1597 - Hugsandi.is

Untitled Scanned 26Gamla myndin.
Skemmtileg mynd. Þetta er Bjössi og ég veit ekki alveg hver.

Ekki hefur verið mikill áhugi á að ræða hér á mínu bloggi um Björn Sv. Björnsson og stríðið. Á margan hátt er stríðið samt í tísku eins og Eiríkur Jónsson segir. Las á sínum tíma bókina „Býr Íslendingur hér?“ Það var Garðar Sverrisson ef ég man rétt sem skrifaði þá bók og hún fjallar um fangabúðarvist Leifs Möller á stríðsárunum. Það var Ólafur nokkur Pétursson sem kom honum saklausum í hendur nasista. Einnig minnist ég þess að hafa lesið bók eftir mann sem þá var forsætisráðherra Noregs (kannski Trygve Bratteli) og hafði verið í fangabúðum nasista í stríðinu. Grini-fangelsið norska hefur líka verið talsvert skrifað um.

Minntist um daginn á vefritið hugsandi.is. Íris Ellenberger skrifaði grein í það blað í mars 2011 um tímaritið Sögu þar sem fjallað er um góða sagnfræði. Þar segir m.a.; (með leyfi forseta).

Hvað einkennir góða sagnfræði? Það er spurning sem 21 fræðimaður hefur reynt að svara í nýjasta hefti Sögu, tímarits Sögufélags. Þar fjallar hver fræðimaður um eitt sagnfræðirit og útlistar hvers vegna viðkomandi skrif teljist góð sagnfræði. Ef marka má þetta heftið þá er það aðallega þrennt sem einkennir góða sagnfræði: stíll, aðferð og erindi rannsóknarinnar við sagnfræðinginn.

Og ennfremur:

Hér verður sérstaklega staldrað við ummæli tveggja fræðimanna, þeirra Jóns Ólafssonar og Sigrúnar Sigurðardóttur sem, að því er virðist, ein telja það sagnfræðiriti til tekna að það hafi bein áhrif á líf fólks og hæfileika þess til að takast á við bæði fortíð og samtíð. Í því samhengi er áhugavert til þess að hugsa að hvorki Jón né Sigrún hafa sagnfræði sem aðalfræðigrein um þessar mundir. Það má nefnilega stundum greina ákveðna tregðu meðal sagnfræðinga til að láta sig málefni samtímans varða, ekki aðeins í rannsóknum sínum heldur einnig almenna tregðu til að taka þátt í samfélagsumræðu.

Þessu er ég sammála og finnst mjög skorta á að sagnfræðingar leggi sitt til almennrar umræðu. Mér dettur samt í hug að Guðni Th. Jóhannesson sést alloft í sjónvarpinu og bæði hann og aðrir fást við að skrifa bækur. Guðjón Friðriksson hefur og verið nokkuð ötull við að ræða við Egil Helgason í bókmenntaþættinum Kiljunni.

Annars virðist þetta vefrit vera á fallanda fæti eins og mörg önnur. Ég hef samt talsverðan áhuga á að lesa um sagnfræði og man ekki betur en ég hafi fengið þetta rit (tímaritið Sögu) lánað á bókasafninu á sínum tíma.

IMG 7811Snjókoma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Baldur Bjarnason magister set einnig í Grini. Kynntist honum 1959, í Hafnarfirði, þegar ég var byssugutti hjá BP.  Afskaplega minnugur og minnistæður maður. Hann sat inni með öðrum minnugum manni, prófessor Francis Bull. Sagt er að þegar Baldur mætti niður í útvarpi og hélt fyrirlestra, þá mætti hann blaðalaus. Mig minnir að hann hafi skrifað bók um dvöl sína þar.   Mér var sýndur á götu, hér í Reykjavík Ólafur Pétursson, sá hataði maður Noregi.

Ólafur Sveinsson 27.1.2012 kl. 01:10

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Ólafur, en hvað er byssugutti? Kannski sama og bensíntittur? Það voru nokkrir sem byrjuðu sem bensíntittir hjá mér á Vegamótum. Aldrei held ég samt að þeir hafi verið kallaðir byssuguttar. BP finnst mér hafa verið úti í Brákarey.

Sæmundur Bjarnason, 27.1.2012 kl. 02:30

3 identicon

Byssugutti er sá sem fór með olíuslönguna, frá olíubílunum, að húsum og bátum m.m.
Olíukyndingar við næstum því hvert hús. Oft langt að draga. Endaði þó á nýjum FORD 750 BigJob, með loft inndrætti. Bílstjórinn hét Baldvin.  Það var nú meiri lúxusinn. Eins og örugglega þú veist, voru höfuðstöðvar BP, í Laugarnesi. Þar fékk ég stundum að taka í EDSEL bíl Hreins Pálssonar forstjóra, þegar við vorum settir í að þvo hann. Sjálfskiptur, með takkana í miðju stýri. Sjaldgæfur bíll. Hét eftir syni Fords.

Ólafur Sveinsson 27.1.2012 kl. 12:06

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Ólafur. BP stöðin í Borgarnesi var úti í Brákarey. Sagði þetta bara að gamni mínu. Bensíntittirnar afgreiddu að sjálfsögðu bensín og gasolíu ef því var að skipta. Man að ég setti einu sinni óvart nærri 200 lítra af olíu á flutningabíl sem gekk fyrir bensíni; sá var rússneskur; það voru heilmikil vandræði.   

Sæmundur Bjarnason, 27.1.2012 kl. 14:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband