2961 - Pólitík

Hernaðarhyggja byggist að einhverju leyti á viðteknum sannindum. Vinstri menn geta ekki með öllu hlaupið frá kommúnisma og stalíniskum skoðunum. Sú tilraun sem gerð var í Sovétríkunum sálugu mistókst hrapallega. Á sama hátt geta hægri menn ekki með öllu hlaupið frá einræðisherrum sem hafa myrt fólk hópum saman með stuðningi Bandaríkjamanna. Hverjum þykir sinn fugl fagur og ég neita því ekki að sú samblöndun kapítalisma og kommúnisma sem stunduð er eða hefur verið á Norðurlöndum hugnast mér að flestu leyfi betur en blindur ofsatrúnaður við einhverja ákveðna hugmyndafræði. Sérhvert mál er á sinn hátt einstakt og sérfræðingar eru ekki alltaf best til þess fallnir að taka ákvarðanir.

Já, skoðanir mínar eru kratískar í eðli sínu, eða það ímynda ég mér. Annars leiðist mér pólitískt argaþras, sem oft byggist á lítilli þekkingu. Ég get allt eins tekið undir sumar skoðanir öfgafullra hægri manna eins og sannfærðra sósíalista. Oft eru þeir ekki síður öfgafullir en hægri menn. Venjulega er ég „sammála síðasta ræðumanni“ eins vitlaust og það nú oft er.

Þetta með ræðumennskuna ræður alltof miklu í stjórnmálum yfirleitt. Lítum t.d. á Alþingi. Sumir sem þar eru hafa það eitt sér til ágætis að geta talað þindarlaust. Stundum segja þeir eiginlega ekki neitt. Stundum einhverja bölvaða vitleysu. Kannski hef ég það eitt mér til ágætis að geta skrifað þindarlaust. Ætti ég að semja eða setja lög væri við því að búast að þau yrðu ömurleg. Lýðræðið svokallaða er eiginlega ekki annað en meðaltal. Eru meðaltalsskoðanir eitthvað betri en aðrar? Ég bara veit það ekki. Framtíðin kemur alltaf á óvart. Lögfræðingar og hagfræðingar geta líka haft rangt fyrir sér.

IMG 5900Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sæmundur er krati klár,
keppist við að blogga,
að mörgu karlinn dregur dár,
og dóninn hatar Mogga.

Þorsteinn Briem, 20.5.2020 kl. 11:17

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Er ekki bara tilvalið að þú farir á þing Sæmundur. Ertu ekki á aldri við Trump? Þá er kannski kominn tími til að hella sér út í pólitíkina.

Þorsteinn Siglaugsson, 20.5.2020 kl. 12:37

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini heitir státinn ver
stundum nokkuð votur.
Vísa hans að vanda er
virkilega snotur.

Sæmundur Bjarnason, 20.5.2020 kl. 23:41

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég hélt að þú værir frekar á leiðinni á þing en ég, Þorsteinn minn. Tromparinn er rúmlega sjötugur held ég, sjálfur er ég að verða áttræður.

Sæmundur Bjarnason, 20.5.2020 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband