18.3.2012 | 08:52
1638 - Kalló
Næstu 16 myndir eru allar frá Bifröst. Sumar hefur Kristján Óli Hjaltason örugglega tekið.
Gamla myndin.
Ágústa Þorkelsdóttir. (held ég) Sjaldgæft á þessum tíma að stúlkur reyktu pípu. Svotil allir reyktu þó og svældu en auðvitað var ódýrara að fá eitrið úr píputóbaki.
Af hverju skyldi maður vera að þessu sífellda bloggi? Er það ekki bara einhver bilun? Heldur maður virkilega að aðrir hafi áhuga á þessu bulli? Tvennt þarf til svo maður nenni að lesa eitthvað. Það finnst mér allavega. Maður þarf að hafa einhvern snefil af áhuga á því sem verið er að skrifa um og það sem maður les þarf að vera sæmilega skrifað. Því miður eru ekki nærri öll blogg, greinar eða bækur nægilega vel skrifuð fyrir mig. Ég reyni sjálfur að skrifa þannig að sem flestir nenni að lesa. Hvað áhugann varðar ræð ég engu. Reyni þó að fitja upp á sem fjölbreytilegustu efni. Tekst stundum að gera það áhugavert en alls ekki alltaf.
Kalli hét hundur. Eigandi hans var Ingimar Sigurðsson í Fagrahvammi. Hann var ættaður úr Geysisslysinu fræga 1950 og var sannkallaður úlfhundur. Stór og mikill. Eitt sinn var hann staddur á svölunum á nýja húsinu í Fagrahvammi og setti framfæturna uppá handriðið svo hann sæi eitthvað. Gelti mikið. Þegar hann hætti geltinu og fór með fæturna niður af handriðinu klappaði allt liðið úr skólanum sem af einhverjum ástæðum var samankomið til að hlusta á Kalló-ræðuna. Þá birtist hann aftur og gelti vel og lengi og fór síðan niður enn á ný. Þá var klappið endurtekið og aftur birtist Kalló. Þannig gekk lengi og ég man ekki hvernig ræðuhöldin enduðu.
Þó Sigmundi Davíð framsóknarformanni detti ýmislegt í hug varðandi framtíðargjaldmiðil Íslendinga held ég að honum hafi aldrei dottið í hug að mæla með því að Íslendingar taki upp sterlingspund, enda hljóta að vera einhver takmörk fyrir hugmyndafluginu á þeim bæ. Englendingar aftur á móti virðast sumir hverjir ennþá telja sterlingspundið alþjóðlega mikilvægan gjaldmiðil. Mér datt þetta í hug þegar ég las áðan pistil Egils Helgasonar um erlenda glæpaforingja sem sest hafa að í London.
Skelfing er maður, eða var, takmarkaður. Þegar í gamla daga var talað um Tarzan apabróður leit ég alltaf á það sem einskonar tignarheiti. Nú sé ég að það hefur líklega átt að vera lítilsvirðing fólgin í þessu viðurnefni. Þegar maður er ungur og skilingsvana þarf helst að tyggja allt ofan í mann. Ég hélt t.d. lengi vel að innfæddur og einfættur væri það sama. Sömuleiðis misskildi ég alltaf orðalagið hjá veðurstofunni um veðurhorfur til klukkan níu í fyrramálið. Hélt alltaf að útlitið mundi snöggbreytast þá.
Það er svolítið ósniðugt að hamast við henda myndunum sínum á fésbókina. Hún gerir þeim þó svolítið hærra undir höfði en skrifunum sem skruna bara í burtu og sjást aldrei meir. Myndirnar er hægt að hafa í möppum og skoða þær þar. Aðrir gera það líka ef þeir eru í skapi til þess eða þeim er bent á þær. Held mig samt við Moggabloggið því þar hef ég allan minn bloggaldur alið og myndirnar eru þarna og eins hægt að vísa á þær og aðrar. Skrifunum haldið til haga og menn tímalínulausir, er hægt að hugsa sér nokkuð betra. Muna bara eftir að minnka myndir sem maður setur á Moggabloggið. Maður þarf nefnilega enn að borga fyrir þá þjónustu að fá að hafa myndirnar sínar þar. Annars er ég alls ekki að væla yfir Moggablogginu. Það er að mörgu leyti ágætt
Um síðustu áramót voru liðin 22 ár síðan ég hætti að reykja. Hefur á ýmsum tímum síðan gengið það misjafnlega, notað pillur, plástra og tyggjó en hef hjálpartækalaust ekki smakkað nikótín í mörg ár. Koffeinið er samt eitur sem maður skilur ekki við sig. Efir að Senseovélin gafst upp hef ég reynt að venja mig á Euroshopper kaffiduft í glösum og það gengur bærilega. Hjálpar mér samt ekki að sofna á nóttinni. Held ég. Mætti samt alveg prófa það.
Eldspúandi dreki opnaði hurðina þegar ég kom í heimsókn til æskuvinkonu minnar. Hvurn fjandann er þú að vilja hér? spurði hann með röddu rámri af eldspúi. Á ég kannski að sprauta svolitlum eldi á þig og gefa þér trukk undir taglið? Nei,ég þarf bara að hitta hana Dísu og eiga við hana nokkur orð. Jæja,sagði drekinn ég þarf nú samt að fara með þér. Maður veit aldrei uppá hverju svona karakterar taka. Þetta var greinilega fulllöng setning fyrir hann án þess að geta spýtt eldi. Nú komu þrjár spýjur hver á efitr annarri. Það er best að ég fylgi þér í höllina og reyni að kveikja ekki í. Framhald í næsta hefti ef höllin brennur ekki.
Ég er að hamast við að láta mér detta eitthvað í hug til að skrifa um en það gengur hálfilla eftir að drekinn fór. Kannski hefði ég ekki átt að senda hann í framhaldið. Það getur vel orðið bið á því að svona skepnur komist í almennilegt blogg aftur. Ég get líka notað minni dýr og látið þau hafa þá hæfileika sem mér sýnist. Kannski fæ ég mér alvitran hrafn næst. Ég er orðinn hálfleiður á fyrirganginum í drekaræksninu.
Athugasemdir
Ég kynntist einnig Schäffer hundi úr Geysisslysinu.Var ansi duglegur að draga sleðann hjá okkur strákunum. Hundur þessi átti heima í býli, í Laugardalnum, þar sem nú er stúka Lagardalsvallar.
Ólafur Sveinsson 19.3.2012 kl. 22:26
Sæmundur, ég er búinn að fá það staðfest hjá Gústu að þessi mynd er af Berglind Bragadóttur.
Ellismellur 20.3.2012 kl. 10:49
Já, það er eflaust rétt hjá þér. Sennilega hef ég ekki tekið þessa mynd og hún var ekki bekkjarsystir mín.
Sæmundur Bjarnason, 20.3.2012 kl. 10:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.