1970 - Vigdís Hauksdóttir

Ég sé að mitt síðasta blogginnlegg hefur valdið nokkrum deilum milli Sigurðar Þórs Guðjónssonar og Jóhannesar Laxdal Baldvinssonar. Það er vel. Mér finnst þeir báðir hafa rétt fyrir sér. Hvor á sinn hátt. Svona getur nú verið erfitt að taka ákvarðanir. Jafnvel (og alls ekki síst) er hægt að túlka fangelsismál með tilliti til pólitíkur. Samkvæmt minni skilgreiningu er Sigurður talsvert vinstrisinnaður en Jóhannes til hægri. Stjórnmálaskoðanir geta vel haft áhrif á það hvernig á þessi mál er horft. Svo er vel hægt að blanda afskiptasemi ESB inn í þetta o.s.frv. o.s.frv.

Hef verið að lesa að undanförnu Spánarpósta eða bréf Þorsteins Antonssonar. Merkileg bók og persónuleg. Þar er hann meðal annars með ýmsar hugleiðingar um uppeldi sitt. Margt er þar vel athugað og kannski skilur hann sjálfan sig betur en flesta aðra. Tillit til annarra og að geta sett sig inn í hugsanagang þeirra er líklega einhver mikilvægasti og misskildasti allra mannlegra eiginleika. Grunnurinn að einhverfu og öllum afbrigðum hennar liggur sennilega þar. Einhverfa og Alzheimer eru tískusjúkdómarnir um þessar mundir. Spurningin varðandi alla sjúkdóma finnst mér vera að hve miklu leyti þeir eru líkamlegir og að hve miklu leyti andlegir.

Það er eiginlega alltof seint að koma sér upp persónuleika á þessum aldri. En svei mér ef ég hef ekki með Þorsteini komist í kynni við annan eins sérvitring og sjálfan mig. Sigurður Þór Veðurviti er einn til.  

Þó það sé vafasamt þá finnst mér alltaf að ég sé hálfvegis að svíkja mögulega lesendur mína (sumir mundu segja hlífa í stað svíkja) ef ég sleppi því að blogga svotil daglega. Þó hef ég oft ekkert að segja og sumum finnst áreiðanlega að þetta sé bölvað bull hjá mér. Mér finnst ég þó ekki eins skuldbundinn til að blogga á hverjum degi einsog einu sinni var. Kannski eru þessi blogg hjá mér bara aðferð til að koma myndunum mínum á framfæri. Ha ha, þessi var góður. Þær eru reyndar alls ekkert góðar hjá mér og ég er bara búinn að venja mig á að láta mynd fylgja hverju bloggi. 

Nú er talað um að afnema gjaldeyrishöftin í síðasta lagi í september næstkomandi. Af því það er svo margt annað sem á að gera í sumar er ég svolítið hræddur um að þetta viðvik gleymist. Kannski verða þó einhverjir til að minna á það. En gamanlaust þá held ég að sú tíð kunni að koma, jafnvel eftir nokkur ár, að nauðsynlegt verði að afnema gjaldeyrishöftin. Kannski þýðir það svona 50 til 100 prósent gengislækkun en þá verður bara að hafa það. Innflutt drasl hækkar þá eflaust í verði en LÍÚ kætist áreiðanlega.

Eiginlega ætti ég að setja hér eitthvað um Vigdísi Hauksdóttur. Ég hef bara engan áhuga á henni, þó fjölmiðlungar virðist hafa það. Sá ekki frétt um hana sem á víst að hafa birst á Stöð 2. í kvöld. Kannski set ég nafnið hennar samt í fyrirsögnina. Fyrst þegar ég heyrði að Eygló væri eina framsóknarkonan sem ætti að verða ráðherra og að Framsóknarflokkurinn ætti að hafa einum ráðherra færri en Sjálfstæðisflokkurinn hugsaði ég á þá leið að mikið legði Sigmundur á sig til að losna við að þurfa að gera Vigdísi að ráðherra. En það var bara ég.

IMG 3183Hús í Kópavogi.


mbl.is „Komið yfir vitleysingastigið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Varla má á milli sjá
meir hver fer með lygi
Verandi sjálf Vigdís H.
á "vitleysingastigi"

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.5.2013 kl. 00:41

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Yrkir ljóðin ansi góð

okkar fróði maður.

Eflir sjóðinn allt það flóð,

er afar vísnaglaður.

Já,já. Þetta er stolið og stælt. Seinni partinum svolítið breytt (til hins verra) enda kom mér ekkert annað í hug. Þetta er hvorki meira né minna en rándýr oddhenda. Kristinn Jón Kristjánsson átti upphaflegu vísuna en um hann orti skáldið sér Helgi Sveinsson eitt sinn:

Í andríkinu af öllum ber

okkar kæri skóli.

Kraftaskáld er komið hér

Kiddi á Hjarðarbóli.

Sæmundur Bjarnason, 28.5.2013 kl. 09:45

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sé að Morgunblaðsritillinn tekur ekki mark á vandaðri uppsetningu ef notaður er Chrome-vafrinn, eins og ég geri. Jóhannes notar sennilega explorerinn og þá er all í lagi. Jæja, ekki verður við öllu séð.

Sæmundur Bjarnason, 28.5.2013 kl. 09:48

4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég nota helst ekki Explorerinn.  Helst ef ég er að streyma efni af RUV.  Oftast nota ég Firefox en undanfarið hef ég líka notað Chrome vafrann. Og þar gildir það sama að nota shift+enter til að búa til rétt línubil.  En Copy og paste virkar öðruvísi.  Það verður að tiltaka sérstaklega ef maður vill ekki líma inn texta með upprunalegu formati. Ef þú notar þá aðferð þá skaltu prófa Notepad en ekki Word .  Wordinn formatar textann á ákveðinn hátt meðan Notepad er svona plain textaritill. Ætli ástæðan fyrir breyttu viðmóti Chrome í sambandi við moggabloggið sérstaklega, tengist ekki java.  Gæti trúað því.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.5.2013 kl. 11:01

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sko, ég nota ekki copy/paste þegar ég er í athugasemdunum. Þekki vel shift - enter dæmið, en ég er að tala um línubilin, ekki línulengdina.

Sæmundur Bjarnason, 28.5.2013 kl. 11:43

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Varla hægt að kalla þessi skoðanaskipti deilur! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 28.5.2013 kl. 12:30

7 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sammála Sigurður, ég var alls ekki að deila við þig.  Meira að setja út á fyrirsögn blaðsins.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.5.2013 kl. 14:19

8 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þakklætið það var að vonum
vægðar mér ég núna bið
Fyrir að kenna copy honum
því karlinn fyrtist bara við

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.5.2013 kl. 14:34

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Laxdals ljóðin fínu
löngum kæta vel.
Sem ég meður mínu
Moggann bæta tel.

Sæmundur Bjarnason, 28.5.2013 kl. 15:06

10 identicon

Mikið leggur Mundi á

sem maddömu sig að sjá

að Vigdísi konu vilji sá

víkja sinni sjónu frá. 

Pétur Örn Björnsson 28.5.2013 kl. 16:44

11 identicon

Tekið skal fram að vísan mín litla hér að ofan er einungis til orðin sem vísan til lokaorðanna í pistli Sæmundar og því ber ekki endilega að túlka hana sem mitt viðhorf til málsins :-) ...:

"Fyrst þegar ég heyrði að Eygló væri eina framsóknarkonan sem ætti að verða ráðherra og að Framsóknarflokkurinn ætti að hafa einum ráðherra færri en Sjálfstæðisflokkurinn hugsaði ég á þá leið að mikið legði Sigmundur á sig til að losna við að þurfa að gera Vigdísi að ráðherra. En það var bara ég."

Pétur Örn Björnsson 28.5.2013 kl. 18:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband