19.3.2013 | 14:54
1914 - Sáttin mikla
Þrennt er það núorðið sem segja má að einkenni mitt blogg. Fyrst er að nefna númeringuna. Á því má t.d. þekkja það á blogg-gáttinni og er áreiðanlega gert. Í öðru lagi er yfirleitt a.m.k. ein mynd sem fylgir hverju bloggi frá mér. Sú mynd er reyndar ekki í neinu samræmi við efni bloggsins en ég er bara búinn að venja mig á þetta. Oftast eru myndirnar mjög nýlegar. Í þriðja lagi er lengdin. Bloggin mín eru oftast nokkurn vegin jafnlöng nútildags og fjallað er um hitt og þetta, aðallega þó hitt. Það er ekki mjög interessant að fjalla um þetta svo ég er að hugsa um að reyna að finna eitthvað nýtt.
Sú vitleysa sem flestir gera í sambandi við blogg er að reyna að láta þau líkjast blaðagrein. Það er ekki rétt, því eðli þeirra er allt annað. Pláss er fyrir allt í bloggi, en málalengingar finnst mér vera með öllu óþarfar þar. Fésbókin kemur í staðinn fyrir óformlegt spjall þar sem aðeins er sögð ein setning í einu. Margir kunna vel við það, en mér finnst það vera eins og kaffispjall eða símtal þar sem allir (eða sumir) mega hlusta á. Dálítið líkt sveitasímanum í gamla daga. Hentar mér bara ekki. Er gamall besservisser, sem einu sinni þóttist vita allt.
Samskipti fólks hafa breyst verulega með útbreiðslu internetsins. Stjórnmálamenn og ráðamenn flestir virðast alls ekki hafa gert sér grein fyrir þessu. Afleiðingin nú verður sú að Píratarnir munu ná fótfestu á alþingi og ekki láta hana af hendi. Meirihluta munu þeir þó allsekki ná og fjórflokkurinn (hugsanlega með útibúinu Bjartri framtíð) mun mynda ríkisstjórn landsins. (Hvernig veit ég ekki.) Lýðræðisvaktin svonefnda mun hugsanlega einnig fá mann (eða menn) kjörna á alþing í vor en þeir munu ekki taka þátt í stjórn landsins.
Mjög er nú rætt um fiffin Framsóknar. Víst eru þau skrýtin sum og minna á burtköllun eiturlyfja og 90 eða 100 prósent húsnæðislán. Sjálfum er mér efst í huga mynd af Halldóri (sennilega úr spaugstofunni) þar sem hann kemur til Davíðs og segir: Össur segir að ég geti vel fengið að vera forsætis ef ég verð með honum. Davíð: Nú, jæja. Við getum svosem verið forsætis til skiptis. Ég skal bara leyfa þér að vera forsætis seinni hluta kjörtímabilsins. Hvað segirðu um það? Halldór (allshugar feginn) Jú, mér líst bara vel á það. Það er miklu skemmtilegra að vera með þér. Og svo borgar þú líka betur. Það er eitthvað svo leiðinlegt að vera með Össuri eftir að ég kom Steingrími frá.
En ef þessi fiff duga til að auka fylgið umtalsvert þá eru þau fullgild í mínum huga og ekkert verri en önnur. Séu menn eitthvað að fjargviðrast útaf þessum fiffum geta þeir bara notað eitthvað álíka sjálfir.
Ég er nú búinn að pólitískast svo mikið á þessu bloggi mínu að ég verð eiginlega að upplýsa hvað mér finnst koma helst til greina að kjósa. Já, ég er í alvöru að hugsa um að kjósa Píratana. Það kann þó að breytast þegar fleiri kurl koma til grafar, en þetta er það sem mér er efst í huga akkúrat núna.
Mikið er rætt um sátt þessa dagana. Var sátt um Kárahnjúka? Var sátt um bankagjöfina? Var sátt um að fara í stríð við Írak? Ekki held ég að það hafi verið. Hinsvegar kann alveg að vera að Davíð og Halldór hafi verið síðustu mennirnir sem höfðu algera stjórn á þingmönnum sinna flokka. Ekki er víst að þeir tímar komi nokkurntíma aftur. Kannski skildi þremenningaklíkan (Katrín, Árni Páll og Guðmundur) það ekki og hélt að framsókn og sjallar mundu koma hlaupandi ef svolítið væri slakað á klónni.
Athugasemdir
Er ekki sammála þér um blogg versus fésbók. Blogg er sérhæfðara og ekki eins aðgengilegt og Smetta. Eftir að ég komst upp á lagið með hana hef ég ekki nennt að standa í bloggveseni og hef líka fylgst miklu minna með öðrum sem enn eru að blogga. Helst að ég sjái til þín og Ómars þegar þið skjótið bloggörvum út á Smettu.
Sigurður Hreiðar, 19.3.2013 kl. 15:06
Þetta blogg þitt Sæmundur minnir dálítið á útvarpsþættina gömlu um daginn og veginn.
Emil Hannes Valgeirsson, 19.3.2013 kl. 15:54
Já, Sigurður bloggvesenið þarf ekkert að vera mikið. Aðgengileika fésbókar neita ég ekki, en það er alltaf verið að breyta henni og það er sennilega ágætt að halda sambandi við fáeina með henni ef maður vill. Bloggörvarnar er ágætis orð. Hugsa að það sé ágætt að skjóta þeim.
Sæmundur Bjarnason, 19.3.2013 kl. 21:02
Emil Hannes, það er ekki leiðum að líkjast. Man vel eftir þeim þáttum.
Sæmundur Bjarnason, 19.3.2013 kl. 21:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.