24.8.2012 | 13:09
1746 - Okur
Einu sinni var bannað að okra. Nú þykir það fínt. Kallast smálán. Helvítin vilja nefnilega ekki hætta of miklu. Fyrir kreppu hétu það stórlán, eða mikið lán. Okrari einn í fyrndinni tók 9 prósent ársvexti. Það þótti andskoti mikið, enda bannað. Okraragreyið reyndi að verja sig með því að hann hefði reiknað með að Guð Almáttugur héldi kannski að þetta væru bara 6 prósent, svona ofanfrá séð.
Hér er frásögn af vísum sem urðu til Ölfusinu. Hef áreiðanlega sagt frá þeim áður. En sjaldan er góð vísa of oft kveðin.
Í Ölfusá, sem rennur gegnt Arnarbæli, var klettur sem Arnarsetur kallaðist.
Einhvertíma fyrr á öldum var prestur nokkur í Arnarbæli og fjósastrákur einn starfandi þar einnig. Prestinum líkaði ekki allskostar við strákinn og kvað:
Drengur minn þú deyrð í vetur
dettur fyrir Arnarsetur.
Kríuskítur og kamrafretur.
Kveddu á móti ef þú getur.
Piltur var ekki seinn til svars og sagði:
Þú er prestur sómasæll
syngur hátt í messu.
En vesalmenni og vinnuþræll
verðurðu upp frá þessu.
Auðvitað rættist þetta allt saman eins og í öllum góðum sögum.
Spurning: Af hverju þurfa vextirnir hjá smálánafyrirtækjunum að vera svona háir?
Svar: Það eru svo margir sem drepast áður en hægt er rukka þá að fullu.
Spurning: Af hverju eru smálánafyrirtækin svona mörg?
Svar: Af því að við eigum svo mikið af peningum sem við þurfum að koma í vinnu.
Spurning: Fá þeir ekki atvinnuleysisbætur?
Svar: Nei, ekki nema með svindli.
Spurning: Getið þið þá ekki svindlað?
Svar: Svoleiðis svindl gefur svo lítið í aðra hönd.
Spurning: Getið þið samt ekki látið ykkur nægja það?
Svar: Og þegar upp um okkur kemst, hvað eigum við þá að gera?
Spurning: Nú ertu að snúa hlutunum við. Það er ég sem á að spyrja.
Svar: Nú, er það? Fyrirgefðu.
Spurning: Hvað gerið þið svo við alla peningana sem þið fáið?
Svar: Látum þá strax í vinnu.
Spurning: Með því að stofna fleiri smálánafyrirtæki?
Svar: Einmitt.
Spurning: Grunaði ekki Gvend. Má þá ekki bara endurtaka þetta viðtal eftir þörfum?
Svar: Jú, jú.
Goto top of interview. (Það er eiginlega bara tölvan sem má sjá þetta.)
Hvað er svona merkilegt við berrassaðan prins? Er það ekki bara berrassaður prins? Jafnvel bara berrassaður Harry. Mér finnst lætin útaf þessu prinsmáli taka alltof mikið pláss. Má hann bara ekki bara striplast í friði. Flestir aðrir fá það.
Frank Brady skrifaði ævisögu Róberts Fischer sem út kom fyrir skömmu. Sú saga er um margt fjálgleg mjög. Mörg minniháttar atriði koma þar fram. Atriði sem maður vissi ekki um fyrirfram. Man að ég missti samt mikið til trúna á höfundinum þegar hann gat ekki einu sinni haft einföldustu atriði rétt í sambandi við hingaðkomu Fischers frá Japan. Kannski er það besta í sambandi við höfundinn að hann skuli bera nafn sem auðvelt er að muna.
Maður fórnar yfirleitt ekki manni í skák nema maður sjái mögleika sem andstæðingurinn hefur e.t.v. ekki komið auga á eða til að koma fleiri mönnum í aksjónina sem skapast við fórnina. Þetta þema kemur oft upp þegar kóngurinn er kominn í skjól á bakvið þrjú peð og menn hans uppteknir við annað.
Nú eru u.þ.b. tvö ár síðan Svanur Gísli skrifaði pistil sem hann nefndi: Nígeríusvindlið hans DoctorE og fékk að launum óhæfilega langan svarhala. Einn af þeim allra lengstu sem ég hef séð. Byrjaði að lesa ósköpin áðan en gafst upp. (Er búinn að gleyma af hverju ég byrjaði á því.) Samt er þar margt merkilegt. Mofi var samt ósýnilegur. Ekki sá ég hann a.m.k. Að DoctorE skuli lesa bloggið mitt reglulega (að því er virðist) finnst mér talsverð upphefð. Einu sinni (eftir að hann var rekinn af Moggablogginu) skoðaði ég oft netsetrið hans en gafst upp á því vegna þess að það var svolítið einhæft.
Árni Páll sér sig líklega sem einhverskonar eftirmann Jóhönnu Sig. Ekki ég. Kannski er bara best fyrir Jóhönnu að halda áfram enn um sinn.
Ruslatunna skreytt í tilefni dagsins. Hvaða dags?
Athugasemdir
Bloggið mitt hér á mbl var reyndar mjög fjölbreytt, ég póstaði aragrúa af videóum um vísindi.. og náttlega um trúleysi/trúarbrögð.. og fullt af myndum af kisulingum :)
Faktískt eru flest önnur blogg hér á mbl mun einhæfari en mitt var.. per se, svona ef menn hugsa málið sm
Mér finnst alveg ágætt að kikka á bloggið þitt Sæmi, gott ef það er ekki afslappandi :)
DoctorE 24.8.2012 kl. 13:56
Ég átti nú við bloggsetrið sem þú fórst á eftir að þú varst rekinn af Moggablogginu. Það var mestmegnis youtube-myndbönd og þ.h. minnir mig.
Sæmundur Bjarnason, 24.8.2012 kl. 14:27
Já og þú getur ímyndað þér að þú hafir skotið að mér ýmsum hugmyndum um Gudda og Sússa! Þetta með ormana er ég ekki alveg búinn að meðtaka. Hugmyndir þínar eru dálítið einstrengingslegar. Ég er ekki á því að þú sért búinn að höndla hinn eilífla sannleika þar, sem ekki er hægt að hnekkja.
Sæmundur Bjarnason, 26.8.2012 kl. 02:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.