9.11.2019 | 06:55
2891 - Dúsu sýgur
Ekki veit ég af hverju Viðskiptabaðið (takið eftir að þetta er baðið, en ekki blaðið) hefur svona mikinn áhuga á mér óverðugum. Sennilega er ætlast til að ég trúi þessari vitleysu. Þessi ósköp eru að flækjast á minni fésbókarsíðu. Í mínum augum er þetta eins og hvert annað Nígeríubréf. Það er nú eitt. Maður getur ekki vitað með neinni vissu hvort fleiri fá þetta. Til fjandans með fésbókarræfilinn. Auglýsingarnar eru að sökkva honum. Mogginn er lítið eitt skárri. Kannski er búið að fjalla um þetta áður. Ég les ekki blöðin og varla les nokkur maður fésbókina alla.
Dúsu sýgur, drullar og mígur undir.
Þykir snótum þráskælinn.
Þú er ljótur nafni minn.
Einhverntíma í fyrndinni sá ég (og lærði) þessa vísu. Ekki hef ég hugmynd um eftir hvern hún er. Ekki er hún eftir mig. Dag hvern kemur mér í hug einhver vísa. Stundum eða jafnvel oft tauta ég hana fyrir munni mér lengi dags. Stundum (eins og t.d. með þessa) þá kemur mér fyrst í hug eitt orð eða vísupartur og svo rifjast þetta smám saman upp fyrir mér. Í þessari var það orðið þráskælinn, sem kom mér á sporið. Sennilega er það orð fremur sjaldgæft.
Einu sinni orti ég samt vísu man ég eftir sem tengist þessum fræga degi. Hún var svona:
Bindindi ég herlegt hóf
og heilsu minnar gætti.
Föstudaginn níuna nóv
við nikótínið hætti.
Af hverju ég man svona vel eftir þessari vísu veit ég ekki. Líklega hefur þetta verið svona á sjöunda áratug síðustu aldar. Eflaust væri hægt að komast að þessu því ég man greinilega eftir því að dagurinn í þriðju ljóðlínu var föstudagur. Seinna meir varð dagurinn níundi nóvember frægur í sögunni, en ég fer ekki nánar útí það hér. Bindindið held ég að hafi ekki staðið lengi.
Sé núna að ég hef víst notað karlsefnismyndina a.m.k. tvisvar. Það var alveg óvart og ég skal reyna að passa að slíkt komi ekki fyrir aftur. Að sækja myndir til að setja á bloggið er að verða eitt það leiðinlegasta í sambandi við þessi skrif. Þessar myndir eru gamlar og ég nenni ekki að setja inn nýjar. Auðvitað tók ég eitthvað af myndum á Tenerife, en þær eru raunverulega orðnar úreltar. Maður hefur ekki tileinkað sér þann hraða sem nú um stundir er á öllu.
Greinilega er kominn svolitill jólafílingur í mannskapinn. Það er svosem engin furða. Enda komið fram í Nóvember. Til siðs er þó að hneykslast á þessu og gamalmenni eins og ég eiga að segja að ekki hafi tíðkast í sínu ungdæmi að byrja jólaundirbúninginn fyrr en í fyrsta lagi um mánaðamótin Nóvember og Desember. Ég bara nenni því ekki. Að venju er formaður kaupmannasamtakanna voða vongóður og í rauninni er þetta bara krúttlegt.
Að venju gengur mér illa að halda mig við eitt efni í heilu bloggi. Sennilega er það minn stíll að rjúka úr einu í annað. Ekki dugir að valda lesendum sínum vonbrigðum að því leyti. Ég man þá tíð að ekki þurfti annað en minnast á trúmál til allt yrði vitlaust. Nú eru svo margir með skrifkrampa og uppteknir við að horfa á eigin nafla að viðbrögð við svonalöguðu eru í lágmarki. Ef maður segist vera afneitunarsinni spretta fulltrúar góða fólksins samt fram og úthúða slíkum trúvillingum.
Já, ég er einskonar afneitunarsinni og vil ekki trúa því að allt sé að fara til fjandans útaf bílaútblæstsri og lélegri ofanískurðmokunarstefnu. Hinsvegar fjölgar mannkyninu alltof hratt og nokkurskonar Malthusar-kenning gæti alveg átt rétt á sér. Það ber vott um nafladýrkun og mikilmennskubrjálæði að ganga útfrá því að við mennirnir höfum eins mikil áhrif á Náttúruna og stundum er haldið fram. Í rauninni er það ljótt að ala börn upp í miklum ótta við einskonar Ragnarök á næstu árum. Samt er það svo að í sambandi við ýmis mál þessu tengd er greinilegt að ekkert annað en breyttur hugsunarháttur almennings getur framlengt veru okkar á þessari jörð.
Óveðrið sem spáð var virðist vera bæði komið og farið. A.m.k. hér á Akranesi og bráðum fer sennilega að birta á þessum fagra laugardegi skömmu fyrir jólaföstu á því herrans ári 2019.
Athugasemdir
Sæll, skólabróðir. Mér sýnist myndin hér að ofan tekin á Hofsósi, er það rétt tilgáta?
kv.
Thorkellg 9.11.2019 kl. 07:39
Þetta er alveg rétt hjá þér. Mig minnir að karlsefnismyndin sé líka þaðan, kannski jafnvel fleiri.
Af hverju þú vilt ekki skrifa undir fullu nafni skil ég hinsvegar ekki.
Man að einu sinni á Bifröst komu 50 ára nemendur í heimsókn. Alveg var ég hneykslaður á hvað þeir virtust hrumir.
Sæmundur Bjarnason, 9.11.2019 kl. 08:06
Fyrri vísan er örugglega um ljótt smábarn.
Þorsteinn Siglaugsson, 10.11.2019 kl. 17:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.