1686 - Náðarvald

x20Gamla myndin.
Háskólabíó. Sennilega nýbyggt.

Mikil dásemd er að vera orðinn svo gamall að maður geti eiginlega ekkert unnið. Verst að sú dýrð getur víst, eðli málsins samkvæmt, ekki staðið endalaust. Þegar maður var yngri hlakkaði maður mest til þess að geta sofið út á hverjum morgni þegar maður væri orðinn löggilt gamalmenni. Slík bælislega varð fljótlega leiðigjörn og lítið varið í hana. Freistingin er fremur að fara snemma að sofa og snemma á fætur. Allt verður seinlegra með aldrinum og það sem áður var lítið mál getur allt í einu orðið óyfirstíganlegt eða tímafrekt með afbrigðum.

Ég finn það t.d. alveg sjálfur að göngulagið er orðið miklu hægara og ómarkvissara en áður var. Stundum finnst mér ég jafnvel vera að því kominn að detta en aldrei hefur samt orðið úr því. Heilmikið puð er líka að fara í sokka og reima á sig skó.

Nú er ég samt búinn að æfa mig heilmikið í að skrifa blogg og þó ég segi sjálfur frá er ég bara orðinn nokkuð sleipur í því. A.m.k. eru þónokkrir sem fylgjast með þessum skrifum mínum og er ég auðvitað þakklátur fyrir það.

Fólk virðist enn vera með hugann við misheppnaða tilraun Stöðvar 2 til kappræðna en ég held að margt merkilegra sé á seyði í heiminum í dag. Jafnvel forsetakosningarnar sjálfar. Hugsanlega hefur fyrirbrigðið á Stöð 2 í gær (sunnudag) einhver áhrif á þær. Margt fleira gæti þó átt eftir að gerast í undirbúningi þeirra. Óþarfi er samt að láta það glepja sig í að njóta góða veðursins. Svona eindregin blíða er ekki algeng á Íslandi.

Eftir á séð er nokkuð ljóst að hvert þeirra þriggja sem eftir voru í kappræðunum hefði getað gert endanlega útaf við þennan þátt (og hugsanlega Stöð 2 með öllu) ef vilji hefði staðið til þess. Hversvegna vildi ekkert þeirra það? Því finnst mér þurfa að svara.

Rætt er um að þrennskonar vald sé til. Hefðarvald, regluvald og náðarvald (sjá grein Guðmundar Andra Thorssonar: http://www.visir.is/valid-vald/article/2012706049995 ) Hafi ÓRG einhverntíma haft náðarvald er hann búinn að fyrirgera því núna. Hinsvegar er enginn vafi á því að Vigdís Finnbogadóttir hafði þetta vald og reyndar Kristján Eldjárn líka. Kannski eru kosningarnar 30. júní n.k. einkum um það hverskonar vald við viljum að forsetaembættið hafi.

Sóleyjar hafa nú tekið yfir við að leggja til gula litinn í náttúruna,
en fíflarnir eru flestir orðnir að biðukollum.
Lúpínan sér um bláa litinn.

IMG 8352Lúxusbíll.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Góð og skemmtileg færsla.

hilmar jónsson, 5.6.2012 kl. 00:15

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk.

Sæmundur Bjarnason, 5.6.2012 kl. 09:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband