2727 - Trumpleysi er allra meina bót

Ég er búinn að vera í burtu alla helgina. Samt er ég alls ekki hættur að blogga. Trump-sýkin er þó örlítið að rjátlast af mér. Um margt annað og áhugaverðara er hægt að skrifa.

Merkilegasta heimspekilega spurningin finnst mér vera: Er fólk fífl? Er virkilega hægt að vefja fjöldanum um fingur sér með málæði og því einu að vera öðruvísi en aðrir? Trump virðist vera að takast þetta í bandaríkjunum.

Jæja, ekki gat ég skrifað langt mál án þess að minnast á Trump. Heimspekingur er ég ekki. Kannski er ekki mikið að marka mig. Get samt ekki að því gert að pólitískt hugsa ég svona. Hugsanlegt er að MESTA fíflið sé ég sjálfur. Þetta minnir mig á meirafíflskenninguna sem stundum virðist vera allsráðandi í viðskiptum. Kannski var HRUNIÐ sjálft henni að kenna. En förum ekki lengra út í þá sálma.

Lesendum mínum á Moggablogginu virðist vera að fækka aftur og er það vel. Selebrity vil ég síst af öllu verða. Látum vera þó einhverjir lesi þetta bull í mér. Um leið og þeir verða of margir fer mér að líða eins og einhverju selebrity og það er slæmt. Alls ekki vil ég samt læra betur á fésbókina eða snjallsímann minn, því mér finnst þessi tvö fyrirbrigði á margan hátt vera einskonar draumur andskotans.

Moggabloggið hentar mér ágætlega. Ekki síst vegna íhaldsstimpilsins sem á því er. Svo er dálitið umhendis að svara þessum ósköpum og fáir gera það. Athugasemdir við það sem ég skrifa á bloggið þurfa helst að vera gerðar þar. Annars getur dregist von úr viti að ég svari þeim. Samt auglýsi ég alltaf á fésbókarfjáranum og finnst ég verða að gera það.

Komum frá Akureyri í gær og þegar við fórum að nálgast Skagann fórum við framhjá Strákatalfæri, Luxustanga og Bognabresti. Sumir í bílnum kunnu að meta þennan orðaleik, en aðrir ekki. Sumir rithöfundar gera jafnvel of mikið af því að leika sér með tungumálið. T.d. er Hallgrímur Helgason slæmur með þetta. Ég er samt allsekki að líkja mér við hann. Í bloggi má allt. Jafnvel láta eins og vitleysingur.

Auðvelt er að sá hatri. Einangrunarviðleitni og sjálfselska kann að hafa í för með sér efnislegan ávinning um stundarsakir. Meðlíðunin með þeim sem ólíkir eru mun samt sigra á endanum.

Heyrði rétt áðan auglýsingu sem hljóðaði eitthvað á þennan veg: Pantaðu í matinn á Netinu og grípu það með þér á heimleiðinni.

Svonalagað skil ég bara allsekki. Er útilokað að vera á Netinu heima hjá sér? Eða er auglýsingin bara fyrir suma?

IMG 8114Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Til Akureyrar oft hann fer,
í eðalvagni sínum,
alltaf þar að ofan ber,
með ótal brjóstabínum.

Þorsteinn Briem, 4.6.2018 kl. 13:45

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini var á Akureyri
einkum ber um nætur.
Er víst líka eins og fleiri
ákaflega sætur.

Sæmundur Bjarnason, 4.6.2018 kl. 16:05

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

 

Sæma og Steina er sæmdin bezt
að sýna lit á einu:
akureyrska að elska mest,
þótt ekki sé í neinu.

Jón Valur Jensson, 5.6.2018 kl. 04:51

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Til þess að ofstuðla ekki, mætti náttúrlega segja:

að knúsa akureyrska mest,  o.s.frv.

Jón Valur Jensson, 5.6.2018 kl. 05:00

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta minnir auðvitað á vísuna:

Giljuð var mörg uppi í Gili ...

sem hér mun brátt mega líta í fullri lengd, þegar góðir menn eru komnir í gang.

Jón Valur Jensson, 5.6.2018 kl. 05:08

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svo er hér smá-pilla til Sæmundar vegna pistilsins undarlega:

Fífl ef álítur fólk þitt þú,
fjósamanns lít ég á það sem trú.
Nær væri að sjá þar vizku vott,

Vinstri græn þegar við hrekjum brott
af landi hér, það hreinsun er!
Svo kjósum við Davíð í desember!                                     

Jón Valur Jensson, 5.6.2018 kl. 05:25

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Verð víst að svara þessu, þó ég hefi enga vísu tilbúna.

Ætlarðu að hafa kosningar í desember?

Hver var giljuð uppí gili?

Voðalega ertu snemma á fótum.

Sp sk og st eru gnýstuðlar og stuðla ekki við lægra sett s.

Sumir vilja að vísu hafa gnýstuðlana fleiri, en ekki hann ég.

Sæmundur Bjarnason, 5.6.2018 kl. 14:07

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Kýrrassa tók ég trú
trú þessa hef ég nú. 
Í flórnum fæ ég að standa
fyrir náð heilags anda.

Sagði Káinn fyrir margt löngu. Það var fjósamannstalið (sem ég skil ekki) hjá þer Jón Valur sem beindi mér á þessa braut.

Sæmundur Bjarnason, 5.6.2018 kl. 14:14

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Karlamagnús keisari dýr
kristni boðaði hreina. 
Aldrei hann fyrir aftan kýr
orrustu háði neina,

orti Þórður Magnússon á Strjúgi, ekki satt? Og betra en glæfralegt djókið í K.N.!

En hvergi braut ég hér stuðlareglur nema með 3. línunni (ofstuðlaðri) í fyrri vísunni (sem ég lagaði reyndar), og er slíkt þó alvanalegt skáldaleyfi, þ.m.t. hjá stórskáldum fyrri tíðar.

Vel þekki ég að sjálfsögðu gnýstuðla (útvíkkun þeirra er sl-, sm- og sn-), en í fyrri vísunni eru fyrstu stuðlarnir S í Sæma og S í sæmdin ("Steina" kemur stuðlasetningunni þar ekkert við) og höfuðstafurinn S í sýna. Ég veit ekki hvernig það datt í þig, Sæmi, að fipast í þessu.

Já, ég ætla að hafa kosningar í desember!

Svarið við næstu spurningu er í upphafslínunni: "mörg"!

PS. Seinni vísa mín er 6 línur í einu erindi, en tæknilega réð ég ekki við það eða nennti að eyða meiri tíma í það að laga uppsetninguna betur. Og þar væri þjálla að segja "Vinstrigræn" (sem er réttur þríliður) fremur en í tveimur orðum, svo að menn hafi betri leiðsögn um lesturinn.

En það kalla ég ekki heimspeki, heldur miklu fremur fjóstrú að telja fólk fífl, en taktu það ekki nærri þér, Sæmundur minn.

En ætlið þið, svona galvaskir, ekki að hafa það af að botna þessa 1. línu? Er þetta ekki ærin ögrun fyrir norðanfara eins og ykkur Steina?

Jón Valur Jensson, 5.6.2018 kl. 16:54

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Giljuð var mörg uppi í Gili;
gekk ekki rétt vel í bili  
hjá Steina, Brussel- þá boðin
bárust í fóninn og voðinn

að anza ekki yfirvaldi 
(sem áður þá færeysku kvaldi).
Hann lagði'hana frá sér; hún fnæsti,
ferlega áður þó dæsti. 
Á YouTube er um þetta ræma,
aðhlátur vekur það Sæma.

Hér slitnuðu óvart sundur 4. og 5. lína; þetta er ein vísa, ekki tvær og saman sett í anda sósíalrealismans, vinsællar stefnu í eldra Sovétinu.

Jón Valur Jensson, 5.6.2018 kl. 19:47

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hann lagði´hana frá sér; hún fnæsti, (etc.)

Jón Valur Jensson, 5.6.2018 kl. 19:49

12 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ja, hérna.

Við yrkingarnar er ég bara orðinn nokkuð seigur
við orðaþrautir ekki deigur
andlegur minn stækkar teigur.

Ekki skil ég þig fyllilega ennþá.

Kannski ert þú allur í pólitíkinni og efnahagsbandlaginu.

Ekki álít ég þig samt Trump-sinna.

Með giljunina á Gili er ég engu nær.

Sæmundur Bjarnason, 5.6.2018 kl. 20:27

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Brussel- þá boðin" þýðir náttúrlega: þegar Brussel-boðin (bárust í fóninn o.s.frv.).

Annars hef ég lítið meira um þetta að segja.

En vísnaskak er náttúrlega skáldskapur og gamanmál sem ekki ber að taka jafn-bókstaflega og leiðaragreinar Moggans á hverjum morgni. wink

Jón Valur Jensson, 8.6.2018 kl. 00:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband