2740 - Ég sjálfur

Sagt er að gefið verði frí frá fótboltanum í allan dag. Guð láti gott á vita. Ekki er þó víst að veðurguðirnir geri það. Það er nú meiri rigningin sem hefur verið hérna á þéttbýlasta horninu að undanförnu. Maður er strax farinn að æfa sig í að segja „Já, rigningarsumarið mikla 2018, það var sannarlega eftirminnilegt.“ Mér er líka sagt að flestir veðurspámenn hafi farið í felur. Þó víst ekki Páll Bergþórsson, enda passar hann sig á að spá illa.

Um 1980 gerði ég mér grein fyrir mætti tölvunnar og tölvusamskipta. Ekki gerði ég mér þó í hugarlund að áhrifin yrðu jafn gagntæk og virðist vera. T.d. sá ég Internetið fyrir mér sem risastórt bókasafn sem væri öllum opið án nokkurs endurgjalds. Sem betur fer er Netið að talsverðu leyti þannig ennþá. Vel er hægt að tengjast Netinu fyrir lítinn pening með ódýrum tölvum. Fæstir gera sig samt ánægða með það. Mikill vill alltaf meira.

Hvort skyldi vera mikilvægara að þú getir aukið hraðann á Internetinu svolítið eða að 10 til 100 manns fái að kynnast upphringimódemi í fyrsta sinn? Ég bara spyr. Auðvitað geri ég mér fulla grein fyrir því að svangur og klæðlaus maður mundi hafa meiri áhuga á mat og fatnaði en ókeypis Interneti. Auk þess er dýrt að dreifa Netsendingum um heiminn og margt er brýnna en það.

Kannski er það hugsanlegt að sumir lesenda minna vilji fá að vita meira um mig. Í þessu og næstu bloggum ætla ég þessvegna að byrja á svolítilli sjálfsævisögu. Kannski misvirða það sumir við mig en það verður bara að hafa það. Semsagt þá mun ég á næstunni breyta þessu bloggi að hluta í einskonar dagbók eða sjálfsævisögu. Vinsamlega búist samt ekki við of miklu. Kannski klikka ég alveg á þessu.

Um þessar mundir er ég 75 ára og flestir morgnar byrja á því að ég fer út að ganga um sjöleytið. Þessi tímasetning er þó alls ekkert heilög í mínum huga. Stundum fer ég fyrr og stundum mun seinna af stað. Þegar ég legg á stað set ég venjulega Fitbit-ið af stað í símanum mínum. Þá get ég með því að líta á hann séð hve langt ég hef farið og hve lengi ég hef gengið. Einnig get ég fengið upplýsingar um peisið eða meðalhraðann sem ég er á. Þegar ég stoppa til að hvíla mig, en það geri ég stöku sinnum, þá þarf ég bara að pota á ákveðinn stað á skjánum og þá stöðvast allt og fer ekki af stað aftur fyrr en ég ýti á takkann aftur. Hve lengi ég er smatals búinn að vera útivið get ég að sjálfsögðu fengið upplýsingar um hjá úrinu mínu.

Þó að rigni hefur það engin áhrif á mig að öðru leyti en því að þá þarf ég að fara í regnföt. Venjulega fer ég hringferð útfyrir Höfða og allt að listaverkinu Himnaríki. Sú leið er u.þ.b. 4 kílómetrar og ég er svona uppundir klukkutima að fara þann hring. Oft fer ég eitthvað annað og stundum mun styttra. Það fer mest eftir veðri. Vitanlega gæti ég í þessu bloggi mínu sagt eitthvað frá þessum gönguferðum mínum og e.t.v. geri ég það.

Ætli ég láti þetta ekki nægja að sinni. Þetta með sjálfsævisöguna og dagbókina er allsekki víst að ég standi á nokkurn hátt við. Hef undanfarið verið að velta fyrir mér hvort t.d. einhverjir afkomendur mínir mundu skilja það sem ég skrifa eftir svona áratugi eða aldir. Kannski einhver slysist til að lesa þetta þá. Búast má við að þetta geti orðið aðgengilegt lengi enn.

IMG 8014Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á Akranesi trekk í trekk,
treður fornar slóðir,
Internetsins upp á dekk,
allar vilja þjóðir.

Þorsteinn Briem, 29.6.2018 kl. 12:43

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Allar þjóðir elska það
ekki er þvi að neita.
Ef sæld og frami fylgjast að
fara þær að leita.

Sæmundur Bjarnason, 30.6.2018 kl. 12:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband