2743 - Bakþankar Fréttablaðsins

Ég er með kenningu. Hún er um bakþanka Fréttablaðsins, sem heilla mig alltaf. Ég held að ég lesi þá oftast. Held að flestir eða allir blaðamenn Fréttablaðsins séu skikkaðir til að skrifa bakþankana og við það sé notuð sérstök röð. T.d. aldursröð. Auðvitað eru ekki allir alltaf tilbúnir þegar til á að taka með þanka sem passa í þetta slott. Þá er kallað á Óttar Guðmundsson. Hann á nefnilega alltaf í fórum sínum eitthvað sem nota má.

Annars eru þessir bakþankar einskonar miniblogg og sennilega er ég svona hrifinn af þeim þessvegna. Gott ef þessir bakþankar eru ekki að verða mínir aðal mentorar í bloggfræðum. Að vísu er hver þeirra bara ígildi einnar stuttrar blogg-greinar, en við því er ekkert að gera. Svona er þetta bara. Frekari útleggingar á því sem þar er að finna hef ég þó reynt að forðast. Kannski eru þeir fjölmargir sem lesa jafnan bakþankana og kannski eru þeir sárafáir. Fréttablaðinu er samt dreift mjög víða og þó því sé stundum hent í pakkavís þá er ekki að efa að margir lesa sumt í því. A.m.k. virðast auglýsendur halda það.

Ekki get ég látið allt þetta blogg fjalla um bakþanka Fréttablaðsins. Sennilega verð ég að bæta einhverju við. Samt dettur mér ekkert skárra í hug en að minnast aðeins á títtnefnda bakþanka. Ég tek þá til við bakþanka dagsins. Vitanlega er það Óttar Guðmundsson sem skrifar þá. Hann minnist þar á Gissur Þorvaldsson og Sturlu Sighvatsson. Einu sinn var ég staddur uppi á Búrfelli í Grímsnesinu og flutti þá langan fyrirlestur um það þegar Sturla lét handtaka Gissur og þeir riðu saman yfir Álftavatn. Því miður voru áheyrendur ekki margir. Reyndar bara einn og það var Sigurbjörn bróðir minn. Einu sinni ætluðum við nefnilega að ganga á ein fimm eða sex Búrfell sama daginn. Aldrei varð þó úr því en undirbúningurinn var langt kominn. Óttar er allur í fornsögunum og það er ég eiginlega líka. Þær eru mér, eins og mörgum fleiri, stöðug áminning um visku og samtímaviðhorf.

Sumir gera engan greinarmun á Íslendingasögum og Sturlungu. Það geri ég samt. Sturlunga er í mínum augum sagnfræði en Íslendingasögur skáldsögur þess tíma sem þær eru skrifaðar á. Reyndar minnist ég í þessari upptalningu ekkert á Fornaldasögur Norðurlanda, Biskupasögur eða Riddarasögur o.s.frv. en í sumum þeirra er að finna mikilsverðan fróðleik. Sá sem njóta vill nútímabókmennta getur, að mínum dómi, ekki látið hjá líða að kynnast okkar forna menningararfi að einhverju marki.

VoynichEinhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Óttar skrifar afturábak,
afar ljóta þanka,
Skrattinn í það augun rak,
á því mun hann hanka.

Þorsteinn Briem, 7.7.2018 kl. 13:17

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Óttar skrifar afturábak
þó fáir skrifi svoleiðis.
Á Kölska Steini stillir tak
og stýrir honum áleiðis.

Sæmundur Bjarnason, 8.7.2018 kl. 09:32

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Einn er sá sem aldrei breytir neinu.
Lærði að lesa í Grasgarðinum hjá Sveinu.
Íþróttina kannski kann þá sönnu og einu.

Sæmundur Bjarnason, 8.7.2018 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband