10.8.2018 | 07:32
2757 - Pólitíkin, sem öllu ræður
Oft má túlka fréttir með mismunandi hætti. Trump Bandaríkjaforseti gerir það mjög oft og bara vegna þess að hann segir að einhverjar tilteknar fréttir séu falsfréttir þarf það ekki að vera svo. Hann lítur á sig sem útvalinn til þess að flokka fréttir og allar fréttir sem hann álítur að komi sér illa fyrir hann sjálfan kallar hann falsfréttir. Ef þær koma frá fjölmiðlum sem honum hugnast ekki (sem eru flestir) á hann ennþá auðveldara með að kalla þær falsfréttir. Auk þess vill hann gjarnan gera sem flesta hluti flokkspólitíska, jafnvel þó engin ástæða sé til þess. Hann nýtur mjög góðs af því að bandaríska stjórnmálakerfið er flókið mjög fyrir þá sem ekki hafa sérhæft sig í því. Allir virðast mega ljúga eins og þá lystir í bandarískum stjórnmálum og kjaftavaðallin þar er yfirþyrmandi. Þó er ekki annað að sjá en þeir verði að segja satt ef þeir eru eiðsvarnir fyrir rétti.
Þegar þú sérð einhvern pota með reglubundum hætti í símann sinn auk þess að stara á hann, er sennilegast að hann sé annaðhvort upptekinn í leik eða að læra á þetta merkilega tól. Einu sinni var lærdómskúrfa mín ansi brött, (Úr blogg-biblíunni: - Gættu þess að láta ekki einstök orð leiða þig á villigötur. Þú stjórnar með vissum hætti hugsunum lesandans.) en með árunum hefur hún (kúrfan) orðið minna brött. Ef þú getur séð aldur potandans þá færðu kannski betri hugmynd um hvers vegna hann er að þessu. Hvort hann situr eða stendur og er kannski á ferðinni, getur líka verið gott að vita. Kannski skiptir þetta engu máli. Sumir eru samt fljótari að hugsa en aðrir.
Það virðist vera svo að þeir séu vinsælastir, bæði á bloggi og fésbók, sem þykjast vita allt og viðurkenna aldrei að þeir hafi rangt fyrir sér. Ég er þó alls ekki að kvarta. Mér finnst einmitt að bloggið mitt sé lesið af hæfilega mörgum. Gæti samt alveg sætt mig við svolítið fleiri. Kannski blogga ég of oft og hitti ekki á að blogga um það sem flestir vilja vita. Efast lítið um að skoðanir mínar séu þær einu réttu. Dagleg fréttablogg um stjórnmál landsins virðast fá mestan lesandafjölda. Viðurkenni alveg yfirburði fésbókarinna og annarra félagslegra miðla. Myndir og þá einkum hreyfimyndir virðast höfða til flestra. Þyrrkingsleg skrif á gamla mátann eru ekki til vinsælda fallin.
Smásmugulegar frásagnir af veðri virðast vinsælar mjög. Sömuleiðis er ekki að sjá annað en íþróttir af öllu tagi séu einnig vinsælar. Þó virðist sem sumum sé ákaflega uppsigað við ákveðnar íþróttir. Svo er víst afar vinsælt um þessar mundir að gagnrýna ríkisútvarpið. Einkum þó sjónvarpið og þær fréttir sem þar eru fluttar.
Ríkisstjórnin hér á landi nýtur ekki þeirra vinsælda sem hún ætti að njóta. Í rauninni er sú ríkisstjórn sem ekki nýtur meiri stuðnings en vantrausts gagnslaus. Líka er til lítils að vera sífellt að skipta um ríkisstjórnir. Mestar líkur eru á að ráðherrarnir geri eins vel og þeir geta. Stundum má vissulega gagnrýna ráðherravalið, en það er þó ekki neitt aðalatriði. Ástandið í þjóðfélaginu er það sem mestu máli skiptir. Mitt álit í þessu öllu er að þróunin skipti mestu máli. Þróun sú sem undanfarin ár hefur stefnt til aukinnar misskiptingar hér á landi er að mínum dómi hættuleg mjög. Með því aukast viðsjár milli hópa og gera má ráð fyrir hverskonar uppákomum.
Athugasemdir
Aldrei hann í hægum vals,
Hrunadansinn stígur,
alltaf vill hann fréttafals,
fjandi mikið lýgur.
Þorsteinn Briem, 10.8.2018 kl. 16:33
Yrkir Steini um álfinn þann,
sem aldrei þegir lengi.
Tromparinn sem tefur mann
er talsvert kjöt og rengi.
Sæmundur Bjarnason, 10.8.2018 kl. 23:30
Lyga vals og frétt fals,
er trumpadúrum hægur vals.
En okkur hinum, þessum skrumum
vitum ekkert, frekar en firrum.
Örn Einar Hansen, 11.8.2018 kl. 00:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.