2742 - Bitcoin

Horfði á leikinn milli Englands og Kólumbíu um daginn og það verð ég að segja að ógeðslegri knattspyrnu hef ég aldrei séð. Réttast væri að nefna þetta afbrigði fólbolta frekar en fótbolta. Ekki var nóg með að öllum mögulegum atvinnumannabrögðum væri beitt, heldur var oft á tíðum alls ekki annað að sjá en meiningin væri að skaða andstæðinginn sem mest. Auk þess sýndu allir eða flestallir leikmennirnir ágæta leikarahæfileika þegar þeir þóttust hafa stórslasast en voru samt alheilir þegar dómarinn tók ekkert mark á þeim. Hélt að ekki væri hægt að komast lengra en Neymar í aumingjaskapnum en svo er að sjá sem það sé ekki erfitt. Mín skoðun er sú að þeir sem sigra í þessum leik verði heimsmeistarar í fantabrögðum. Á vissan hátt er búið að eyðileggja knattspyrnuna, sem var þó alveg sæmileg í undanrásunum. Sennilega guðsblessun að sleppa við úrslitin.

Er Bitcoin að taka við af Evru og Dollar? Er þriðja eða jafnvel fjórða hagkerfið að taka yfir? Eru hinar undirokuðu stéttir sem gjarnan gefa skít í stjórnvöld að taka við? Eru hinir misskildu útrásarvíkingar að ná heimsyfirráðum? Ja, stórt er spurt og kannski ekki nógu settlega. Eitthvað er samt gruggugt við öll þessi gagnaver sem spretta eins og gorkúlur eða túristahótel út um allar jarðir. Kannski er þessi heimsbylting ekki bundin við Ísland eins og sú síðasta. Hver veit nema hin pínulitla íslenska króna verði í framtíðinni gjaldeyrir alls heimsins?

Ekki er ég spámaður og síst mundi ég spá um framtíðina. Vissulega er það svo að næsta Hrun hlýtur að vera handan við hornið. Best er að skulda ekki neitt og jafnvel að eiga ekki neitt heldur. Er kannski að styttast í að heimshlýnunin verði óviðráðanleg? Kannski hin óendanlega rigning hér á Ísa köldu landi boði eitthvað sérstakt. Það skyldi þó ekki vera?

Annars er kannski best að halda sig við jörðina. Ánamaðkarnir eru hæstánægðir með rigninguna sýnist mér. A.m.k. eru þeir í miklu magni á gangstígunum. Samt er óvíst að þeir séu á skemmtigöngu. Eða skriði og skruni.

Sumsstaðar er verslunarstarf kennt í sérstökum skólum. Kennari í slíkum skóla lagði mikla áherslu á að bjóða viðskiptavinum ávallt eitthvað annað í staðinn ef viðkomandi vara væri ekki til. Einn nemandinn tók þetta alla leið og mælti hiklaust með úrvalssandpappír þegar klósettpappír var ekki til. Þetta var bara til að beina huga ykkar í rétta átt kæru lesendur, því hvað er mikilvægara en góðar og vel mótaðar hægðir? Er ekki bara ágætt að enda á þessu?

Um að gera að hafa það sem maður skrifar bara nógu stutt. Þá er auðveldara að skrifa oft. Betra er að skrifa oft og stutt en sjaldan og langt.

IMG 7985Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stsffírugur stórt hann spyr,
stendur oft á gati,
bitcoin þó við dauðans dyr,
á dollar lýsi frati.

Þorsteinn Briem, 5.7.2018 kl. 13:03

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Staffírugur stórt hann spyr,
stendur oft á gati,
bitcoin þó við dauðans dyr,
á dollar lýsi frati.

Þorsteinn Briem, 5.7.2018 kl. 13:09

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Bitcoin er blessun fín
bréf sín margur selur.
Eggjar dollar upp til sín
enga krónu velur.

Sæmundur Bjarnason, 5.7.2018 kl. 17:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband