2726 - The Trump Show

Ekki er að sjá að sjálfhælni og fjölmiðlaárátta Donalds Trump eigi sér nokkur takmörk. Svo er að sjá að allt eigi að snúast um hann, að hans eigin áliti. Þessvegna er það sem hann lýgur og svíkur takmarkalaust. Allt snýst um að vera stöðugt í fréttum. Sama þó þær fréttir séu neikvæðar. Svona hefur hann verið alla tíð. Auðvitað á hann mjög gott með að komast í fréttir núna. Þannig var það ekki alltaf. Þó var hann nokkuð vinsæll sem sjónvarpsstjarna. Einkum vegna þessarar áráttu sinnar. Eins og bandarískt þjóðlíf er í rauninni þá er það ekki mjög erfitt fyrir vel gefið fólk að raka saman peningum, ef það er helsta markmiðið, enda eru milljarðamælingar þar nokkuð margir. Þeir eru þó ekki allir jafn fjölmiðlasæknir og Trump. 

Henni (Vestfjarðadísinni sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir) er fjandans sama þó hún fái bara fimmþúsundkall, en aðrið nokkra milljarða af næstum verðlausum krónum. Kannski fær hún líka klapp á bakið og auðmennirnir vita núna nákvæmlega hvar þeir hafa hana. Út af einhverju var hún gerð að formanni sjávarútvegsnefndar þingsins. Kannski heitir sú nefnd eitthvað annað núna. Eiginlega er engin furða þó VG tapi viðstöðulaust fylgi. Einhverjir trúðu þeim víst þegar þeir sögðust vera alfarið á móti ESB. Katrín forsætis þarf að fara að huga að trúverðugleika sínum.

Hvað á ég að gera? Ég get ekki tekið þátt í neinni samkeppni því allsstaðar eru verðlaunin ferð á HM í fótbolta og þangað langar mig ekki neitt. Hvernig í ósköpunum stendur á þessu andleysi? Dettur engum eitthvað skynsamlegra í hug? T.d mætti verðlauna með peningum.

Klausuna hér á undan setti ég á fésbókina því mér fannst hún eiga betur heima þar. Að mörgu leyti leiðist mér fésbókin. Mest vegna þess að þar er alltaf verið að breyta öllum fjáranum og auglýsingafarganið þar er alveg að drepa mann. Mér finnst ég a.m.k. ekki verða eins var við það hér á Moggablogginu og ég er ekkert hættur að blogga þó lengra líði kannski á milli blogga núna en undanfarið. Og svo er þjóðsöngnum okkar misþyrmt í sjónvarpinu oft á dag.

Loksins er sumarið komið. Þó ekki sé beinlínis sólskin hérna á Skaganum er að mestu hætt að rigna og þar að auki hefur hlýnað talsvert. Kannski maður bregði sér bara út. Annars fer ég í svona klukkutíma morgungöngu flesta morgna og þá gerir lítið til þó rigni pínulítið, það er vel hægt að klæða slíkt af sér. Og kuldann líka.

IMG 8117Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á Akranesi aldrei meyr,
er nú karlinn Sæmi,
ef hann verður eins og leir,
á óvart mér það kæmi.

Þorsteinn Briem, 1.6.2018 kl. 12:00

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ekki meir, ekki meir 
ákaft sagði Steini.
Engan leir, engan leir, 
ekkert verði' að meini.

Sæmundur Bjarnason, 1.6.2018 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband