassed

Þorsteinn Siglaugsson, 23.12.2020 kl. 15:23

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Held að ekki verði eins spennandi að skrifa um Biden. Þó held ég að hann verði ekki eins sundrandi eins og Trump. Kannski kann hann betur að velja sína meðreiðarsveina.

Veiran er ég hræddur um að sé allsekki á förum.

Sæmundur Bjarnason, 24.12.2020 kl. 10:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband