2700 - Friðrik Skúlason og Kári Stefánsson

Að ég skuli vera búinn að blogga næstum tvö þúsund og sjöhundruð sinnum er alveg lygilegt. Þó held ég að þessi tala sé nokkurnvegin rétt hjá mér. Að ég skuli hafa fundið uppá þessum númeringum strax í upphafi er alveg lygilegt líka. Ekki eru aðrir að apa þetta eftir mér. A.m.k. hef ég ekki séð það. Ekki get ég hætt að númera bloggskrifin mín, eða hvað finnst ykkur? Sennilega get ég ekki einu sinni byrjað á núlli eða einum aftur fyrr en eftir 9999 blogg.

Það er eins og margt af því sem ég hef sagt um fésbókina sé að koma fram núna. T.d. þetta með „púpuna“ eða „kúluna“ eins og sumir vilja kalla fyrirbrigðið. Smátt og smátt lokast þú inni í þinni skel og heldur að heimurinn allur sé eins og pottlokið sem er yfir þér. Svolítið hef ég reynt að berjast gegn þessu, en það er ekki auðvelt og ég geri ráð fyrir að ég sé a.m.k. jafntakmarkaður að þessu leyti og flestir aðrir.

Alltaf reyni ég að vera sæmilega fjölbreyttur í þessum bloggskrifum mínum. Líka reyni ég að fjölyrða ekki um of um sama efnið fram og aftur með mismunandi orðum. Þó er þessi klausa óþægilega lík þeim næstu á undan, svo það er líklega best að hætta núna strax.

Einhverntíma um daginn sá ég tungl vaða í skýjum. Þá festist þessi gamla og alkunna vísa alveg í huga mér:

Týnd er æra, töpuð sál.
Tungl veður í skýjum.
Sunnefunnar sýpur skál,
sýslumaður Wium.

Eiginlega er ljóðlína númer tvö óttalegur hortittur. Samt hefur þessi vísa náð flugi því hún gerir aðra parta vísunnar óneitanlega svolítið ógnvekjandi. Annars er það einkennilegt að ekki skuli hafa verið skrifuð bók nýlega um „Sunnefumálin“ svo eftirtektarverð sem þau eru. Skáldsögur um söguleg efni eru á margan hátt uppáhald mitt. Hætt er samt alltaf við að gera þurfi greinarmun á staðreyndum og því sem gerist aðeins í hugarheimi höfundar. Ekki gera þeir sjálfir alltaf nægilegan greinarmun á því. Man að ég gerði mér í fyrsta skipti almennilega grein fyrir þessu þegar ég las fyrstu ævisögulegu bókina eftir Sigurð Aðalheiðarson Magnússon. Minnir að hann hafi kallað hana: „Undir kalstjörnu.“

Heyrði nýlega viðtal við Friðrik Skúlason um Íslendingabók o.fl. Á margan hátt var þetta fróðlegt viðtal. Íslendingabók er framúrstefnulegt verk. Ekki er víst að allir þekki þetta fyrirbrigði a.m.k. hefur ekki verið mikið fjallað um hana undanfarin ár. Sjálfur komst ég að ýmsu um ættir mínar með hjálp þessa verks, sem þeir eiga á margan hátt sameiginlegan heiður af að hafa látið verða að veruleika þeir Friðrik Skúlason og Kári Stefánsson.

IMG 0078Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sæmundur á sauðskinnsskóm,
sjaldan hann með orðin tóm,
oft hann smellir í sinn góm,
aldrei skrifar hann um hjóm.

Þorsteinn Briem, 29.3.2018 kl. 14:50

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Vísnaþrugli vanur er
og vasklegur hann Steini.
Sjálfur vill hann svara mér
og sýnast ekki í leyni.

Sæmundur Bjarnason, 29.3.2018 kl. 15:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband