20.2.2012 | 22:54
1617 - Elín Þorsteinsdóttir og Guðmundur Andri
Gamla myndin.
Frá Þingvöllum 1974.
Allt það sem á gengur núna um þessar mundir gæti þýtt að pólitísk stórtíðindi séu á næsta leiti. Ég á við Haarde-málið, Bjarna Ben-málið, forsetamálið og FME-málið og jafnvel fleiri. Iðnaðarsaltið og eitraði áburðurinn eru orðin smámál sem enginn nennir að sinna.
Fjármálahirðinum Gunnari (ekki í Krossinum) var sagt að taka pokann sinn. En hann tók bara vitlausan poka. Held að hann hafi tekið Geirspokann þó þungur væri.
Verð að viðurkenna að ég er svo vitlaus að ég skil ekki hvernig Lilja Mós. og fleiri ætla að fara að því að búa til 200 milljarða og láta þá hverfa strax án þess að nokkur verði var við það. Ég er víst orðinn of gamall til að skilja svona hókus pókus hagfræði.
Elín Þorsteinsdóttir, mamma Áslaugar, hefði orðið 100 ára í gær (sunnudag) hefði hún lifað. Man ennþá eftir þegar þau systkinin komu að máli við mig þegar Benedikt maðurinn hennar dó og báðu mig um að skrifa eftirmæli um hann því ég hefði skrifað svo fallega um Elínu. Þau sýndu mér úrklippu af minningargreininni sem ég hafði skrifað um hana og ég var alveg hissa á hvað hún var vel skrifuð. Auðvitað átti hún svo sannarlega skilið að fallega væri um hana skrifað, en ég hafði alls ekki þekkt hana lengi þegar hún dó. Reyndar eru minningargreinar síður en svo mitt fag og ég hef ekki skrifað þær margar um ævina.
Í tilefni dagsins fóru þau börn hennar sem búa hér í Reykjavík ásamt mökum sínum og fengu sér að borða á Aski. Maturinn þar var prýðilegur og vel útilátinn og ég veit ekki betur en allir hafi verið ánægðir með hann.
Nú ætla ég að reyna að blogga bara stutt til að þeir sem hingað líta bara öðru hvoru þurfi ekki að lesa alltof mikið. Tíu dagar eru jafnan á fyrstu síðu og það held ég að sé default hjá Mogganum og það er alveg kappnóg og ekki vil ég fara að fikta í því.
Guðmundur Andri Thorsson skrifar greinar í Fréttablaðið á hverjum mánudegi og birtir þær líka á fésbókarsíðu sinni. Í gær (20. febrúar) skrifaði hann grein um höfundarrétt sem ég er alls ekki sammála. Þó er ég oft sammála því sem hann skrifar, enda er hann fagmaður. Hann byrjar grein sína á að líkja saman þvottavélarviðgerðum og bókmenntaskrifum. Sú hugsun sem Guðmundur vill planta í huga lesandans með því er að þvottavélarviðgerðarmaðurinn fái alltaf borgað fyrir sína vinnu, en alltaf séu einhverjir sem vilji stela af rithöfundum og öðrum listamönnum.
Síðan segir Guðmundur:
Gott og vel. Á listamönnum dynja að minnsta kosti sífelldar kröfur um að gefa eftir réttinn til að fá arð af vinnu sinni. Þessar kröfur eru settar fram í nafni réttlætisins og lýðræðisins og tjáningarfrelsisins en einkum þó framtíðarinnar. Það er erfitt hlutskipti að vera andvígur framtíðinni. Hún er eitthvað svo óhjákvæmileg.
Þetta er alls ekki rétt hjá honum. Hann er bara að búa sér til strámann sem þægilegt er að ráðast á. Það vefst ekki fyrir Guðmundi að telja sjálfan sig listamann og ekki ætla ég mér að draga úr því. En eru allir listamenn sem gefa út bækur eða skrifa í Fréttablaðið? Ekki dettur mér í hug eitt andatak að Guðmundur skrifi ókeypis í blaðið.
Það vill svo til að ég er ákaflega andvígur ýmsu sem Guðmundur segir í greininni. Hann er samt prýðilega sannfærandi. Hafi menn enga eða lítt mótaða skoðun á höfundarréttarmálum er nær öruggt að þeir séu að langmestu leyti sammála Guðmundi að lestri loknum.
Það segir þó ekkert um það hvort hann hefur í meginatriðum rétt fyrir sér eða ekki.
Guðmundur segir líka í grein sinni:
Bókin er afurð markaðssamfélagsins, í eðli sínu vara sem gerð er úr orðum og pappír og á fyrir sér lengri framtíð en hugsjónamenn um bókleysi dreymir um. En bókfellið velkist og stafirnir fyrnast og fúna". Rétt eins og tónlistin lifði af dauða kassettutækisins þá mun sagnalistin líka lifa af dauða ipadsins. Sagnalistin mun meira að segja lifa bókina og allan þann iðnað sem henni fylgir.
Þetta er eins og hvert annað bull. Bókin er ekkert afurð markaðssamfélagsins. Af hverju ræðst Guðmundur ekki á bókasöfnin. Þau lána bækur rithöfunda næstum (eða alveg) ókeypis? Hver kynslóð dreifir hugsunum rithöfunda (og annarra listamanna) með þeim hætti sem best hentar. Það er misskilningur að listamenn eigi einhvern heilagan rétt til íhaldssemi og að ekki megi hrófla við einhverju skipulagi sem einu sinni hefur komist á. Þeir þurfa auðvitað að lifa eins og aðrir en ef þeir geta ekki aðlagað sig að breyttum tímum bíður þeirra ekkert annað en gleymskan. En það er alveg rétt hjá Guðmundi að bókin mun lifa en það er ekki sjálfsagt að lítil málsamfélög eins og það íslenska muni lifa endalaust.
Athugasemdir
Það er ekki fjarri sanni að bókin hafi orðið frjálshyggjunni og græðginni að bráð á undanförnum áratug. Og þar er ekki við höfundana að sakast heldur útgefendur og auglýsingafólk. Að því leytinu má segja að Guðmundur Andri hittir naglann á hausinn um að bókin sé orðin afurð markaðsþjóðfélagsins. Allavegana sumar tegundir bókmennta eins og glæpasögurnar. Persónulega mundi ég ekki harma það þótt bókaútgáfa færðist yfir á rafrænt form og höfundarnir fengju stærri hluta af verði bókanna en nú er en þá verða þeir að stilla græðginni í hóf. til dæmis viða mið 10 krónur á blaðsíðuna. Þá væri nóg fyrir meðalvinsælan höfund að selja 2500 - 3000 eintök á ári til að lifa af ritstörfum, miðað við 300 blaðsíðna bók. En auðvitað munu sumir textasmiðir áfram þurfa að selja vinnu sína sem pistlahöfundar og bloggyfirlesarar. En þeir hinir sömu hafa kannski heldur ekki meiri talent en hver annar þvottavélarviðgerðarmaður
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 21.2.2012 kl. 00:13
Er ekki sammála öllu, frekar en fyrri daginn, en þetta er reglulega vel orðað hjá þér fóstri.
Ólafur Sveinsson 21.2.2012 kl. 08:50
Mér finnst ekki það sama að segja að bókin sé afurð markaðsþjóðfélagsins og að hún hafi orðið frjálshyggjunni og græðginni að bráð. Nútildags held ég að margir höfundar skrifi frekar fyrir peningana en eitthvað annað. Glæpasagan er dálítið sér á parti. Þegar farið var að blanda alvöru skrifum saman við hana varð hún vinsæl. Áður fyrr voru glæpasögur bara glæpasögur. Að fólk vilji borga sem minnst fyrir það sem lesið er,er engin ný bóla. Tilgangur bókasafnanna er og var beinlínis sá að gera efnlitlum kleyft að lesa bækur. Nútíminn hefur gert fólk latara. Nú vill fólk fá bækurnar í lesvélina sína (ef það á einhverja) eins og áður tónlistina í eyrað með sem minnstri fyrirhöfn. Ekkert skrítið við það.
Sæmundur Bjarnason, 21.2.2012 kl. 09:47
Ætti þvottavélaviðgerðarmaðurinn ekki að fá greitt fyrir hverja notkun þvottavélarinnar eftir viðgerðina, til að hægt sé að jafna honum við "listamenn"?
Það er t.d. komið út fyrir öll mörk að fólk þurfi að greiða hljómlistarmönnum "höfundarréttargjald" af auðum geisladiskum fyrir tónlist sem aldrei er skrifuð á diskana!
Axel Jóhann Hallgrímsson, 21.2.2012 kl. 11:26
Jú, eiginlega ætti viðgerðarmaðurinn að fá greitt fyrir framtíðarnotkunina. Viðgerðin gæti verið að mestu leyti hugverk. Annars finnst mér skiptingin í hugverk og önnur verk vera mesta vitleysa. Hver og einn reynir að skara sem mestan eld að sinni köku.
Sæmundur Bjarnason, 21.2.2012 kl. 14:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.