1755 - Ýkjur fjölmiðla

Mér finnst óþægilega algengt að fjölmiðlar ýki stórlega slysafréttir og hugsanlega líka aðrar. Nýjasta dæmið er um árásina á litla drenginn í Breiðholti. Ég þekki ekkert til málsins en fékk strax á tilfinninguna að meira væri gert úr málinu en eðlilegt væri og ekki meira um það.

Persónuníð allskonar er mjög fyrirferðarmikið á fésbókinni. Samt er margt mjög gott þar og ómetanlegt að geta fylgst með málum næstum jafnóðum og þau gerast. Öllu sem skrifað er þar ber þó að taka með vissri varúð. Ekki trúi ég að fólk sé viljandi að ljúga þar eða gera alltof mikið úr hlutunum. Hver og einn horfir bara á málin frá sínum sjónarhóli og sá hóll kann að vera mjög ólíkur öðrum.

Nú eru Kögunarmál Gunnlaugs fyrrverandi þingmanns komin í fréttirnar enn einu sinni. Enn heldur hann því fram að hann sé saklaus þó allir viti að svo er alls ekki. Framsókn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar lagði mikla áherslu á það á sínum tíma að svæfa þetta mál eins og flestir hljóta að muna því þetta var mjög til umfjöllunar í fjölmiðlum á sínum tíma. Þetta er örugglega eitt af þeim málum sem tryggt hafa slæmt gengi Framsóknarflokksins undanfarna áratugi.

Lög segja beinlínis að hygla skuli konum í tilfelli einsog með sýslumanninn á Húsavík. Mér finnst að Ögmundur hefði átt að ráða hana ef karlmaðurinn og konan voru jafnsett. Hef ekki heyrt því haldið fram af öðrum en Ögmundi að karlmaðurinn hafi verið hæfari. Lagasetning á Alþingi á ekki að vera af því bara og ráðherrum að líðast að virða lögin einskis ef þeim sýnist svo.

Orðskviðir og allskyns spakmæli (einkum í myndformi) virðast eiga sérlega greiða leið inná fésbókina (a.m.k. hjá mínum fésbókarvinum – sem reyndar eru alltof margir). Mér leiðist það svolítið því það tekur svo mikið pláss. Linkar á svona spakmælasöfn væru mun heppilegri. Tilvísanir í athyglisverðar fréttir og greinar finnst mér hinsvegar fengur að fá. Auðvitað veit ég vel að ekki hugsa allir eins. Fésbókin getur ekki fremur en aðrir vefir verið öllum sínum áskrifendum allt. Þeir sem deila þessari mynd fara tvisvar í pottinn. Gallinn er bara sá að ég fer aldrei í pottinn.

Þegar ég er að skammast út í fésbókina dettur mér oft í hug spakmælið: „Það er tungunni tamast sem er hjartanu kærast.“

Verst hvað ég skil fésbókina illa. Mér finnst stefnan vera sú að gera fólki fært að gera sem flest á fésbókinni fremur en að skilja af hverju það gerist. Ég hugsa bara þveröfugt við flesta aðra, held ég. Mér finnst ekkert gaman að gera hluti á netinu án þess að skilja nokkuð vel af hverju tölvurnar haga sér eins og þær gera. 

IMG 1484Fornleifarannsókn á vegum alþingis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband