3015 - Um nafnlausa frænku mína

Frænku átti ég sem eflaust er dáin núna. Man ekki með vissu hvað hún hét. Einhverju sinni kom hún í heimsókn til okkar í Hveragerði. Stoppaði í nokkra daga og gisti. Á þeim tíma voru allar leiðir lengri en núna. Kannski var hún úr Vestmannaeyjum. Það gæti skýrt gistinguna. Einn daginn tilkynnti hún að hún ætlaði þennan daginn í langferð upp að Reykjum í Ölfusi gangandi. Okkur heimilisfólkinu á Bláfelli blöskraði þessi gönguferð ekki tiltakanlega. Fannst líklega ekki um sérlega langan veg að fara. Þar ætlaði þessi frænka mín að hitta fólk, sem hún sagðist þekkja.

Hún lagði síðan af stað, en kom afskaplega andstutt til baka að nokkrum tíma liðnum og sagði sínar farir ekki sléttar. Hún hefði neyðst til þess að snúa við því hún hefði á leiðinni rekist á hóp sauðnauta sem væru stórhættuleg dýr. Þetta varð tilefni mikilla heilabrota, því þó við Ingibjörg segðum henni að engin sauðnaut væru finnanleg á Íslandi lét hún sér ekki segjast. Mamma var einnig mjög skeptísk á þetta með sauðnautin, en hún hefur eflaust verið sú sem fyrst frétti af þessu. Fleiri tóku og undir þetta með okkur. Gott ef skólabækur um dýrafræði voru ekki dregnar fram. En það var sama hvað sagt var það hafði bókstaflega engin áhrif. Hún hélt fast við það að hún hefði séð sauðnaut á leiðinni upp að Reykjum og neyðst til að snúa við.

Ekkert varð úr þessari Reykjaferð og þar kom að þessi frænka mín hvarf til síns heima, sem ég veit ekki gjörla hvar var. En lengi á eftir varð þessi sauðnautasaga tilefni mikilla heilabrota hjá fjölskyldunni. Helst vorum við á því að hún hefði eitthvað villst af leið og ef til vill rekist á kúa- eða nautahóp á leið sinni.

Þessi saga er frábrugðin þeim sögum sem ég hef sett hér á bloggið mitt að undanförnu, að því leyti að hún er alveg sönn. Að minnsta kosti í aðalatriðum.

IMG 5460Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Steini. Ég var alveg búinn að steingleyma þessu. Þetta sem ég er að lýsa þarna gerðist um eða líklega rétt eftir 1950.

Sæmundur Bjarnason, 11.10.2020 kl. 22:34

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Verst að sauðnautaræktin skuli hafa misheppnast. Því í sauðnautinu sameinast þær tvær hálfvonlausu búgreinar sem sífellt er reynt að halda hér uppi með ærnum tilkostnaði, og bóndinn sjálfur.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.10.2020 kl. 22:59

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Mér finnst reyndar skemmtilegt, með frænku þína, að þú skulir hvorki vita hvort hún er dauð né hvað hún hét. Þú ert greinilega ekki það sem kallað er ættrækinn maður.

Eiginlega þyrfti að semja um þetta stöku. En ég nenni því ekki. Kannski nennir nafni því.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.10.2020 kl. 01:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband