2776 - Að leggja skóna á hilluna

„Sæl vertu Sigurjóna“, sagði Halldór Blöndal. Hann var sennilega ráðherra þá og ég man eftir þessari setningu úr útvarpinu. Hann var sennilega að vígja eitthvað í sambandi við símann og ætlaði að hringja í Kristján Jónsson óperusöngvara sem þá var í Rússlandi. Gallinn var bara sá að það var ekki Sigurjóna sem svaraði í símann, heldur einhver sem talaði bara rússnesku.

Þessi skóhilla hlýtur að fara að gefa sig hvað úr hverju. Einhver knattspyrnumaður var um daginn að setja skóna sína þar. Eiginlega finnst mér það ekkert fréttnæmt, en ég er nú svo takmarkaður að ég skil ekki æðri fjölmiðlavísindi. En samkvæmt blaðafréttum er hann alls ekki sá fyrsti sem setur skóna sína á þessa hillu.

„Vikan“ er víst orðin áttræð. Þegar ég var á Bifröst var ég áskrifandi að Vikunni og hún kom í hverri viku. Í auglýsingateikningunni hjá Herði Haralds gerði ég auglýsingu fyrir Vikuna. Man vel að stafirnir voru rauðir. Seinna meir, um það leyti sem Kúbu-deilan stóð sem hæst skrifaði ég grein um Gísla Sigurbjörnsson í Ási, sem einskonar svar við grein sem birst hafði um hann í Vikunni. Vikan vildi ekki birta hana, en þegar ég leitaði til Morgunblaðsins var það birt sem Vettvangur dagsins. Gæti skrifað meira um þetta því það er mér nokkuð minnisstætt, en geri það ekki núna a.m.k.

Eru sjónvarpstæki bílar nútímans. Í heilsíðuauglýsingu er 50 þúsund króna afslætti lofað á einu sjónvarpstæki. Hver hefur þá álagningin verið og hver borgar auglýsinguna. Einu sinni gat maður leikandi létt fengið heilt sjónvarp fyrir þessa upphæð. Á svipuðum tíma og bílaverð virðist fara lækkandi fer sjónvarpsverð hækkandi. Ekki er víst að sjónvarpstæki með aðgangi að 1000 sjónvarpsrásum og ýmsu fleiru sé nokkuð meira menningar- og menntunartæki en ódýru sjónvörpin voru. Þau áttu að vera alveg stórkostleg að því leyti, en voru það ekki.

Hrunið mikla á víst 10 ára afmæli um þessar mundir. Flestir eiga einhverjar minningar sem tengjast því og ég þar á meðal. Finn samt enga löngun hjá mér til að fjölyrða um það. Kannski er að styttast í næsta hrun og t.d. gæti það hafist með því að flugfélög færu unnvörpum á hausinn. Fjölmiðlar hafa verið uppteknir við það að spá falli Wow-air, en svo fór Primera á hausinn. Okkur hjónunum hefur oft verið strítt á því að við höfum valdið hruninu. Minnir að við höfum, af illri nauðsyn keypt flatskjár-sjónvarp fyrir hrun sem núna er að verða úrelt vegna þess að það er svo lítið. Haustið 2008 að mig minnir fórum við með öðru starfsfólki frá Aðföngum til Kaupmannahafnar til að taka þátt í árshátíð. Þessi sótt í að halda árshátíðir erlendis hefur að mínum dómi stulað fremur en flatskjárkaup að hruninu. Annars er ekki grín gerandi að þessum atburðum og nú 10 árum seinna eru enn margir að glíma við afleiðingar þess.

Traust almennings á Alþingi og stjórnvöldum öllum er ákaflega lítið. Ekkert virðist vera gert til að auka það. Vissulega er það ekki einfalt mál, en vel mætti byrja á því að ríkisstjórnin, Alþingi og reyndar stjórnvöld öllvönduðu sig svolítið meir. Sérstaklega á þetta við um ráðuneytin. Þar virðist fólk ekki hafa vit á neinum sköpuðum hlut. Auðvitað er ekki allt satt og rétt, sem sagt er á fésbókinni og reyndar liggja flestir fjölmiðlar á því lúalagi að reyna sífellt að gera pólitískan hlut sinna manna sem stærstan og mestan.

Untitled Scanned 60Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll, skólabróðir.
Þú fitjar upp á merkilegu máli þarna, sem er eðlilega mjög til umræðu í samfélaginu, en það varðar traust á stjórnmálafólki og stjórnkerfinu almennt. Orsakir vantraustsins eru margar og ekki er vesalingur minn fær um að greina þær af neinu viti. Hitt virðist augljóst að ein af ástæðunum er það fen sérhygli og frændhygli (kallar snobbið það ekki nepotisma?) sem stjórnmálastéttin virðist nánast öll falla fljótlega í eftir að það kemst inn á þing, eða kannski fer það inn á þing vegna þess að það er þegar svamlandi þar?  -  Hitt er svo annað mál, að við eignum nú kannski ráðherrum sérstaklega meiri völd og áhrif en þeir hafa í raun. Það fólk sem á í hvað mestum samskiptum við stjórnarráðið og á mest undir því hvað þar er ákveðið telur einsýnt, að það séu yfirmenn ráðuneyta, sem í raun ráði mestu. Þeir semji lög og reglugerði og þegar ráðherraskipti séu mjög ör, fái þeir meiri völd sem skapist af því að ráðherrarnir séu þá í flestum tilvikum afskaplega illa að sér í því hvernig vinnubrögð séu á sviði stjórnsýslunnar og því sé auðvelt að hafa áhrif á það hvernig það fólk hagi sínum störfum. Þessir bakgrunnsráðamenn séu hinsvegar aldrei í framlínunni þegar gagnrýni kemur upp, því þá eru það ráðherrar, sem eru skammaðir. Oft er vísað í bresku þættina, "Já, ráðherra" í þessu samhengi og víst er að þeir sýna ansi raunsanna mynd af því hvernig klókir ráðuneytisstjórar og skrifstofustjorar geti stýrt atburðarásinni en látið ráðherrana halda að þeir ráði einhverju.  En ljóst er að sá möguleiki er fyrir hendi að stjórnsýslustarfsliðinu sé alls ekki í nöp við þá viðleitni umræðunnar að telja alla stjórnmálamenn óhæfa til þess að stjórna í umboði fólksins. Réttast sé að embættismenn sjá um alla stjórnun og ráðstöfun skattfjár, sbr. það sem Evrópusambandið hefur í raun þróast út í. En þarna er maður kominn út á hálan ís þegar talað er við krata svo það er best að hætta.

Þorkell Guðbrands 5.10.2018 kl. 07:54

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Keli.

Ég er búinn að fá svolitla leið á íslenskri pólitík og fylgist í staðinn sæmilega með bandaríksum fyrirsögnum sem Microsoft lætum mér í té. Mér sýnist ástæðan fyrir því að Blasey vs Kavanaugh málið er svona mikið í fréttum núna vera sú að "partisan"-stjórnmál eru á uppleið þar. Nú er búist við atkvæðagreiðslu um þetta mál í dómsmálanefnd öldungadeildarinnar í kvöld og ég hugsa að úrslitin þar ráðist eftir flokkslínum. Einsog hér eru flokksbönd þau sterkustu bönd sem til eru. 

Sæmundur Bjarnason, 5.10.2018 kl. 10:32

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ráðherrar fara með æðstu miðstjórn innan stjórnsýslunnar og fara í reynd með það framkvæmdavald sem forseta Íslands er formlega veitt í stjórnarskránni.

Þeir bera ábyrgð á öllum stjórnsýsluathöfnum í þeirra eigin ráðuneytum samkvæmt stjórnarskránni og lögum um ráðherraábyrgð nr. 4/1963.

Ríkisstjórnin tekur hins vegar sameiginlegar ákvarðanir á ráðherrafundum.

Lög um ráðherraábyrgð nr. 4/1963:

"5. gr. Sé um að ræða embættisathöfn í ríkisráði eða á ráðherrafundi, sbr. 16. og 17. gr. stjórnarskrárinnar, bera allir viðstaddir ráðherrar, sem með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt hafa stuðlað að þeirri athöfn, ábyrgð á henni."

Forseti Íslands sækir vald sitt beint til þjóðarinnar en samkvæmt stjórnarskránni er hann ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og lætur ráðherra framkvæma vald sitt.

Samkvæmt þingræðisreglunni getur meirihluti þingmanna hvenær sem er lýst vantrausti á ríkisstjórnina eða einstaka ráðherra.

Hafi slík vantrauststillaga verið samþykkt er viðkomandi ráðherra, eða ráðherrum, skylt að biðjast lausnar og þá veitir forseti Íslands þeim lausn frá embætti.

Alþingi getur með þingsályktun kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra og Landsdómur dæmir um þau mál.

Þorsteinn Briem, 5.10.2018 kl. 17:30

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Ég er að hugsa um að fara að leggja stýrið á hilluna. Búinn að vera rúm fjörtíu ár á sjónum. Lengst af stýrimaður og skipstjóri. Á þeim tíma hefur svo mikið gerst, að ég er handviss um að enginn taki eftir því þó stýri detti á hillu. 

 Það hefur þó verið fjandi gaman og fræðandi að sigla gegnum þennan fjanda allan saman. Ég segi það satt;-) hafandi og aldrei verðandi á fésbókinni. 

 Bestu kveðjur, með þökk fyrir góðan pistil.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 6.10.2018 kl. 03:05

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Halldór Egill. Ég mun halda áfram að blogga. (Ekki í þann veginn að leggja tölvuskömmina á hilluna.) Meðan ég hef grun um að einhverjir lesi þennan samsetning.

Sæmundur Bjarnason, 6.10.2018 kl. 06:51

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég keypti ekki flatskjá fyrr en 2011. Það var þá sem túbusjónvarpið gaf sig sem hafði reynst vel síðan 1996. Maðurinn á verkstæðinu neitaði að reyna að laga það. Og ég hef aldrei farið á árshátíð í útlöndum. Þannig að ólíkt þér olli ég ekki hruninu Sæmundur!

Þorsteinn Siglaugsson, 6.10.2018 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband