2772 - Einstakt blogg

Kannski er ég að detta í þann gírinn að blogga daglega. Mér finnst það reyndar hinn mesti óþarfi. Sumir blogga samt oft á dag og virðast ekki telja það eftir sér. Það er bara svo margt sem ég þarf að gera á hverjum morgni að ég má eiginlega ekkert vera að því. T.d. þarf ég að lesa Fréttablaðið eða a.m.k. að fletta svolítið í því. Í dag er að því leyti merkilegur dagur að von er á úrslitum í tveimur hæstaréttarmálum, sem hugsanlegt er að pólitíkusar muni reyna að notfæra sér. Á Íslandi eru það Guðmundar og Geirfinnsmálin sem dæmt verður í öðru sinni og í Bandaríkjunum verða yfirheyrslur í máli sem snertir #MeToo-byltinguna talsvert. Allir dagar eru einstakir.

Ég var ekki gamall þegar það rann upp fyrir mér að sá maður væri ekki til í víðri veröld, sem stæði mér framar á öllum sviðum. Þessi hugsun hefur verið fallega orðuð í spakmælinu: „Allir eru einstakir.“ Ekki ætla ég mér að keppa við höfund þess spakmælis í spakmælasmíð, en ég gæti kannski skotið honum ref fyrir rass í einhverju öðru. T.d. í bloggúthaldi. Ekki er víst að hann hafi bloggað oftar en 2772 sinnum.

Áðan fór ég út að ganga. Veðrið var alveg sæmilegt. Ærslabelgurinn fyrir neðan íþróttahúsið var vindlaus eins og í gærmorgun. Yfirleitt er hann það þó ekki. Í blokkinni minni, sem ég á reyndar allsekki, er búið að auglýsa í einum glugganum að viðkomandi íbúð sé til sölu. Þetta gæti svosem verið einskonar byrjun á dagbókarbroti fyrir daginn. Svona til að lengja innleggið svolítið. Ef einhverjir eiga að lesa þetta má samt ekki ganga of langt í því.

Vorkenni Steina Briem svolítið að koma með vísu við þetta blogg. Einu sinni orti ég:

Einhverntíma ætla ég að yrkja kvæði
fái ég bara bæði
brennivín og næði.

Kannski Steini geti bara ort eitthvað í þessum stíl.

Ha ha. Þarna lengdi ég bloggið bara töluvert.

IMG 3057Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekkert græði ég á því,
að yrkja þessi kvæði,
vínið ekki vitlaus í,
og vantar aldrei næði.

Þorsteinn Briem, 27.9.2018 kl. 11:30

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Honum varla virtist leitt
að vinda flösku eina.
Vantar ekki næði neitt
nefnilega Steina.

Sæmundur Bjarnason, 27.9.2018 kl. 18:47

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Drykki Steini af stút hvern dag

Stolitsnaya hreina,

okkar þjóð það yrði í hag,

hann eflaust hætti að reyna

að selja okkur svikum með

í sinna vina hendur,

-- af Brusselbossum sendur?

Jón Valur Jensson, 27.9.2018 kl. 20:19

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Leggur sig í lima við,

læða inn athugasemdum. 

Sjaldnast þó af sjálfum samið,

sjálfsálitið með engu hamið.

Um hvern er spurt?

Halldór Egill Guðnason, 28.9.2018 kl. 01:17

5 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Hvet síðuhafa til að blogga jafnvel tvisvar á dag og þakka fyrir lesturinn.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 28.9.2018 kl. 01:20

6 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

(Leirburðirinn kallast að því best ég veit, að stalla vísu.)

Halldór Egill Guðnason, 28.9.2018 kl. 01:21

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Halldór Egill.

Sæmundur Bjarnason, 28.9.2018 kl. 22:34

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ertu nokkuð að meina vin okkar hann Jón Val? Að vísu læðir hann víða inn athugasemdum, en sjálfsálit held ég hann hafi ekki á við Tromparann.

Jón minn Valur varla fer
í vélar bandalagsins.
Guðfræði hans ávalt er
efling NATO-lagsins.

Sæmundur Bjarnason, 28.9.2018 kl. 22:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband