1747 - Fréttaskrif til sölu

Það er með öllu úrelt að selja fréttaskrif. Þetta reyna samt bæði Mogginn og DV. Fyrir mér er það ekki til sem ekki kemst á netið. Skribentarnir hjá Mogga og DV geta skrifað sig gula í framan, en ég mun ekki fá svo mikinn áhuga á ritræpunni úr þeim að ég borgi peninga fyrir hana. Fésbókin er kannski ósköp þunn en hún er þó ókeypis. Fréttablaðið og fréttatíminn líka. Bókasöfnin sömuleiðis. (Þegar maður er kominn á aldur). Auðvitað er maður að borga óbeint fyrir skrifin með því að horfa á auglýsingarnar sem reknar eru framan í mann, en einhvern vegin er betra að sætta sig við það. Ég veit að útgáfa og sala dagblaða er alþjóðlegt vandamál og að í litlu málsamfélagi eins og því íslenska er þetta erfitt en það eru til lausnir á því samt.

Svipað er að segja um bækur. Íslenskar rafbækur eru óhóflega dýrar miðað við útlendar og með því að hafa þær svona dýrar er unnið skemmdarverk á íslenskri tungu. Unnið að því að þeir sem mögulega geta það, lesi fremur „útlensku“ en íslensku. Útgefendur sem unna íslenskri tungu raunverulega ættu að vinna gegn þessu. Íslenskir útgefendur gera líka upp á milli framleiðenda lesbretta og spjaldtölva og rökstyðja þá ákvörðun aumingjalega að mér skilst.

Harpa Hreinsdóttir hefur bloggað um þetta og ef menn vilja kynna sér þetta efni nánar er hægt að fara á síðuna hennar frá nafninu hennar hér til vinstri. Þar að auki hlýtur að vera hægt að fræðast um þetta á íslensku rafbókavefsetrunum sem eru orðin nokkuð mörg.

Þessi klausa er af mbl.is í dag 24. ágúst 2012:

Lögregla höfuðborgarsvæðisins var kölluð að Reykjavíkurflugvelli fyrir hádegi í dag vegna farþega um borð í flugvél sem lét ófriðlega.

Auðvitað er það líklegra að farþeginn hafi látið ófriðlega en að flugvélin hafi verið með einhver læti. Þetta er samt klaufalega orðað. Óvandað orðalag er of algengt á vefmiðlunum. Mest er samt kvartað undan beinum staðreyndavillum en þær eru oft leiðréttar. Geri ekki ráð fyrir að þetta verði leiðrétt eða hafi verið það.

Tryggvi Þór hefur í asnaskap sínum fengið andstæðingum sínum öflugt vopn í hendurnar með því að ráðast á krakkagreyin í Útey en standa sjálfur fyrir slíku hér heima. Kannski er vinnumennsku hans hjá Sjálfstæðisflokknum um það bil að ljúka. Þeir hafa æfingu í því að láta menn hverfa.

IMG 1366Sveppasúpa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband