20.12.2011 | 23:00
1567 - Gamalt blogg
Gunnar Kristjánsson frá Miðhrauni.
Ekki er víst að allir kunni að meta það, en ég er í vaxandi mæli farinn að lesa gömul blogg eftir sjálfan mig. Af einhverjum ástæðum er mér það minnisstætt að fyrir nokkrum árum skrifaði ég smápistil á bloggið mitt um ömmu. Núna áðan var ég að lesa þett blogg yfir og sé að mér hefur alls ekki farið fram við skriftirnar, því miður. Satt að segja er þetta bara nokkuð gott hjá mér. Ég hef ekkert fellt niður og engu bætt við. Þennan pistil kallaði ég: Um Jórunni Jónsdóttur sem fæddist þann 26. júlí 1872.
Ég er sennilega skástur við endurminningarnar. Auðvitað er samt gaman að þykjast gáfaður og setja fram skynsamlegar skoðanir um allt mögulegt, en besservisserarnir meðal bloggara eru bara svo fjári margir. Ég man eftir nokkrum sögum af ömmu og vel getur verið að ég reyni að aðlaga þær Gvendarkotsvefnum, ef Atli kærir sig um það.
Já, Jórunn var amma mín og ég hef verið á fimmtánda ári þegar hún dó. Auðvitað man ég greinilega eftir henni. Hún hafði þann sið þegar gott var veður að fara út og rölta um lóðina. Ekki tók hún samt skupluna af sér og ekki lagði hún frá sér prjónana. Ég man vel að hún gat auðveldlega farið allra sinna ferða og talað við fólk sem hún hitti, án þess að það hefði nokkur áhrif á prjónaskapinn. Ef hún var ekki að prjóna var hún yfirleitt að spinna á rokkinn sinn.
Að breyta lopa eða ull í band með rokknum og tvinna saman ólíkar bandtegundir var henni leikur einn. Til að snúa böndin saman notaði hún að sjálfsögðu snældu. Með sérstöku og snöggu átaki þar sem snælduleggurinn var hafður milli læris og hægri lófa var snældan síðan látin snúast eftir þörfum og bandið sem snúðurinn kom á síðan vafið um snælduhalann.
Stundum fengum við krakkarnir að prófa að snúa snældunni og gekk það oft bærilega, ef vel var fylgst með okkur. Stundum lét hún okkur líka halda á hespum, meðan hún vatt bandið í hnykla. Og þvílíkir hnyklar. Þeir voru svo mátulega þéttir og svo hæfilega oft skipt um legu bandsins að engin hætta var á að þeir röknuðu upp. Ég man ekki eftir að hafa séð betur undna hnykla. Í miðjan hnykilinn setti hún jafnan samanbrotið dagblaðssnifsi eða eitthvað þess háttar. Stundum reyndi hún að kenna okkur að vinda band í hnykla, en það gekk brösuglega
Amma dvaldi jafnan til skiptis hjá dætrum sínum þeim Ingu í Nóatúni og mömmu. Á ættarmótinu á Laugum í Sælingsdal vorum við Eysteinn sonur Ingu af einhverjum ástæðum að tala um ömmu. Honum fannst að hún hefði oftast verið hjá þeim, en mér fannst hún oftast hafa verið hjá okkur.
Þegar amma var að búa sig undir að fara eitthvað (sennilega til Ingu í Nóatúninu - sem þá átti ef til vill heima á Víðimelnum) var hún tilbúin að fara, komin í kápuna og allt, löngu áður en rútan (kannski Gardínu-Palli) átti að fara. Þá settist hún á rúmið sitt og beið eftir að tíminn liði. Stundvísi held ég að sé flestum afkomendum hennar í blóð borin.
Amma hafði gaman af að gefa. Hún gaf til dæmis systrum mínum öllum kommóðu og eitt sinn þegar komið var með kommóðu heim á Hveramörk 6 var ég eiginlega búinn að reikna það út að ég ætti að fá hana. En reyndin var sú, að það var komið að henni sjálfri.
Af því að mamma var úr Þykkvabænum og þekkti alla þar, fórum við stundum þangað. Ég man eftir að hafa verið með mömmu í þar um það leyti sem Geysir fórst á Bárðarbungu. Þá var okkur krökkunum stranglega bannað að hafa hátt meðan fréttir voru lesnar. Líklega höfum við verið í Búð, en þó er ég ekki viss.
Sennilega hefur það verið í þessari ferð (1950) sem við Vignir vorum eitt sinn eitthvað að bardúsa úti á túni. Þar þurftum við af einhverjum ástæðum að fara yfir skurð, þar sem var smálækur í botninum. Ég fór léttilega yfir og beið eftir Vigni, sem ekki treysti sér til að hoppa yfir lækinn.
Þá var það sem kúahópur sem var á túninu veitti því athygli að eitthvað var um að vera hjá okkur. Forystukýrin í hópnum rak halann upp í loftið og baulaði eitthvað óskiljanlegt og síðan komu allar beljurnar steðjandi í áttina til okkar. Mér fannst þær hlaupa og vera til alls líklegar og Vigni hefur eflaust fundist það líka, því nú brá svo við að hann stökk yfir lækinn eins og ekkert væri. Ég man að mamma og líklega einhverjir fleiri hlógu mikið, þegar við sögðum frá þessu.
Já, veggurinn þarna er hálfsubbulegur.
Athugasemdir
Gardínu-Palli sem þú nefnir -- var það Páll Guðjónsson á Stokkseyrarrútunni? Hvernig var gardínu-viðurnefnið tilkomið, veistu það? Mig minnir að téður Páll hafi eignast og átt fyrsta hópferðabíl á Íslandi sem var sérframleiddur frá verksmiðju til þeirra nota. Ætli hafi kannski verið gardínur í honum?
Sigurður Hreiðar, 22.12.2011 kl. 09:45
Já, Sigurður. Gardínu-Palli var einmitt rúta sem var með gardínur. Það þótti mikill spandans og óþarfi á þessum tíma og nafnið var dregið af því. Mig minnir að rútan hafi líka verið stærri en venjulegast var og e.t.v. sérsmíðuð. Rútan var einnig nefnd eftir bílstjóranum eða eigandanum og hann keyrði örugglega á sérleiðinni sem náði um Selfoss annað hvort á Stokkseyri eða Eyrarbakka. Held að Steindór og eitthvert annað fyrirtæki hafi haft það sérleyfi í sameiningu. Kristján í Saurbæ var held ég með sérleyfi sem náði bara til Hveragerðis.
Sæmundur Bjarnason, 22.12.2011 kl. 10:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.