2929 - Vonandi er hámarkið að nálgast

Að mörgu leyti erum við öllsömul, útlendingar sömuleiðis, að lifa í einskonar dystópíusögu núna. Að vísu er það svo að venjulega eru vírusarnir í slíkum sögum mun lífshættulegri, en þessi kórónavírus í rauninni er. Stjórnvöld missa líka yfirleitt með öllu tökin á ástandinu í slíkum sögum og allskyns óaldarflokkar vaða uppi og algert stjórnleysi tekur við. Ekkert slíkt hefur átt sér stað núna, en að mörgu leyti er ástandið illum draumi líkast. Allt þarf að skoða í ljósi kórónavírussins og stjórnvöld eru langt frá því að vera öfundsverð. Sem betur fer hafa slíkir óaldarflokkar hvergi ógnað stjórnvöldum, en sögur fara samt af óskipulögðum flokkum sem setja sig upp á móti flestu því sem stjórnvöld gera. Á margan hátt eru slíkar sögur það hræðilegasta sem heyrist og fyllsta ástæða til að taka hart á slíku. Öfug við tölvuleiki og skáldsögur er ekki hægt að spóla til baka og það sem gerist er óafturkræft.

Satt að segja er líklegast að Ólympíuleikunum sem áttu að fara fram í sumar verði frestað. Jafvel í heilt ár. Svo er líka möguleiki að hætt verði við þá með öllu. Þar með yrði þessum faraldri líkt við heimsstyrjöld. Hingað til hefur ekki annað en þessháttar orðið til þess að hætt væri við slíkan stórviðburð. Eins og kunnugt er voru engir Ólypíuleikar árin 1940 og 1944. Aumingja Japanir, þeir ætluðu sko aldeilis og svo sannarlega að sýna heiminum að þeir væru búnir að jafna sig á kjarnorkuslysi og þannig hörmungum. Að láta eina sjálfskipaða nefnd ráða öllu í sambandi við þetta allt saman er sérkennilegt í meira lagi. Þrátt fyrir allla þá spillingu sem þrífst í skjóli þessarar nefndar verður að segjast að ríkisstjórnir gætu aldrei komið sér saman um það sem þarf til svo Ólympíuleikar geti farið fram.

Vírusfréttir gegnsýra allt. A.m.k. er svo hér á landi. Börn og unglingar þyrftu svo sannarlega á því að halda að geta kúplað sig frá öllu slíku, en það er ekki hægt. Þau eru að mestu varnarlaus. Geta ekki einu sinni sótt skóla, þó þau hati hann yfirleitt. Íþróttir allar eru einnig í lamasessi og ef foreldrar ættu að stjórna unglingum alfarið, mundi þjóðfélagið lamast algerlega. Þ.e.a.s. allir, eða næstum því allir, yrðu að vera heima.

Suður-Kórea virðist hafa sigrast á vírusnum á fremur ódýran hátt samaborið við Ítalíu a.m.k. Varla er ástæða til að gera ráð fyrir að þar hafi sannleikanum verið hagrætt og/eða óþarfa harðýgni beitt eins og hugsanlega hefur verið reyndin í Kína. E.t.v. er það einkum hlýðni við yfirvöld og samstaða sem hefur bjargað þeim. Möguleg er þar samt sem áður einhverskonar seinni bylgja. Hugsanlega sleppum við Íslendingar líka vel frá þessum vágesti. Kannski er besti vinur þessa vágests sú áhersla sem lögð er á Vesturlöndum á einstaklingshyggju. Hlýðni við yfirvöld og samfélagslegar áherslur virðist vera mun meiri víða í Asíu en í Evrópu.

Þrátt fyrir að vírusfréttir séu algerlega dómínerandi um allan heim um þessar mundir er ekki hægt framhjá því að líta að vissulega er mikil þörf á hvíld frá þessu öllusaman. Þegar ég vakna á morgnana verður mér oft hugsað til þess hve ánægjulegt það væri ef maður þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjum af vírusnum ógurlega. Veðrið er svosem ekkert séstaklega gott um þessar mundir, en ef það væri allt og sumt væri tilveran bara nokkuð góð. Það finnst mér allavega.

IMG 6239Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Kórónavírusinn er kannski í sjálfu sér ekkert sérstaklega hættulegur. Á Ítalíu dóu t.d. 20.000 manns úr flensu veturinn 2016/17. Nú eru látnir 5.500 úr þessari flensu þar. Mannfallið úr flensunni 2016/17 var engin frétt þá. En nú er fjórðungur þess fyrsta frétt á öllum miðlum. Hvers vegna? Vegna þess að það styður við söguna sem er sögð alls staðar. Dánartíðnin í Þýskalandi, þar sem prófanirnar eru þannig að það eru amk. líkur á að kannski sé jafnvel verið að ná til talsvert stærri hluta smitaðra en annars staðar, er 0,3%. Hér er einn látinn og Kári áætlar að tæplega 1% þjóðarinnar sé smitað. Það er einn af kannski 3000 manns. Það er 0,03%, þriðjungurinn af venjulegri flensu.

En óttinn og viðbrögðin eru svo sannarlega að skapa hættu. Grunar jafnvel að fleiri muni deyja vegna álagsins á heilbrigðiskerfið við að bregðast við hræðslunni, vegna þess að þeir komast ekki í lífsnauðsynlega meðhöndlun, eða einfaldlega vegna andlegu áhrifanna sem óöryggi, atvinnumissir og langvarandi einangrun hefur á fólk. Hversu margir munu falla fyrir eigin hendi einangraðir og vonlitlir í loftlausum íbúðum stórborganna?

Þorsteinn Siglaugsson, 24.3.2020 kl. 11:50

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Efnahagsáhrifin verða samt áreiðanlega mikil. En af hverju eru þau svona mikil? Ekki treysti ég mér til að segja um það.

Þú ert alls ekki einn um að gera lítið úr þessum vírusi. Líkir honum á margan hátt við venjulega flensu. Einn reginmunur er samt á. Hann er sá að ekki er til neitt bóluefni við þessum. Þó ekki væri annað væri hann mjög hættulegur. Þetta með dánartöluna á eftir að koma í ljós. Mig grunar að hún sé mun hærri en í venjulegri flensu. Sú flensa er samt fjári óþægileg, um það get ég vitnað.

Svo er það smitnæmið, og reyndar margt fleira. 

Sæmundur Bjarnason, 24.3.2020 kl. 16:49

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er ekkert bóluefni til, það er alveg rétt. Og ekkert ónæmi heldur svo vitað sé. Því má reikna með að miklu fleiri smitist en af venjulegri flensu. En tölurnar tala samt sínu máli. Ef 20% smitast af flensu en 60% af þessu og dánartíðni flensunnar er þreföld, eins og tölurnar hérlendis virðast sýna, þá hrökkva álíka margir upp af af hvoru tveggja. Og efnahagsáhrifin verða gríðarleg. Það er vegna þess að það er allt meira og minna stopp í marga mánuði.

Þorsteinn Siglaugsson, 24.3.2020 kl. 18:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband