1999 - Snowden o.fl.

Það er greinilegt að Sigmundur Davíð er að veðja á rangan hest. Þó hann teljist sjálfur til auðmanna er ekki víst að þeir geti verndað hann einsog þarf. Umræðan á netinu er honum og ríkisstjórn hans a.m.k. mjög andsnúin. Ekki er þar með sagt að kjósendur séu almennt að snúast gegn honum, en niðurstöður skoðanakannana benda samt til þess. Stjórnmálalandslagið er óðum að breytast hér á landi og víða um heim. Sennilega er það tæknin sem stendur fyrir því.

Auglýsingafarganið er samt að ganga af fésbókinni dauðri. Þó er hún ágætis hugmynd til að halda góðu sambandi við vini og fjölskyldumeðlimi sem búa langt í burtu. Hún er sífellt að verða flóknari og flóknari. Ruslasöfnunin þar er geigvænleg og fjöldi síðna svo mikill að til vandræða horfir. Kannski er fólk meira og minna hætt að heimsækja hvert annað. Var ekki síminn svona á sínum tíma? Svo lærði fólk smámsaman á hann.

Pútín er greinilega skíthræddur við Kanann. Því skyldu aðrir þá ekki vera það líka? Skilst að Snowden hafi verið boðið pólitískt hæli í Rússlandi með vissum skilyrðum þó, en hann hafi hafnað því. Kannski verður hann á Moskvuflugvelli þangað til hann gleymist. Í Ekvador er honum sagt að málið verði athugað ef hann kemur þangað. Sama er hér. Það skuggalegasta í þessu máli er að almenningur í USA virðist vilja að Snowden verði stungið inn. Assange er þegar hálfgleymdur og Bandaríkjastjórn hefur tekist að gera Wikileaks að grunsamlegum félagsskap. Ætli ESB sé ekki syntesan (Hegel) sem verður til úr kapítalisma og kommúnisma? Og endirinn gæti vel orðið sá að Snowden komi hingað.

Mál Snowdens og Bobbys Fischers eru alls ekki sambærileg eins og sumir halda. Í fyrsta lagi er ríkisborgararéttur og pólitískt hæli alls ekki það sama. Snowden hefur ekki sótt um ríkisborgararétt. Bandaríkjamenn leggja mikla áherslu á að ná Snowden og jafnvel Pútín þorir ekki annað en gegna þeim. Í rauninni var þeim sennilega nokkuð sama um Fischer.

Nú er undirskriftaæðið í algleymingi. Bráðum hætta allir að taka mark á þessu. Þjóðaratkvæðagreiðslur mættu þó vera algengari. Svona árlegar eða svo. Enginn sérstakur akkur væri í að gera þær of algengar. Það sem maður heyrir frá Bandaríkjunum sýnir að þar stefnir allt í það ófrelsi sem maður hélt að Bresnev og Co. hefði haft einkaleyfi á. Kannski er það svolítið ýkt. Samt þykir mér að eftirlitsiðnaðurinn blómstri í USA sem aldrei fyrr.

IMG 3393Kuðungur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband