2741 - Ljósmóðurmál

Hversvegna er ég svona á móti HM í fótbolta. Hef margspurt sjálfan mig að þessu án þess að fá viðhlítandi svar. Helst hefur mér dottið í hug að sú guðræknislega föðurlandsást sem fótboltanum fylgir fari illa í mig. Kannski er það tilfellið. Það er dálítið tilgangslaust að hugsa mikið um þetta. Tekur sem betur fer fljótlega enda.

Fór í morgun (þriðjudag) út að ganga, þrátt fyrir rigninguna, sem reyndar var varla nema súld. Samkvæmt Fitbit er styttri leiðin, sem ég fór í morgun vegna veðurs, samt rúmir 3 kílómetrar. Ennþá styttri leið er að sjálfsögðu einnig hægt að fara. Hún er samkvæmt mælingu 1,8 km.

Eiginlega er allt þetta tilstand með fésbókina alls ekki svo vitlaus hugmynd. Of mikið má þó af öllu gera. Segja má að fésbókin sé orðin allof vinsæl, a.m.k. hér á Íslandi og eflaust víðar. Að sitja við þennan andskota í marga klukkutíma á dag er alveg óþarfi. Það er bara svo þægilegt að láta tímann líða þannig. Verst er að verða háður þessu og láta það sitja fyrir öðru sem hugsanlega er miklu skemmtílegra. Það er ljótur siður. Jafnvel ósiður. A.m.k. siðlaust.

Ljósmóðurmál eru mjög til umræðu um þessar mundir. Sjálfur þekki í afar lítið til í þessum málum, en hátt hefur farið í umræðunni að bæti konur við sig námi í ljósmóðurfræðum eftir að hafa tekið próf sem hjúkrunarfræðingar, lækki þær í launum. Eflaust hafa mjög margar konur verið sviknar á þennan hátt og ekki er nema eðlilegat að þetta verði leiðrétt áður en lengra er haldið. Sé þarna um að ræða sérkennilega túlkun á samningum sem aldrei er notuð ætti að sjálfsögðu að segja frá því, en ekki að nota það sem meginröksemd fyrir sjálfsagðri leiðréttingu.

Ég hafði víst í hótunum um daginn að auka við persónulegar upplýsingar hér á blogginu og segja frá ýmsu sem mig sjálfan snertir. Sú tilkynning hafði ekki mikil áhrif og eiginlega er ég hættur við að gera slíkt. Sennilega held ég bara áfram að mala um hitt og þetta eins og ég er vanur.

Nú er ég að verða kominn að leiðarlokum að þessu sinni og ætla að vinda að því bráðan bug að koma þessu á Netið.

IMG 8009Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Öll hjá ríki eru fædd,
enginn má nú ríða,
en þau verða einkavædd,
eftir Bjarna bíða.

Þorsteinn Briem, 4.7.2018 kl. 14:06

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Einkavæddur Steini stóð
og stálsleginn var þarna.
Læknisverkin gerði góð
glæstan fyrir Bjarna.

Sæmundur Bjarnason, 4.7.2018 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband