2771 - Af hverju eru kettir svona vinsælir?

Af hverju eru kettir svona vinsælir? Það er ekki nóg með að kettlingar séu afskaplega krúttlegir og kettlingamyndir vinsælar á fésbók og víðar. Allir geta séð hvað þeir eru flottir. Það besta við ketti er sennilega það, að um alla neikvæðu hlutina sjá þeir sjálfir og eru ekkert eða a.m.k. lítið að ónáða aðra. Sjálfstæði þeirra og fyrirlitning/ást á mannfólkinu eru líka kostir sem margir kunna vel að meta. Þagmælskan er einnig kostur. Ennfremur eru þeir svo rólegir og æsingslitlir að þeir hafa róandi áhrif á umhverfi sitt. Margir gætu eflaust bætt ýmsu við þennan lista, en ég nenni ekki að halda áfram lengur.

Sjaldan lýgur almannarómur. Þetta spakmæli virðist þó ekki eiga við þegar rætt er um fésbókar-ræfilinn. Í huga margra er þessi aumingi upphaf alls ills. Þar er sagt að rægitungur og góða (vitlausa) fólkið eigi sér skjól. Samfélagsmiðlarnir svokölluðu ásamt tækninni eru samt það sem breytt hefur heiminum. A.m.k. fyrsta heiminum. Enginn vill lengur eiga heima í þeim þriðja. Kaffibollaspjallið er að miklu leyti orðið óþarft og hægt að spjalla saman í gegnum Netið. Frásagnir af öllum fjáranum berast nú um allt á örskotshraða. Kaffiþambið hefur samt ekkert minnkað.

Nú kemur Trump-þátturinn hjá mér. Að sumu (pólitísku) leyti má líta á Kavanaugh-málið sem hefnd demókrata fyrir Scalia-málið. Hver fjárinn var það nú kynni einhver að spyrja. Hæstaréttardómarinn Anthonin Scalia lést skyndilega í byrjun árs 2016. Demókratar vildu að Obama tilnefndi eftirmann hans, en repúblikanar sem höfðu meirihluta í báðum deildum þingsins (eins og ennþá er) vildu það ekki og komu í veg fyrir það. Ekki er að sjá annað en Trump komist yfir þetta Kavanaugh-mál eins og flest önnur. Rosenstein-málið gæti orðið honum mun skeinuhættara. Sérstaklega þó ef demókratar vinna meirihluta í þinginu í komandi kosningum. Þeir gera sér vonir um að vinna meirihluta a.m.k. í fulltrúadeildinni.

Myndirnar sem ég birti hér á blogginu mínu eru allar teknar af mér sjálfum og þar að auki endurbirtar. Ég nenni nefnilega ekki að halda áfram að taka myndir og setja þær á bloggið. Reyndar er ég að hasast upp á því að sækja þær því ég er sífellt lengur að því og þar að auki eru þær flestar eða allar núorðið frá Reykjavík en ekki héðan frá Akranesi eins og þær ættu að vera. Nýlegar myndir set ég fremur á fésbókina því það er hampaminna og ódýrara. Mogginn er ennþá fastur í áskriftargjöldum og þ.h. Kannski ég ætti að fara að blogga á Facebook. Það gera sumir.

Nýlega var frá því skýrt, með andarteppu mikilli, í fréttum að einhver alfrægasti söngvari heimsbyggðarinnar hefði boðað komu sína til Íslands í ágúst á næsta ári. Sagt var að maður þessi héti Ed Sheeran og síðan hefur gengið á með auglýsingaherferð mikilli útaf þessum tónleikum. Þó ég sé nú gamall og úreltur orðinn minnist ég þess ekki að hafa heyrt þennan Íslandsvin nefndan fyrr. Auðvitað kann að vera að ég fylgist ekki nógu vel með en samt finnst mér að kannski sé hann ekki alveg eins frægur og af er látið. Ágætur söngvari kann hann þó vel að vera.

Fór áðan út að ganga. Svona gönguferðir geta sem hægast orðið að fjölskyldufyrirtæki. Gróðafyrirtæki held ég þó að þetta séu ekki. Aldurs vegna er ég farinn að ganga fremur hægt. Hjón (geri ég ráð fyrir) fóru framúr mér með tvær kerrur, þrjá krakka og einn hund á leið minni út að Höfða.

IMG 3085Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Allt hjá Trump er út í hött,
eins og dæmin sanna,
heiminn vill í hund og kött,
hatar sína granna.

Þorsteinn Briem, 26.9.2018 kl. 17:48

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Alveg er hann Steini Stuð
stór og mikill vexti.
Ekkert minnsta agnar puð
er mér þessi texti.

Sæmundur Bjarnason, 26.9.2018 kl. 21:44

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Kettir eru sannarlega mestu merkisskepnur. Þagmælska þeirra er líka annáluð, en það á reyndar við um flest dýr, en fæsta menn.

Þorsteinn Siglaugsson, 26.9.2018 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband