1976 - Grímur og gontið

Var að enda við að lesa grein um Samfylkinguna eftir Reyni Traustason. Margt finnst mér vera þar alveg rétt. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var svosem ekki alslæm en kom afar litlu í verk, fyrir utan að halda sæmilega í horfinu. Sem sennilega var erfitt. Eðli Framsóknarflokksins er að vera á miðjunni, lítill flokkur eða svolítið stærri eftir atvikum. Eðli Sjálfstæðisflokksins er að vera hægra aflið í stjórnmálum á landinu. Þar halda menn saman og halda með því völdum nokkuð vel. Eðli vinstri manna virðist vera að vera sundraðir. Þannig veikist afl þeirra og völdin skreppa þeim hvað eftir annað úr höndum. Auðvitað er þessi vinstri og hægri flokkun verulega úrelt og fjórflokkurinn reyndar líka, en þar eru völdin og munu halda áfram að vera. Smáflokkarnir ná ennþá síður saman en vinstri mennirnir.

Það virðist vera svo flókið að endurreikna gömlu og sviksamlegu bankalánin að líklega verður að horfa á það með miklum skilningi að bankastarfsmenn séu fleiri hér miðað við höfðatölu en annarsstaðar. Hingað til hef ég haldið að þetta stafaði af meiri þjónustu bankanna hér.

Skriðuföllum og snjóflóðum hefur hugsanlega ekki fjölgað eins mikið hér á Íslandi að undanförnu og margir virðast halda. Fréttir af slíku hafa samt stóraukist.

Í ríkisútvarpinu var sagt áðan að Sigmundur Davíð forsætisráðherra hafi átt tvíhliða viðræður við einhvern. Á undan var sagt frá viðræðum hans við utanríkisráðherra Rússlands minnir mig. Hve margra hliða voru þær? Einhliða kannski? Var verið að gefa það í skyn?

Þetta er innlegg sem ég setti á orðhengilinn á fésbókinni, að frátöldum tveimur síðustu setningunum. En það eru fáir sem villast þangað, held ég. Vilja sennilega ekki viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að þeir séu orðhenglar. Eiður Guðnason og Sigurður Hreiðar eru það nú samt. Eiður er alltaf að leiðbeina öðrum og stendur sig vel í því. Er hættur að lesa molana hans, en oftast er ég honum sammála þar. Sigurður er einnig óttalegur orðhengill en skemmtilegur samt. Hann bíður víst eftir framhaldi vísunnar um Grím sem fær (eða fékk) gontið, en Hjálmar Jónsson, fyrrum dómkirkjuprestur, var ekki lengi að leiðrétta vísuræfilinn um hann Grím. Svona er hann núna:

Nú er úti veður vont
verður allt að klessu
Vá-er sýnir veikan front
að villast svona á þessu.

Kannski er varasamt að trúa öllu. Ég trúi samt alveg DV-fréttinni um að svo heitt hafi verið í kolunum á aðalfundi hjá Krossinum að þurft hafi að kalla á lögregluna. Hægt er líklega að skoða fésbókarsíðu Gunnars Þorsteinssonar í Krossinum því hann hlýtur að segja eitthvað frá þessu þar. Mér finnst með ólíkindum að aðalfundir hjá félagi sem Krossinum skuli þurfa á lögregluvernd að halda. Er það næsta mál á dagskrá hjá húsfélaginu við Bjargráðastíg að kalla á lögregluna?

Jú, auðvitað erum við arðrænd og kúguð en reyna kúgararnir ekki að hafa okkur nægilega góð til þess að við eyðileggjum ekki bara það sem okkur er talin trú um að sé okkar eign heldur sjálf kúgunartækin. Uppreisnin í Tyrklandi kann að halda áfram og verða ríkisstjórninni þar skeinuhætt. Ég þekki samt ekkert til þarna og veit svosem ekki við hverju er að búast.

Öll sjáum við okkur í einhverju ljósi. Sjálfur sé ég mig í einhverju rithöfundarljósi. Þannig kemst ég hjá því að brjálast. Sigurður Þór Guðjónsson sér sjálfan sig í einhverskonar Þórbergsku ljósi. Þarna er ég að stríða Sigga. Tinna, uppáhalds barnabarnið mitt (eins og er a.m.k.) segir oft um mig að ég sé að stríða sér. Segir það reyndar um pabba sinn líka. Hún er bara þriggja ára og kýlir mig stundum fyrirvaralaust með krepptum hnefa í „bumbuna“ sem hún segist öfunda mig mikið af og það er ómögulegt að reiðast henni fyrir það.

IMG 3207Hvað er þetta?


mbl.is Mótmæli halda áfram í Tyrklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þetta svampur innan úr gömlu bílsæti eða eitthvað þvíumlíkt? Ansi óásjálegt að minnsta kosti.

Siggi G 5.6.2013 kl. 20:10

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, líklega er það rétt hjá þér. Svampur var það áreiðanlega.

Sæmundur Bjarnason, 5.6.2013 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband