3012 - Ansi er þetta skrýtið

Svo virðist vera sem einhverjir hafi haft fyrir því að lesa langlokuna sem ég setti á bloggið mitt um daginn. Allt er þetta satt og rétt. Athugasemdir hef ég samt fengið. Fyllstu nákvæmni er ekki allsstaðar gætt.

Þannig er nú mín minning af þessum atburðum. Aðrir hefðu eflaust skrifað þetta öðruvísi. Við því er ekkert að gera. Engir hafa mér vitanlega gert það.

Moggabloggið er minn staður. Undanfarið hef ég talsvert fylgst með vinsældum bloggara þar. Hægt er að sjá þær með því að fara í vinsældagluggann. Páll Vilhjálmsson er í sérflokki þar. Sennilega er það vegna þess að hann skrifar eitthvað lítilsháttar á hverjum degi. Svo er það náttúrulega pólitíkin. Hann skrifar helst ekki um annað, en er þó mjög stuttorður. Þar að auki minnir mig að Davíð Oddsson hafi einhverntíma hrósað honum og stundum held ég að Staksteinarnir frægu séu endurtekning á einhverju sem hann hefur haldið fram. Annars er ég ekki áskrifandi að Morgunblaðinu og les það afar sjaldan. Sennilega fá margir sína pólitísku línu frá Páli.

Halldór Jónsson og Ómar Ragnarsson koma svo í humáttina á eftir Páli. Halldór er hægrisinnaður mjög, en Ómar Ragnarsson vinstri sinnaður. Halldór skrifar oftast stutt ef hann skrifar þá sjálfur. Endurbirtir oft langar greinar, sem honum finnst athyglisverðar og það er að mörgu leyti vel þess virði að fylgjast með honum.

Ómar Ragnarsson linkar oftast í fréttagreinar sem birtast á mbl.is og setur á blað ýmislegt sem honum dettur í hug í því sambandi. Hann hefur ansi fjölþætta reynslu á mörgum sviðum en lætur stundum vaða á súðum og bloggar stundum oft á dag.

Þessir þrír eru greinilega mjög vinsælir og fá oft fjölmargar athugasemdir. Sjálfum hefur mér tekist að halda mér innan við 50 nokkuð lengi. Hægt er að fá vinsældalista frá 50 til 400. Satt að segja er ekki mjög vinsælt að skrifa á Moggabloggið nú um stundir. Fésbókin er miklu vinsælli. Þó eru margir, og þar á meðal ég, sem hafa ekki sérstakt álit á henni. Sem samskiptamiðill er hún þó óviðjafnanleg. Bloggið er meira til að láta ljós sitt skína. Á Moggablogginu eru flestir þeirra sem ofarlega eru á vinsældalistanum annaðhvort mjög hægri sinnaðir í pólitík eða pínulítið skrýtnir.

Frá íslenskulegu sjónarmiði er orðið skrýtinn svolítið skrítið. Mér er ekki kunnugt um að mörg orð á íslensku megi (samkvæmt ströngustu reglum) skrifa með eða án upsilons án þess að merkingin breytist nokkuð.

Eflaust gæti ég skrifað miklu meira um Pál, Halldór og Ómar en ég gerði hér að ofan. Ætla samt ekki að þreyta lesendur mína með því.

IMG 5470Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Öfgahægrikarlarnir Páll Vilhjálmsson og Halldór Jónsson, sem blogga einna mest hér á Moggablogginu, nokkrum sinnum á degi hverjum árum saman, gapa hér væntanlega til að reyna að hafa áhrif á samfélagið og ákvarðanir stjórnvalda en þeir hafa sem betur fer engin áhrif. cool

Múslímar fá hæli hér á Íslandi, rafbílar eru hér sífellt stærri hluti nýrra bíla, Landspítalinn verður stækkaður við Hringbraut, Borgarlínan verður lögð, verið er að þétta byggðina á öllu höfuðborgarsvæðinu og flugvöllurinn fer af Vatnsmýrarsvæðinu. cool

Samfylkingin, Vinstri grænir, Viðreisn og Píratar mynda nú meirihluta borgarstjórnar og langlíklegast að sömu flokkar myndi næstu ríkisstjórn, enda er núverandi ríkisstjórn fyrir margt löngu kolfallin samkvæmt skoðanakönnunum. cool

Þorsteinn Briem, 1.10.2020 kl. 13:58

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta moggablogg er eiginlega hálfgert forneskjufyrirbæri ef maður spáir í það. Það les þetta varla nokkur maður þótt af einhverjum ástæðum sé bullið í Páli Vilhjálmssyni gjarna uppistaðan í Staksteinum, sérstaklega ef það er vel fasískt, svona eins og sigin grásleppa sem er orðin ónýt og búið að keyra yfir hana. Þegar maður skoðar listann yfir 50 vinsælustu bloggin er hægt að telja konurnar á fingrum annarrar handar. Allt miðaldra kallar eða gamalmenni, með fáeinum undantekningum, með skoðanir sem tilheyra fremur nítjándu öldinni en þeirri tuttugustu og fyrstu, og nokkrir jafnvel búnir að tapa týrunni á lestri alls kyns samsæriskenninga. Að skrifa á þetta er næstum eins og að syngja í sturtunni þegar maður er einn heima.

Þorsteinn Siglaugsson, 1.10.2020 kl. 20:18

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég segi bara þetta Þorsteinarnir mínir: Pólitík er ekki lífið sjálft, sjálfsagt er að hugsa um fleira. Satt að segja leiðist mér hún.

Fésbókin er hundleiðinleg líka og kemur allsekki í staðinn fyrir raunveruleg samskipti. Margir virðast samt halda það. Ómissandi er hún samt, fjölmiðlar líka. 

Veiran á eftir að breyta hugsunarhætti fólks.

Sæmundur Bjarnason, 1.10.2020 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband