2724 - Fótbolti o.fl.

Það er að verða einskonar íþrótt hjá okkur Steina Briem að kveðast á í athugasemdum við bloggið mitt. Jafnan leggur hann útaf einhverju sem ég hef skrifað um og ég svara með vísu sem á einhvern hátt er tilvísun í hans vísu. Svolítil takmörkun er þetta en mér finnst samt ótrúlega auðvelt að svara honum. Hef nefnilega aldrei litið á mig sem neinn sérstakan hagyrðing. Þegar ég var á Bifröst voru flestir bekkjarfélagar mínir mun betri vísnasmiðir en ég. Séra Helgi Sveinsson gerði t.d. þessa vísu um einn þeirra:

Í andríkinu af öllum ber
okkar kæri skóli.
Kraftaskáld er komið hér
Kiddi á Hjarðarbóli.

Fréttablaðið segir að nú séu 23 dagar þangað til að fyrsti leikur Íslendinga verður á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi. Ætlunin er víst að birta einskonar jólasveinamyndir af öllum þeim fótboltamönnum sem valdir hafa verið í liðið. Blaðamenn hlakka áreiðanlega til HM eins og jólanna. Ekki þarf nema lítið að skrifa um annað en fótbolta svo ég kvíði þessu ástandi svolítið. Mun samt horfa a.m.k. á leikina sem Íslenska liðið leikur þar og kannski fleiri. Lofa samt engu um það hvað ég les um HM.

Það er ósiðlegt af alþingi að þumbast svona lengi við að ráða bót á fiskveiðistjórnuninni. Vel væri hægt að láta hagnaðinn af fiskveiðunum renna til þjóðarinnar allrar í stað þess að gera fáeina útgerðarmenn moldríka með gjafakvótanum. Ekki er hægt að sjá að sérstakt réttlæti sé í því fólgið að miða ennþá við hverjir mokuðu upp mestum fiski fyrir næstum 40 árum. Þorvaldur Gylfason og fleiri hafa m.a. bent á hvernig Norðmenn hafa látið hagnaðinn af olíunni renna í sjóð sem er nokkurskonar eftirlaunasjóður allrar þjóðarinnar. Kvótakóngarnir íslensku eru til mikillar óþurftar og á vissan hátt sambærilegir við olíufurstana við Persaflóa og oligarchana í Rússlandi.

Ég reyni að skipta mér sem minnst af innlendri flokkapólitík í þessu bloggi mínu. En það er erfitt. T.d. hef ég svolítinn áhuga á strætómálum, þó ég ferðist lítið með þeim. Einhver sagði mér að ókeypis væri í strætó á Akureyri. Það finnst mér nokkuð sniðugt og líklegt til að auka farþegafjölda hjá þeim. Miðflokkurinn (flokkur Sigmundar Davíðs og Vigdísar Hauks) hefur haft hátt um það kosningaloforð sitt að vilja hafa ókeypis í strætó í Reykjavík. Í heilsíðuauglýsingu frá þeim flokki í Fréttablaðinu í dag (föstudag) er þetta loforð komið í sjöunda sæti og þar að auki á það víst bara að vera fyrir þá sem eiga lögheimili í Reykjavík. Í mínum huga þýðir gjaldfrjáls það sama og ókeypis fyrir alla, en ekki bara fyrir suma. Er þessi lögheimilissöngur farinn að trufla suma? Ég bara spyr.

IMG 8149Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Reykjavík er flokkafans,
feyki mikið úrval,
og í boði Andskotans,
Eyþór Arnalds Laxdal.

Þorsteinn Briem, 25.5.2018 kl. 13:36

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ávalt býður upp í dans
allur þessi flokkfans.
Er í boði andskotana
Eyþór litli sonur hans?

Sæmundur Bjarnason, 25.5.2018 kl. 17:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband