1576 - Nýársblogg - og þó

Scan157Gamla myndin.
Skúli Alexandersson tekur á honum stóra sínum.

Nú byrja ég semsagt að blogga á nýju ári, Ekki á ég samt von á að bloggið mitt breytist mikið. Það er mér talsverð auðveldun að spekúlera lítið sem ekkert lengur í dögum og klukkustundum. Ég bara skrifa mitt blogg og hendi því upp á Moggabloggið þegar mér finnst vera tími til þess kominn. Gæti þess líka að eiga jafnan svolítið af myndum á lager til að setja fremst og aftast í bloggið. Svona er þetta bara. Ég er íhaldssamur eins og sjá má og breyti helst aldrei neinu. Er ekki einu sinni viss um að ég yrði neitt betri bloggari þó vinsældir mínar ykjust mikið.

En af hverju er ég eiginlega að þessu. Það fatta ég ekki sjálfur. Mér finnst ég bara skrifa um sjálfsagða hluti. Jafnvel mínar umdeildustu skoðanir (sem ekki eru margar) finnst mér vera sjálfsagðar. Er ég meira „down to earth“, en margir aðrir? Er ég ekki eins illvígur og orðljótur og sumir eru? Kannski, en þá er það bara eðlilegt og sjálfsagt.

Skelfileg fáviska eru þessar áramótasprengingar. Þeim er aðeins að linna núna eftir að hafa náð hámarki rétt áðan. Gestir komu en voru farnir fyrir miðnætti og ég nennti ekki út til á horfa á raketturnar, aldrei þessu vant. Það var líka nóg að gera við að ganga frá og taka til. Veit ekki hvenær ég set þessi ósköp upp á Moggabloggið. Sennilega ekki fyrr en annað kvöld.

Strákarnir voru báðir hérna í kvöld og sögðu mér ýmislegt um Kindle tölvuna og Windows 7 sem ég gleymi vafalaust mjög fljótlega. Þá er bara að spyrja þá næst þegar þeir koma eða hringja.

Andskotinn hvað það er orðið vandlifað. Eftir nýjustu mjólkurfréttum að dæma er ég náttúrulega kominn með bullandi blöðruhálskrabbamein, þó ég hafi fyrir nokkrum árum hætt að drekka bláa mjólk (3,9%) og farið að drekka þá gulu (1,5%). Nú vantar mig bara rannsóknarniðurstöðu um samanburð á þessu tvennu. Kannski erum við að tala um mismun á fitusprendri mjólk og ófitusprengri. (Hryllilegt.) Bíð frétta af þessu mikilsveraða máli með aðra hönd á (nei, sleppum því annars).

Ég kýs að líta á gulu blettina í landslaginu (snjólaginu) sem hundamerkingar frekar en eitthvað annað. Auðvitað er þetta „annað“ mögulegt en mér finnst það ekki sennilegt. Örugglega er það þó eftir piss en hvaðan það kemur er hugsanlega spursmál.

Lagði það á mig að hlusta á áramótaávarp Ólafs Ragnars og auðvitað var það mestmegnis óttalegt froðusnakk, en hann svaraði þó þeirri spurningu sem flestir vildu fá svar við. Hann ætlar ekki að bjóða sig fram einu sinni enn. Óttast sennilega að niðurstaða EFTA-dómstólsins geri sig að áhrifalausum þjóðhöfðingja. Nú geta menn farið að spá og spekúlera í hvern eigi að senda næst á Bessastaði. Ég mun þó hamast við að gleyma Ólafi Ragnari. Ég kaus hann á sínum tíma og hann hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum. Ekki þó með Icesave ákvörðunum sínum heldur konungsstælum.

Held ég hafi skrifað um það áður að allar götur frá því að einvígið var haldið hér í Reykjavík árið 1972 sællar minningar hefur heimsmeistaratitillinn í skák verið nokkuð umdeildur. Ég ætla að setja hér á blað þá sem mér finnst að hafi eiginlega borðið hann síðan. Af þeim hafa Kasparov og Karpov verið minnst umdeildir. Mér finnst listinn líta svona út:

Fischer
Karpov
Kasparov
Kramnik
Anand
Carlsen

Aðrir kunna að hafa gjörólíkar skoðanir á þessu og vilja bæta ýmsum við á þennan lista og jafnvel fella einhverja út af honum.

Mér dettur í hug að það ætti að koma upp ritrýndri bókmenntasíðu. Internetið er kjörinn vettvangur fyrir slíkt. Jafnvel má gera ráð fyrir að síðan geti með tímanum skilað tekjum í formi auglýsinga. Ritstjórn síðunnar skiptir mestu máli. Einnig hvernig til tekst með ritrýnina. Efnisyfirlit og flokkun skiptir líka talsverðu máli. Mér finnst að hún eigi einkum að beinast að því að greinafjöldinn verði hæfilegur. Sé framboðið af frambærilegum greinum lítið ættu ritrýnar að reyna að leiðbeina þeim sem þó senda greinar til birtingar. Ef hægt er að halda úti bókmenntaþætti í sjónvarpinu ætti að vera auðvelt að halda úti bókmenntasíðu á Internetinu. Bókmenntaumfjöllun þar virðist nokkuð tilviljanakennd.

IMG 7594Hér byrja jólin hjá mörgum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleðilegt nýtt ár, skólabróðir, og þakka þér skemmtileg blogg á liðnum árum.

Tek undir með þér með sprengingar og áramótabrennur, sem eru eins og margt annað komið hvorttveggja út yfir alla skynsemi eins og fleira hér á landi fyrir löngu. Vonast til að okkar röggsami umhverfisráðherra taki á þessu og takmarki skotelda og helst banni alveg opinn eld utan dyra. Í Evrópu er það víða þannig, að almenningur getur ekki fengið að kaupa og brenna skotelda, það fá einungis þeir, sem hafa fengið til þess sérstök leyfi. Ekki kaus ég Ólaf Ragnar, en nú finnst mér að hugsandi og félagslega meðvitað fólk þurfi að koma sér saman um forsetaefni, sem er bæði trúverðugt gagnvart þjóðinni og nýrri stjórnarskrá og ekki með þessa forpokuðu Jóns Bjarnasonarstefnu gagnvart Evrópusamstarfinu.

Ellismellur 2.1.2012 kl. 13:02

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Ellismellur og gleðilegt ár sömuleiðis.

Sæmundur Bjarnason, 2.1.2012 kl. 21:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband