2699 - Stormy Daniels

Plánetur sem fylgja sólum án þess vera í okkar sólkerfi eru kallaðar exoplanets  á enskri tungu. Ég veit ekki hvað væri réttast að kalla þær á íslensku. Þær sem nú þegar hafa fundist eru taldar vera um 4000 eða álíka margar og stjörnurnar sem sjást á himninum með berum augum ef ljósmengun er engin. Það líf sem hugsanlegt er að við gætum átt einhver samskipti við er líklegast að þróast hafi á plánetum sem hafa a.m.k. einhversstaðar meðalhita á milli frostmarks og suðumarks vatns. Sennilegt er að ca. 100 af þessum 4000 exoplanets falli í þann flokk.

Undanfarna áratugi höfum við leitað nokkuð markvisst að vitibornu lífi í alheiminum, án þess að það hafi borið nokkurn árangur. Enginn vafi er á að slíkt fyrirfinnst og líklegast er að aðrir leiti eða hafi leitað líka. Í framtíðinni má búast við því að tækni í slíkri leit fleygi fram og spyrja má eins og sagt er að Enrico Fermi hafi gert: „Hvar eru þá allir?“ Speglasjónir (spekúleringar) um þessi mál hafa heillað marga í gegnum aldirnar.

Einkennilegt þykir mér hve hávaði í auglýsingum í útvarpinu og sjónvarpinu er mikill. Mér finnst stillingin ekki vera rétt. Áhersla virðist vera lögð á að hafa hljóðið í auglýsingum hærra stillt en ef um annað efni er að ræða. Þetta er vandstillt og ég kann að hafa rangt fyrir mér. Hinsvegar er það alveg greinilegt í appinu fyrir AppleTV-ið sem heitir „spilarinn“ (þar er hægt að flakka milli stöðva) að stöðvarnar stilla hljóðið mismunandi hátt og appið sem á að senda þau sjónvarpsmerki sem allir eiga að geta náð á hverjum tíma er oftast bilað og sendir aldrei upptökurnar frá Alþingi og fréttirnar hjá Stöð 2 bara með höppum og glöppum.

Svo ég snúi mér að allt öðru þá er það svo að ég hef ekki orðið var við að það sé dregið í efa að lögfræðingur Trumps bandaríkjaforseta hafi nokkrum dögum fyrir kosningarnar árið 2016 greitt Stormy Daniels 130.000 dollara. Nú segir hann að hann hafi greitt þetta af sínum eigin peningum og þetta komi Donald Trump ekkert við. Um þetta er mikið efast. Þetta mál er allt hið undarlegasta og ég á ekki von á að Trump verði kærður til embættismissis vegna þessa. Það var reynd með Clinton greyið, en gekk ekki. Samsetning þingsins (einkum öldungadeildarinnar) er þannig að það er ólíklegt. Hins vegar gætu mál þessu tengd verið að velkjast fyrir dómstólum næsu árin.

NRA er skammstöfun fyrir „National Rifle Association“. Þarna er um að ræða öflug og áhrifamikil samtök byssu-unnenda í bandaríkjunum, sem hafa mikil áhrif á þingið með fjölda sínum og peningum. Fyrst og fremst með peningum þó. Sagt er að þau hafi meiri áhrif á löggjöf en styrkur þeirra ætti að segja til um. Nú um stundir eru þau sögð óttast fátt meira en 18 ára snoðklippta stelpu sem heitir Emma Gonzales. Hún hefur fyrir hönd yngstu kynslóðarinnar krafist endurskoðunar á byssulöggjöfinni í bandaríkjunum. Ekki er samt víst að hún hafi erindi sem erfiði. Bandaríkjamenn eru svo skrítnir.

Móðirin: Langafi þinn er dáinn.
-Strákurinn: Hver skjótti hann?

Og svo er það stelpan sem sagði við pabba sinn: Pabbi, hvort er ég ættleidd, glasabarn eða rídd?

IMG 0079Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stormy Daniels niðurnídd,
næstum öllum riðið,
ættleidd hún en ekki rídd,
á exoplanet-sviðið.

Þorsteinn Briem, 27.3.2018 kl. 08:47

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini fór að steyta görn, 
stalst þar inná sviðið.
Ekki vild' hann taka törn 
á typpinu í miðið. 

Sæmundur Bjarnason, 27.3.2018 kl. 11:03

3 identicon

Þetta með auglýsingarnar er alþjóðlegt vandamál. Þeir sem búa til auglýsingarnar þjappa hljóðinu allt of mikið til þess að það sé hærra en síðasta auglýsing. Þetta er þekkt og frekar pirrandi.

James Webb sjónaukinn á held ég að fara upp í ár. Eftir 2 á fer annar sjónauki upp, man ekki hvað hann heitir, en hann mun kostleggja jafn stórt svæði á himninum og Hubble gerði allt sitt líf. Þessi mun geta ljósgreint efni eins og vetni og fl. á exoplánetum. Það fer að styttast í að við fáum staðfestinguna á að þeir séu þarna úti. Það mun engu breyta varðandi efnisheiminn en nánast öllu í hinum andlega.

Exoplanet = Spáneta?

Sigþór Hrafnsson 28.3.2018 kl. 00:06

4 identicon

Þessi nýji, 2020, mun kortleggja jafn mikið og Huggle á einum degi.

Sigþór Hrafnsson 28.3.2018 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband