29.4.2013 | 14:46
1952 - Fimm prósent
Undarleg sú vitleysa sem er í gangi um 5% vegginn. Áður og fyrr var það svo að flokkar fengu allsekki uppbótarþingmann ef þeir fengu engan kjördæmakjörinn þingmann. Þessu var svo breytt þannig að það væri ekki lengur nauðsynlegt. Þá var það mark sett að ekki mætti sá flokkur sem einungis fengi uppbótarþingmenn fá minna en 5% atkvæða. Auðvitað væri vel hægt að hafa þetta mark miklu lægra, eða jafnvel hærra. Nú eða hafa allsekkert slíkt ákvæði. Það breytir því ekki að upphaflega var þetta sett á til að auðvelda litlum flokkum að komast á þing. Í seinni tíð hefur þetta þó óhjákvæmilega virkað þannig að það hefur verið litlum flokkum (sem þó bjóða fram í öllum kjördæmum) markmið að komast yfir þennan fimm prósent múr. Þó sumum kunni að finnast það einkennilegt var þetta ákvæði upphaflega allsekki sett til verndar fjórflokknum. Frekar í þágu smáflokkanna og einsmálsflokkanna.
Já, sennilega má telja mig nokkuð nýjungagjarnan í pólitískum efnum. Að sjálfsögðu er ég ánægður með að Píratar skuli hafa komið mönnum á alþingi og eigna mér jafnvel svolítinn þátt í þeim sigri. Vakti eftir tölunum héðan úr Suðvesturkjördæmi sem komu þeim endanlega inn. Þær komu loksins rétt fyrir sjö og voru ekki að öllu leyti óvæntar.
Misvægi atkvæða er alltof mikið á landinu. Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá er leyfilegt að það sé tvöfalt. Um það bil þannig er það líka og mun halda áfram að verða. Það er vegna þess að ástæðulaust er að ætla að ástandið í búsetubreytingum snúi skyndilega við. Engin ástæða er til að hafa það leyfilega bil hærra en svona 1,3 til 1,5. (Nei, það er nú eiginlega í hærra lagi.) Jafnvægi í byggð landsins, byggðastofnun, byggðakvóti og strandveiðar eru allt saman smádúsur sem hent er í landsbyggðarlýðinn svo hann sé til friðs.
Man að ég horfði á myndband frá Selfossi af nauðungarsölu á húsi einu þar í bæ rétt fyrir kosningar. Man líka að ég hugsaði einkum um tvennt meðan ég horfði á myndbandið. Í fyrsta lagi: Er þjóðfélag okkar virkilega orðið þannig að svona lagað þyki sjálfsagt og eðlilegt? Hinsvegar hugsaði ég einnig eitthvað á þessa leið: Kosningabaráttan hjá okkur er komin á nýtt og alvarlegt stig ef svonalagað er hiklaust sett á svið. Sem betur fer var hvorugt rétt hjá mér. Þarna var um algjörlega einstakan atburð að ræða og kosningakeimurinn af þessu var algjör tilviljun.
Menn eru talsvert í því að útskýra niðurstöðu kosninganna. Fyrir mér eru þær bara ein af staðreyndum lífsins. Nauðsynlegt er að lifa með þeim. Sú ríkisstjórn sem kemst á koppinn fljótlega verður hvorki betri né verri en þær sem áður hafa setið. A.m.k. ekki fyrst í stað. Svo má fara að velta einhverju fyrir sér. En sumarið er alveg að koma svo það tekur því eiginlega ekki. Best væri auðvitað að hafa enga ríkisstjórn sem allra lengst, en það er víst ekki í boði.
Var að enda við að lesa mánudagspistil Guðmundar Andra. Hann þykist vera Samfylkingarmaður og mig minnir að pistillinn hafi allur verið um kosningarnar. Man samt ekkert af honum. Hann ýtir þó á rétta takka og hefur sjálfsagt áhrif, en mér finnst það samt ekki skipta miklu máli hvað hann segir. Hann er bara að skrifa á sjálfstýringunni og velta því fyrir sér hvað hann geti fengið mikið fyrirframgreitt fyrir næstu bók. Núna þegar bráðum verður hætt að prenta bækur og látið nægja að gefa þær út á netinu eins og píratarnir boða.
Hvurslags stéttarfélag er það?
Athugasemdir
5% þröskuldurinn er tvöfalt hærri en þröskuldurinn í Danmörku og sá langhæsti á Norðurlöndum. Hann er alls ekki til hagsbóta fyrir minni framboðin heldur þveröfugt eins og glögglega sást í kosningunum.
Með honum er verið að setja steina í götu framboða, sem ættu að fá þingmenn á landsvísu og einnig verið að setja steina í gögu framboða, sem eiga mest fylgi í kjördæmunum á höfuðborgarsvæðinu.
Ef Reykjavík hefði verið eitt kjördæmi árið 2007, hefði Íslandshreyfingin fengið þingmann í því, en vegna fáránlegrar og einstæðrar skiptingar sveitarfélags í tvennt var komið í veg fyrir það.
Ómar Ragnarsson, 30.4.2013 kl. 00:30
Já, Ómar. Ég er alveg sammála þér um að 5% þröskuldurinn er svona. Ég var bara að tala um hvernig hann var upphaflega.
Sæmundur Bjarnason, 30.4.2013 kl. 01:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.