1797 - Þjóðremba

Auðvitað getur mikilmennskubrjálæði (eins og t.d. þjóðremba.) stafað af minnimáttarkennd í rauninni. Sjúkdómseinkenni sýnast oft ganga alveg í þveröfuga átt við það sem eðlilegast væri. Gagnvart þessu þarf að vera á verði. Það getur t.d. vel verið að Vala Matt sé að hugsa um eitthvað ægilega sorglegt þegar hún hlær sem mest. Hláturinn hjá Hemma Gunn er mun þvingaðri og kannski er hann alveg að verða búinn með skammtinn sinn.

Satt að segja hef ég svolítið álit á Stefáni Pálssyni sem sagnfræðingi. Veit samt ekki nema hann verði pólitíkinni að bráð á endanum því hann er stöðugt að sniglast í kringum Vinstri græna og friðarsamtök hverskonar. Þingmenn njóta bara ekki trausts þjóðarinnar. Þetta mun koma vel í ljós í næstu þingkosningum. Möntruna um getuleysi fjórflokksins til allra hluta er búið að þylja svo oft að undanförnu að meira að segja sjálfstæðismenn eru farnir að trúa henni og virðast halda að innan flokksins sé hægt að finna nýtilega þingmenn. Í rauninni eru frambjóðendur flokksins flestir hundóánægðir með forystu hans, en virðast ætla að sætta sig við hana. Kannski missir stjórn flokksins allt taumhald á þingmönnunum eins og Steingrímur virðist hafa gert.

Eiginlega er það fullt starf að fylgjast með helstu nýjungum á netinu, enda er ég löngu hættur því. Ég geri ótrúlega oft einhverjar vitleysur þegar ég er að skrá mig á einhvern skollann og þá fer vafrinn eða forritið í fýlu og vill ekki viðurkenna mig og segir bara að ég sé skráður og vill ekki skrá mig aftur. Svo endar þetta náttúrlega með því að ég fer sjálfur í fýlu og forðast allt sem líkist því sem ég var að reyna.

Íslenskar bækur eða bækur um Ísland (á ensku þó flestar) eru orðnar gríðarlega margar á Amazon. Rafbækurnar einar (þ.e. bækur sem bregðast við leitarorðinu Iceland í kyndlinum) eru orðnar a.m.k. vel á þriðja hundraðið og þýðingarlaust að reyna að safna þeim öllum. Vandalaust og ódýrt er líka að gefa út rafbækur fyrir hvern sem er. Bókasöfnun mun sennilega aldrei bera sitt barr aftur eftir tilkomu rafbókanna því það er svo erfitt að sýna þær. Sumar þessara bóka eiga varla skilið að kallast bækur. Eina rakst ég á sem ekki var nema fjórar blaðsíður og kynningin á henni er tæp blaðsíða.

IMG 1753Laufblöð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kormákur Bragason tónlistarmaður er maður sem þjóðin á standa fast á bak við. Býður sig fram í prófkjöri allra fjórflokkana í Kraganum. Maður með reynslu.

Bjarni Hjartarson 4.11.2012 kl. 06:55

2 identicon

Já, fjórflokkur, persónukjör, nýir flokkar. Fólk virðist vera þreytt á flokkunum. Einhvernveginn finnst mér að flokkar séu og verði hvorki betri né verri en kjósendur. Það, að einhver flokkur komi fólki á þing, merkir væntanlega að einhverjir eru nógu hlynntir stefnumálum þess flokks til að vera tilbúnir til að veita þeim brautargengi með því að kjósa þá. Svo gæti manni dottið í hug, að þátttaka fólks í innra starfi hvers flokks, hvað sem hann annars heitir, sé grundvöllur þess að áhugamál og hugsjónir þess komist á stefnuskrá hans eða þeirra. Þar grunar mig að pottur sé brotinn hér á landi, þ.e. að fólk tuði á fésbók og bloggi í stað þess að taka þátt í starfi þess flokks, sem best fellur að skoðunum viðkomandi og reyna að hafa áhrif með því að leggjast á árina með þeim hópum, sem hafa sömu eða svipaðar skoðanir og viðhorf til þjóðmála.

Ellismellur 4.11.2012 kl. 18:22

3 identicon

Ég gafst upp á þessu hlátursbulli í Hemma og Völu, ÓMæGawd, hrikalegt alveg :)

DoctorE 4.11.2012 kl. 19:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband