15.3.2013 | 07:53
1910 - Vikan
Já, ég er þeirrar skoðunar að samþykkja eigi stjórnarskrána eins og frumvarpið er núna og setja með því pressu á næsta þing um að gera það sama. Það getur vel verið að nýtilegar greinar séu í þeirri gömlu, en það er alveg ástæðulaus íhaldssemi að halda dauðahaldi í hana bara vegna þess að hugsanlegt sé að sú nýja sé að einhverju leyti gölluð. Sé ekki tekin áhætta er ekkert hægt að vinna. Í mesta lagi er hægt að forðast eitthvað.
Held að ég sleppi því alveg að reyna að koma bloggi upp á morgun, föstudag. Snemma morguns ætti það þó að vera hægt. Kannski dregst það samt eitthvað framá föstudagsmorguninn að ég sendi þetta út í etherinn. (Ljósvaki heitir það víst á íslensku einu sinni héldu menn að ljósið gæti ekki ferðast nema eitthvert efni bæri það áfram eins og hljóðið.) Samt eru föstudagarnir oft bestu dagarnir, bæði fyrir blogg og annað. Ætti ég að gera upp á milli daga yrði vinsældaröðin einhvern vegin svona: Föstudagur, laugardagur, sunnudagur, fimmtudagur, miðvikudagur, þriðjudagur og mánudagur. Samt er það nú svo að á rúmhelgu dögunum (er það orðalag nokkuð dautt?) gerast hlutirnir. Helgarnar eru frekar stund milli stríða. Föstudagurinn bestur vegna þess að þá er öll helgin framundan.
Birtan er óðum að aukast og vorið nálgast hröðum skrefum. Vona að páskahretið, sem hlýtur að koma, verði ekki alvarlegt. Súpa (og kannski eitthvað fleira) verður hjá Bjössa á föstudaginn langa og veðrið má ekki vera of slæmt ef við eigum að komast í hana. Svo fæ ég væntanlega að vita bráðum hvort ég fæ sumarbústaðinn í ágúst sem ég sótti um hjá Eflingu. Hef aldrei skipt við það félag áður.
Bloggin hans Ármanns Jakobssonar eru að verða uppáhaldið hjá mér. Sum eru samt óttalega áreysluleg en önnur alveg feikilega góð. Jens Guð er líka góður. Sömuleiðis Jónas Kristjánsson þó því fari fjarri að ég sé alltaf sammála honum. Margt annað fyrir utan valdar fréttir er ástæða til að lesa en ef ég á að halda þessu sífelldu skrifum áfram dugir ekki að lesa of mikið. Það er greinilega auðvelt að ánetjast netinu. Er þetta kannski tátólógía að tala um að ánetjast netinu?
Ég finn fyrir því að mér veitti ekki af að skrifa eitthvað fleira en þetta árans blogg. Vissulega skrifa ég stundum annað, en það er þá aðallega fyrir sjálfan mig og ekki markvert. Skrifnáttúra mín er óðum að aukast. Ekki vil ég gera blogg þessi of löng. Auðvelt væri það þó, því nú er ég búinn að fá æfingu í endalausum skrifum. Er t.d. búinn að sjá það að til þess að lesa langar greinar (svo ég tali nú ekki um bækur) þurfa þær að vera um áhugavert efni. Það er engin von til þess að aðrir hafi sömu áhugamál og ég og með því að skrifa eins og ég geri, um hitt og þetta fer ekki hjá því að sumt er óáhugavert fyrir marga.
Mér gengur alveg furðanlega að hrista stjórnmálin af mér. Það er svo margt annað til í veröldinni að ekki dugir að eyða ótakmörkuðum tíma í þetta vesen. Auðvitað er áhugavert að fylgjast með pólitíkinni. Ég held að áhugi fólks á þessu fyrirbrigði hafi aukist mikið með Hruninu. Það er nú samt búið að fjasa svo mikið um þessa blessaða útrásarvíkinga að ég er orðinn hundleiður á því. Man eftir kynningu á Bifröst þar sem flugfélagið Hundleiðir var kynnt. En það er nú önnur saga.
Auðvitað sætta blessuð börnin sig bærilega við stríðsástand og hvers kyns óáran því þau þekkja ekkert annað. Samt er meðferðin á þeim, þó hún líti sæmilega úr á yfirborðinu, hreinasta nauðgun, og engar líkur fyrir þau að fá nokkurntíma að upplifa að sem við köllum eðlilega bernsku. Það er alls ekki nema eðlilegt að hjálparstarfsmenn líti fyrst til þeirra. Samt er fullorðna fólkinu líka vorkunn. Þau eru flest saklaus og þó þau hafi neyðst til að styðja rangan aðila, er með engu móti hægt að lá þeim það. Veit vel að þessi klausa er fremur illa komin innan um allan hálfkæringinn í þessu bloggi. En svona er þetta bara. Það er ekki hægt að vera góður og uppörvandi alltaf.
Athugasemdir
Sammála. Höfum stjórnarskrána eins og hún er núna. Þurfum ekkert að samþykkja hana. Löngu búin.
Óskar Jónsson 15.3.2013 kl. 08:47
Er stjórnarskráin löngu búin? Búin að hverju? Skil þig bara ekki.
Sæmundur Bjarnason, 15.3.2013 kl. 11:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.