1458 - Útvarp Saga

208Gamla myndin.
Kristinn Jón Kristjánsson og Gunnar Hallgrímsson.

Útvarp Saga reynir umfram allt að auka heiftina í þjóðfélaginu. Elur á öfund eftir mætti. Er á móti sem allra flestu og reynir að ávinna sér vinsældir með því. En hvert eiga þessar vinsældir að fara? Sennilega gerir starfsfólkið þar sér vonir um að vinsældirnar skili sér í auknum auglýsingum og með því tekjum fyrir stöðina.

Óviðunandi er að reyna að loka fyrir svona lagað. Miklu nær er að mæta því með rökum og stillingu. Samt er þeim ekki mætt á þeim vettvangi sem þau skilja. Þ.e. á öldum ljósvakans. Poppgaulið á hinum útvarpsstöðvunum langflestum er forheimskandi mjög.

Óánægjufylgið í stjórnmálum nær oft tíu hundraðshlutum eða svo. Útvarp Saga mun örugglega styðja þjóðremdan ofstækis- og innflytjendahatursflokk ef hann kemur fram. Og mér finnst líklegt að hann komi fram hér á Íslandi eins og víða annarsstaðar.

Frjálslyndi flokkurinn er í sárum en gæti þó gengið aftur og fyllt þetta skarð. Stefnuskrá hans hentar vel fyrir slíkt. Útvarp Saga studdi hann meðan það borgaði sig og gerir kannski enn.

Orrustan milli kapítalisma og kommúnisma stendur ennþá. Að vísu eru nöfnin breytt en kjarninn er sá sami. Hvernig kommúnismanum á Íslandi hefur tekist að samsama sig þjóðrembunni er illskiljanlegt. Mér fyndist miklu eðlilegra að baráttan stæði um fylgi þeirra sem hugsa grænt. Þjóðremban tilheyrir öfgahægrinu.

Á sviði öfgahægrisins keppa þeir nú opinberlega Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður framsóknarflokksins og Bjarni Benediktsson formaður sjálfstæðisflokksins. Sigmundur hefur tekið forystuna eins og er með því að segjast ætla í þjóðrembdan matarkúr. Bjarni er núna að upphugsa svar við því. Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá.

Það fór eins og mig grunaði. Illt er að kenna gömlum hundi að sitja. Ég á greinilega erfitt með að hætta að blogga eða minnka það að ráði. Gömlu myndirnar eru svo lélegar að ég hugsa að ég hætti fljólega að birta þær. Þeim fækkar líka. Tek frekar meira af myndum sjálfur og birti jafnvel tvær eða fleiri með hverju bloggi. Varið ykkur bara.

Þegar Ómar Ragnarsson gengur í flokkin hjá Guðmundi Steingrímssyni mun ég íhuga að kjósa þann flokk. Ef veðurflokkurinn hans Sigurðar Þórs býður einnig fram mun ég lenda í vandræðum.

IMG 6410Úr Héðinsfirði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þurfa menn ekki að vera býsna langt vinstra megin við miðjuna til þess að svo langt sé í Sigmund Davíð Gunnlaugsson og bjarna Benediktsson, að þeir virðist ver einhvers staðar úti "á sviði öfgahægrisins"?

Jón Valur Jensson, 24.8.2011 kl. 07:42

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Góð færsla Sæmundur, tek heilshugar undir þetta með útvarp Sögu. 

Jón Valur, finnst þér að þér þrengt ef Sigumundur og Bjarni eru líka á sveimi þarna útfrá?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 24.8.2011 kl. 08:31

3 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Það er leiðinlegt hvað fólki er orðið tamt að stimpla pólitíska andstæðinga sem öfgaöfl.  Miðað við ummæli sumra álitsgjafa myndi maður ætla það að 75% þjóðarinnar væri öfgafólk í hinar og þessar áttir.

Annars mæli ég með því Sæmundur að þú lítir í gegn um stefnuskrá xF frá því fyrir kosningar 2007.  Ég sé ekki mikið af öfgum þar né þegar ég hef rætt við stjórnarmenn flokksins.  Ég hallast að því að þessum stimpli hafi verið komið á flokkinn af fjölmiðlum og fólk hafi dæmt flokkinn út frá því án þess að kynna sér málið (er það ekki svipað fordómum?).

Bara til að forðast misskilning annara lesenda þá er ég ekki tengdur frjálslynda flokknum að neinu leiti, en hef unnið með því ágæta fólki.

Axel Þór Kolbeinsson, 24.8.2011 kl. 08:48

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Fyrir nokkrum mánuðum hætti ég að hlusta á Sögu. Geðheilsan hefur sjaldan verið bertri:)

Heimir Lárusson Fjeldsted, 24.8.2011 kl. 09:19

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Axel. Það má passa sig dálítið á þessum nafngiftum. Er alveg sammála þér um það að öfgafólki af öllu tagi hefur fjölgað mikið að undanförnu. Orð eru oftast nákvæmlega eins kraftmikil og sá skilningur sem fólk leggur í þau. Ég nenni yfirleitt ekki að lesa stefnuskrár. Það er ekki mikið að marka þær.

En takk samt allir fyrir að leggja orð í belg.

Sæmundur Bjarnason, 24.8.2011 kl. 10:00

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Spái því að Jón Valur Jensson svari ekki spurningu Axels Jóhanns Hallgrímssonar þó hún sé góð.

Sæmundur Bjarnason, 24.8.2011 kl. 10:39

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frjálslyndi flokkurinn er í sárum en gæti þó gengið aftur og fyllt þetta skarð. Stefnuskrá hans hentar vel fyrir slíkt. Útvarp Saga studdi hann meðan það borgaði sig og gerir kannski enn.

Hefur þú lesið stefnuskrá Frjálslyndaflokksins Sæmundur?  Eða ertu bara að fabúlera um það sem þú heyrir af andstæðingum flokksins.  Það voru tímabundið örfáir einstaklingar í flokknum sem voru á þessari línu en hrökkluðust burt því þeir fengu engan hljómgrunn hjá hinum almenna flokksfélaga.  En óvinir flokksins halda þessu endalaust á lofti, því þeir vilja ekki fleiri flokka í landsmálin, sérstaklega ekki flott sem hefur það helst á sinni stefnuskrá að umbylta kvótakerfinu.  En þú ættir að lesa þér til um hluti áður en þú fordæmir svona. 

http://www.xf.is/ Hér er slóðin.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.8.2011 kl. 10:44

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér datt alveg í hug að ég mundi heyra frá þér, Ásthildur. Þú segir: Það voru tímabundið örfáir einstaklingar í flokknum sem voru á þessari línu en hrökkluðust burt því þeir fengu engan hljómgrunn hjá hinum almenna flokksfélaga.

Hverjir voru það? Ertu að afneita öllum stuðningi útvarps Sögu? Ertu kannski að taka undir við mig varðandi Sögu?

Nei ég hef ekki lesið stefnuskrána. Ég er að segja svipað um frjálslynda flokkinn og margir aðrir hafa sagt. Það er alveg rétt. Eru allir andstæðingar flokksins sem kjósa hann ekki?

Sæmundur Bjarnason, 24.8.2011 kl. 13:20

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þó einhverjir úr flokknum hafi fengið inni í Úrvarpi Sögu þýðir það ekki að flokkurinn og Saga séu eitt.  Það er eflaust margt þar sem mætti missa sig, en þar er líka margt sem gott kemur.  Þeir hafa allavega verið eina útvarpsstöðin sem hefur tekið upp okkar sjónarmið og komið þeim á framfæri. 

Hverjir það voru sem komu inn í flokkinn og hafa nú yfirgefið hann sést á því hverjir eru farnir, þar bar hæst Nýtt afl, sem mikill styrr stóð um að kæmi inn í flokkinn.  En einhvernveginn er ekki hægt að banna fólki að ganga í flokka, það varð svo ljós að nokkrir af þessu fólki var beinlínis að koma inn til að breyta áherslum flokksins.  Það tókst hins vegar ekki og það sem samþykkt hefur verið og betrumbætt frá upphafi flokksins, og ég meðal annars hef átt þátt í að móta, stendur enn. 

Ég get lítið tjáð mig um Úrvarp Sögu að öðru leiti því ég hlusta ekki á hana, hún heyrist ekki hér svo ég viti, nema í gegnum tölvuna.  Hef hins vegar átt gott samtal við Arnþrúði út af allt öðru máli, og í því var hún afskaplega prúð og kurteis. 

Bendi til dæmis á Eirík verkalýðsforingja að austan, hann var tímabundið í okkar flokki en gekk þaðan út og í Samfylkinguna, og er að því mér er sagt ennþá að þruma á Sögu sem samfylkingarmaður þá væntanlega, er þá ekki líka einhver illska í þeim flokki líka?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.8.2011 kl. 13:51

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég hlusta stundum á útvarp Sögu. Finnst fólk þar yfirleitt ekki vera flokkspólitískt. Þó hefur mér virst að stjórnendur þar veðji helst á að Frjálslyndi flokkurinn hafi svipaðar áherslur.

Ég tengi Jón Magnússon og e.t.v. fleiri við nýtt afl.

Eiríkur Stefánsson held ég að tali yfirleitt meira á útvarpi Sögu fyrir sjálfan sig en Samfylkinguna.

Mér finnst alltaf fróðlegt að heyra hvernig fólk hugsar um stjórnmál. Auðvitað hugsa ég öðruvísi en margir aðrir. Það hindrar mig samt ekkert í að reyna að láta ljós mitt skína.

Sæmundur Bjarnason, 24.8.2011 kl. 14:51

11 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Ég held að ég fari rétt með það að Eiríkur hafi upplýst að hann hafi sagt sig úr Samfylkingunni.

Hans málflutningur er heldur ekki á neinum Samfylkingarnótum, svo mikið er víst.

Ég held raunar að enginn flokkur væri tilbúin að skrifa upp á það sem útúr Eiríki kemur, þegar hann er í ham á Sögu.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 24.8.2011 kl. 19:15

12 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Axel. Það er gaman að jagast svona í athugasemdum um stjórnmál. Ég man að Eiríkur var einu sinni formaður verkalýðsfélagsins á Fáskrúðsfirði. Eftirminnilegur maður.

Sæmundur Bjarnason, 24.8.2011 kl. 19:36

13 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Já á þeim vettvangi kynntist ég Eiríki fyrst. Ég held að hann hafi staðið sig vel og unnið gott starf og af heilindum fyrir sína umbjóðendur. Hann heldur oft hressilegar tölur og talar tæpitungulausa Íslensku. Ekki er ég þó sammála því öllu.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 24.8.2011 kl. 20:00

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sæmundur, þessi spurning Axel þessa Jóhanns (til er annar mjög fínn á Moggabloggi, Axelsson) er bæði vitlaus og leiðandi. En ekki hefur þú svarað minni eðlilegu spurningu.

Jón Valur Jensson, 24.8.2011 kl. 20:57

15 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jón minn Valur. Er þín spurning ekki vitund leiðandi? Fattaði ekki einu sinni að henni væri beint til mín. Mér finnst ég vera á miðjunni en bæði Sigmundur Davíð og Bjarni Ben eru langt til hægri við mig miðað við nýjustu fréttir. Ég sé þá varla.

Sæmundur Bjarnason, 24.8.2011 kl. 21:55

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þeir eru lausir við öfgar, þú hlýtur að sjá það sjálfur.

Jón Valur Jensson, 24.8.2011 kl. 21:57

17 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Axel Jóhann, ég tek undir það að Eiríkur talar tæpitungulaust. Verst að hann talar eiginlega alltaf, hefur mér fundist, eins og hann sé öskureiður.

Sæmundur Bjarnason, 24.8.2011 kl. 21:59

18 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hvar er öfgastrikið Jón Valur? Og hvoru megin ert þú?

Sæmundur Bjarnason, 24.8.2011 kl. 22:23

19 identicon

Sæll Sæmundur; sem aðrir gestir, þínir !

Axel Jóhann Hallgrímsson !

Um margt; er ég ósammála Eiríki Stefánssyni - en; sterk er, hans ráttlætis kennd, ekki hvað sízt, gagnvart umhirðu og aðbúnaði Húsdýra, hér á landi. Ég virði hann mikils; fyrir drenglyndi hans, þar.

Vona; Axel minn, að þú sért ekki sár yfir, að Eiríkur sá, við viðurstyggilegum vélráðum Jóhönnu Sigurðardóttur - og fylgisveit hennar, fyrir nokkru, og hvarf þar með, úr hennar vesölu fylkingu, að verðskulduðu.

Jón Valur !

Ég má til; að minna þig á - sem Sæmund síðuhafa og aðra, að Bjarni Benedikts son (yngri); og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson; eru auðvirðilegir snatar þeirra afla, sem fremst fara í fylkingu sérgæzku eigin hóglífis- og afskipta leysis, um hagi síns verst stadda, samferðafólks.

Þar; eru þeir, á nákvæmlga sömu tröppu staddir - sem illræðis hjúin; Stein grímur J. Sigfússon, og Jóhanna Sigurðardóttir.

Enginn; skyldi andæfa, þeirri röksemd minni, án frekari skoðunar, á þessu packi öllu, gott fólk.

Með; hinum beztu kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason   

Óskar Helgi Helgason 24.8.2011 kl. 23:56

20 Smámynd: Jens Guð

  Tvær athugasemdir:

  -  Sigurður Kári Kristjánsson hélt því fram í ræðustól á Alþingi að helmingur þingflokks Frálslynda flokksins héldi úti dagskrá Útvarps Sögu.  Það stóðst ekki skoðun.  Grétar Mar var þar með þátt.  Jón Magnússon leysti hann af á tímabili.  Þeir voru ekki samtímis með þátt á Útvarpi Sögu.  Sigurður Kári dró sína fullyrðingu til baka.  En hans fyrri fullyrðing virðist hafa lifað.

  -  Það voru tveir menn í Frjálslynda flokknum sem helst voru sakaðir um meintan rasisma.  Annars vegar Jón Magnússon vegna blaðagreinar sem hann skrifaði áður en hann gekk til liðs við FF.  Fyrirsögn hennar var "Ísland fyrir Íslendinga?".  Hinn var Viðar Helgi Guðjónssen,  formaður ungliðahreyfingar FF.  Þeir eru báðir komnir "heim".  Það er að segja gengnir í Sjálfstæðisflokkinn.  Meintur rasistastimpill þeirra virðist hinsvegar ekki hafa fylgt þeim yfir í Sjálfstæðisflokkinn heldur loðir við FF.  Afstaða FF til kynþátta/nýbúa kom og kemur skýrt fram í stefnuskrá FF.  Þáverandi formaður FF,  Addi Kidda Gau,  er kvæntur nýbúa.  Hann og núverandi formaður FF,  Sigurjón Þórðarson,  verða seint vændir um andúð í garð nýbúa,  hvað þá rasisma.  Ég er harðlínu anti-rasisti,  eins og Ásthildur Cesil og flestir sem ég þekki í FF.     

Jens Guð, 25.8.2011 kl. 00:08

21 Smámynd: Jens Guð

  Þarna átti að standa:  "Viðar Helgi Guðjónsson,  þáverandi formaður ungliðahreyfingar FF."

Jens Guð, 25.8.2011 kl. 00:11

22 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég er princíperaður miðjumaður, Sæmundur, hef oft tekið það fram.

Ég aðhyllist réttlætishyggju Thómasar frá Aquino, sem byggir m.a. á Aristotelesi, og fylgi evrópskri (og norrænni) hefði kristinna demókrataflokka.

Ég er meiri verkalýðssinni en mér virðist núverandi ríkisstjórnarflokkar vera. Steingrímur veit ekki einu sinni af því, að almenningur hafi orðið fórnarlamb kreppunnar (hve hlálega orðaði hann það aftur?). Hann er svo einangraður hátt uppi í sínum pýramída, að ef honum tekst einhvern tímann að nema áköll fjöldans, er eins víst að hann svari með orðum Maríu Antoinettu: "Getur fólkið ekki borðað kökur?"

Stétt með stétt, segi ég og var aldrei nýfrjálshyggjumaður, meðan ég var í Sjálfstæðisflokknum. Gjör rétt, þol ei órétt -- þetta er réttlætishyggja að mínu skapi (og Jóhönnustjórnin geðþóttafulla stenzt ekki það próf).

Vísa annars á skrif mín (m.a. vegna 1. maí) á Kirkju.net -- og segðu svo lesendum þitt mat á því, hvort í ÞESSARI GREIN minni sé mælt með eða MÓTI öfgafullri þjóðernishyggju!

Góða nótt, skriffinnur og sannleiksleitandi.

Jón Valur Jensson, 25.8.2011 kl. 00:13

23 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég átti nú ekki von á að haldið yrði áfram að skrifa hér. Það sem mér finnst merkilegast af því nýjasta hér er að Jón Valur skuli kalla sig miðjumann. Margir kalla hann öfgamann, hvað sem til er í því. Ég hallast að því að menn geti hæglega verið öfgafullir á einu sviði og hófsamir á öðru. Margt af því sem sem Jón Valur hefur látið frá sér fara um trúmál, kynferðismál og uppeldismál finnst mér öfgafullt. Margt af þeirri þjóðrembu sem látið er í ljós við ESB-andstöðu finnst mér sömuleiðis öfgafullt.

Flest af því sem hér er sagt um Frjálslynda flokkinn þekki ég alls ekki nógu vel til að fjölyrða um. Það sem sagt er um stefnuskrár og þessháttar höfðar ekki til mín. Tilvísanir í gamlar greinar ekki heldur. Þaðan af síður að feitletra allt sem sagt er. Slíkt finnst mér að eigi að nota mjög í hófi og aðeins til áherslu.

Þrátt fyrir allt nýtur ríkisstjórnin fylgis á þingi. Sumt af því sem sagt er um hana mega ríkisstjórnir alltaf búast við. Því er þó ekki að neita að gagnrýnin á núverandi ríkisstjórn er um margt meiri og öfgafyllri en áður og henni er um margt mislagðar hendur. Verst er að stjórnarandstaðan nýtur alls ekki mikils fylgis heldur. Nú er boðað að ESB-kosningin geti orðið í byrjun árs 2013 og mér finnst það mál skipta langmestu máli í stjórnmálum dagsins.

Sæmundur Bjarnason, 25.8.2011 kl. 06:47

24 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Með stuðningi sínum við ESB-viðræðuslit stuðla þeir flokksformennirnir Sigmundur Davíð og Bjarni að áframhaldandi áhrifaleysi og óvinsældum stjórnarandstöðunnar. Þjóðin vill fá að kjósa um ESB-aðild. ESB-andstæðingar finna sumir að meirihluti þeirra gegn aðild fer þverrandi. Þess vegna vilja þeir slíta viðræðum sem fyrst og skeyta engu um hve sú afstaða er fáránleg.

Ég tel engan möguleika á því að reynt verði að koma á aðild án þjóðaratkvæðagreiðslu og finnst að bæði andstæðingar og meðmælendur aðildar þyrftu að koma sér saman um það atriði sem fyrst. Hef reyndar aðeins heyrt andstæðinga aðildar hreyfa þeim möguleika. Einhver hluti þjóðarinnar trúir þó að hann sé fyrir hendi.

Sæmundur Bjarnason, 25.8.2011 kl. 07:15

25 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Miðað við hvað margir hafa skrifað hér í athugasemdadálkinn þá finnst mér merkilegt að enginn skuli taka upp hanskann fyrir útvarp Sögu. Pistillinn var þó upphaflega aðallega um þann miðil, fannst mér.

Sæmundur Bjarnason, 25.8.2011 kl. 10:16

26 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Meira að segja maðurinn sem fékk sérstakan vikulegan pistil á Sögu til að hann hætti að einoka innhringitímana, hefur ekkert til málana að leggja um ágæti stöðvarinnar. Ekki einu sinni um sína eigin pistla. Þetta er óvenjuleg hógværð úr hans ranni. Hann er kannski að reyna að standa undir nafni sem "princíperaður miðjumaður". Sú "miðja" er klárlega ekki þar sem allur almenningur, hérlendur, staðsetur hana.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 25.8.2011 kl. 12:13

27 identicon

Komið þið sæl; á ný !

Sæmundur síðuhafi - Axel Jóhann; og þið önnur !

Jú; vitaskuld, láðist mér, í flýti fyrri athugasemdar minnar, að geta Útvarps Sögu, á þann máta - sem verðugastur er, henni.

Efnistök; all misjöfn, eins og gengur - og full mikið látið, með fólk, eins og : Pétur Blöndal - Vigdísi Hauksdóttur, auk nokkurra annarra velunnarra, hins óbreytta þjóðfélags ástands, í ýmsum Síðdegis þátta gerðum.

Þá; mætti spjallvinur minn,  Guðmundur Franklín Jónsson, spara sér viðtöl mörg, við helztu hlaupagikki- sem meðreiðarsveina Hrunvaldanna, í annarrs ágætum Laugardags árdegis, þáttum sínum.

Þá; örlar talsvert, á dekri Arnþrúðar Karlsdóttur útvarpsstjóra - og þeirra Péturs Gunnlaugssonar, á hinum forstokkuðu flokka leiðurum; þeim Bjarna Benediktssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni; sérílagi, í Síðedegisþáttum stöðvarinnar - eins; og áðurnefndum Pétri Blöndal, og Vigdísi Hauksdóttur, svo sem.

Morgunútvarp; hinna virku daga, er alla jafna, með hinum mestu ágætum, aftur á móti.

Gagnlegir eru; þættir Eiríks Stefánssonar, á Mánudögum e.hádegi - svo og Jóns Vals Jenssonar, á Föstudögum, kl.12:40, svo fram komi, einnig.

Með; hinum sömu kveðjum - sem fyrri /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason 25.8.2011 kl. 13:08

28 identicon

Síðdegisþáttum; átti að standa þar. Afsakið; ambögur ýmsar, að nokkru.

ÓHH

Óskar Helgi Helgason 25.8.2011 kl. 13:10

29 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég hlusta ekki oft á útvarp Sögu. Einkum hlusta ég þó á innhringiþættina á morgnana sem núorðið eru oftast með Pétri Gunnlaugssyni eða Arnþrúði sjálfri. Að flestu leyti á það sem ég sagði í upphaflegri færslu minni við þá.

Sumt af öðru efni sem þú Óskar minnist á hef ég heyrt en hlusta ekki á að staðaldri.

Ég dreg ekki í efa að útvarp Saga (einkum innhringiþættirnir) geti verið talsverður áhrifavaldur varðandi stjórnmálaskoðanir fólks. Þess vegna er ekki að ófyrirsynju að fólk tjái sig eitthvað um það, sem þar fer fram.

Sæmundur Bjarnason, 25.8.2011 kl. 13:20

30 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Mannskemmandi stöð.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 25.8.2011 kl. 13:43

31 identicon

Komið þið sæl; að nýju !

Ómar Bjarki Kristjánsson !

Rangt; hjá þér.

Þvert; á móti, útvarpsstöð, sem þorir að taka á málum, sem eru vinum þínum, á Alþingi; og í Stjórnarráði, einkar ÓÞÆGILEG - eins, og dæmin sanna.

Hins vegar; ber að taka viðhorfum þínum, sem hverjum öðrum Austur- Þýzkum, Ómar minn, því þú - og þínir líkar, kjósið áframhaldandi kyrrstöðu og niðurdröbbun, í íslenzku þjóðlífi.

Frá því sjónarhorni, er viðhorf þitt skiljanlegt, vitaskuld.

Með; þeim sömu kveðjum - sem áður /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason 25.8.2011 kl. 15:25

32 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Óskar, ég er ekki sammála þér. Mér finnst útvarp saga alls ekki nógu góð útvarpsstöð. Innhringiþættirnir eru ekki nógu góðir. Alltaf sama fólkið sem hringir og aðallega fólk sem er sammála þáttarstjórnanda. Þó er oft vitað að þau sjónarmið sem þar er haldið fram eru alger minnihlutasjónarmið. Margt ágætt fólk hefur þó komið við á útvarpi Sögu en það er eins og það tolli ekki þar lengi.

Á yfirborðinu lítur það oft ágætlega út sem sagt er á útvarpi Sögu en þar tíðkast alls ekki síður en annars staðar að stinga öllu óþægilegu undir stól og láta nægja að gagnrýna allt og alla. Það er oftast auðvelt því ekki er erfitt að finna eitthvað sem miður fer.

Sæmundur Bjarnason, 25.8.2011 kl. 16:00

33 identicon

Komið þið sæl; sem áður !

Sæmundur !

Jú; reyndar tekur Útvarp Saga fyrir, margs konar umfjallanir - sem RÚV hunzar algjörlega, eða;; er BANNAÐ, að fjalla um, sökum ofríkis yfirboðara síns, í Fjármálaráðuneytinu (var áður; undir stjórn Menntamálaráðuneytis).

Hví; skyldi það vera, síðuhafi góður ?

Sama máli gegnir, með hina 365 fjölmiðla - auk hinna, flestra. ÍNN; er aftur á móti, Allsherjar málsvari Valhallar liða (við Háaleitisbrut; Reykvízkra), og þar af leiðandi ósanngjarnt, að reikna með öðru, úr þeirri átt, svo sem.

Vitaskuld; sakna ég margs, sem Útvarp Saga mætti taka fyrir - en; ekki er hún óskeikul, fremur en margir fjölmiðlar, víðs vegar, um veröldu, alla.

Með; ekki síðri kveðjum - en þeim fyrri /

Óskar Helgi Helgason   

Óskar Helgi Helgason 25.8.2011 kl. 16:27

34 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

RUV lætur ekkert banna sér eitt eða neitt!! Útvarp Saga einbeitir sér að neikvæðum stjórnmálafréttum. ÍNN er kannski málsvari Valhallar en það bætir Sögu ekkert. Fjölmiðlun öll hefur batnað undanfarin ár. Ekki fjölmiðlunum sjálfum að þakka, heldur almenningi.

Sæmundur Bjarnason, 25.8.2011 kl. 19:40

35 identicon

Komið þið sæl; á ný !

Sæmundur !

Ekki; ekki reyna, að fegra hlut RÚV, í hríðversnandi efnistökum þeirra, á almennum fréttaflutningi - eða umfjöllunum; svo sem Kastljóss - Spegils - Silfur- Egils; né, í annan máta.

Þú veist mun betur, en svo.

RÚV er; undirlagt helzi ráðamanna, á flestum sviðum, og reynir ekkert til, að kryfja málefni til mergjar, svo nokkru nemi - gára aðeins yfirborð, stöku sinnum, til þess að sýnast.

Vel má vera; að umfjallanir Útvarps Sögu, séu með neikvæðum hætti, en ætli það stafi ekki fyrst og fremst, af undirliggjandi - sem vaxandi ólgu, í landinu ?

Almenningur; getur haft víðtæk áhrif, á þróun allra fjölmiðla, beiti hann sér, en heldur hefir það verið, í daufara lagi, til þessa, enda; ganga öll Skrímsli, sem skaðanum ollu, árið 2008 enn laus, sem tæpast gengi, í öðrum löndum, nær; sem fjær.

Suður í Nígeríu; kom upp Banka skandall stór, Sumarið 2009 - og gáfu stjórnvöld í Lagos forráðamönnum þess Banka, um 1ar viku frest, til þess að koma skikki, á sín mál - ella; biði þeirra grjótvist, þröng og löng.

Man nú ekki; hvernig þar fór, en ég held, að þeim hafi tekist það, að nokkru - þar veitti líka Herinn það aðhald, sem víðast dugir til, að halda hvítflibba stjórnendum, við sinn dont, síðuhafi góður.

Með; fjarri því, lakari kveðjum - en áður, og fyrri /

Óskar Helgi Helgason 

 

Óskar Helgi Helgason 25.8.2011 kl. 20:20

36 Smámynd: Jón Valur Jensson

Er það "þjóðremba", Sæmundur, að vera fylgjandi viðskiptafrelsi?

Er samstaða með EFTA og GATT "þjóðremba"

Er kannski allt "þjóðremba" sem gengur í berhögg við þá stefnu Samfylkingar að koma okkur inn í Evrópusambandið?

Ef það er þitt álit, ertu hér með beðinn að rökstyðja það.

Og hvað, nákvæmlega tiltekið, "finnst" þér "öfgafullt" af því, sem ég hef skrifað um uppeldismál?

Hvað um trúmál?

Hvað um kynferðismál?

Er það þetta þrennt sem gerir mig að "öfgamanni" í þínum augum?

"Margir kalla hann [þ.e. mig, JVJ] öfgamann, hvað sem til er í því," skrifar þú. - En þeir eru ekki margir, Sæmundur, en þeir eru stórmynntir og opinmynntir og hneigðir til þess að brennimerkja náungann, ef hann andmælir þeim og lætur ekki af því að bera vitni um óþægilegan sannleikann, svo sem t.d. um þessa ríkisstjórn okkar og glapræðisverk hennar frá upphafi til enda.

Meira (um Útvarp Sögu) á eftir.

Jón Valur Jensson, 25.8.2011 kl. 21:28

37 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er naumast fjörið hérna. Fyrst ætla ég að reyna að svara Óskari. Samlíkingar þínar á Íslandi og Nígeríu hafa lítil áhrif á mig. Ég veit að RUV lætur ekki skipa sér fyrir verkum í fréttaflutningi. Hef sjálfur unnið árum saman á fjölmiðli (reyndar Stöð 2) og hef talsverða hugmynd um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þar.

Útvarp Saga er ekki bara neikvæð í allri sinni fréttaumfjöllun heldur afar sérhæfð og takmörkuð. RUV reynir að sinna fleiru.

Þegar ég tala um að almenningur hafi haft heilladrjúg áhrif á fjölmiðlun alla á ég ekki einkum við hina hefðbundnu fjölda-fjölmiðla heldur blogg, fésbók og netumfjöllun alla.

Sæmundur Bjarnason, 25.8.2011 kl. 22:45

38 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er hjákátlegt að fordæma eða einfaldlega að alhæfa um Útvarp Sögu á einu bretti. Það eru menn með andstæð sjónarmið -- einnig ykkar Sæmundar og Axels Jóhanns -- rétt eins og andstæðingar þeirra sjónarmiða. Einnig meðal þáttastjórnenda má sjá þetta. Höskuldur, Grétar Mar, Jón Elvar, allt eru þetta ESB-sinnar, og það sama kann að eiga við um Jón Magnússon lögfræðing og Tryggva Agnarsson kollega hans, sem oft eru þar tilkvaddir sem álitsgjafar (auk manna eins og Þorvaldar Gylfasonar), fyrir utan náttúrlega Eirík Stefánsson og Árna Björn Guðjónsson og Þorstein nokkurn (ungan), sem eru þarna sígjammandi um sína ESB-inntökustefnu, og er Eiríkur reyndar þáttarstjórnandi líka.

Ég gerði fyrir fáeinum árum nokkurra vikna lauslega athugun á því, hve margir væru fastir innhringjendur, sem oft töluðu þar (oftar en einu sinni eða tvisvar í viku), og voru þeir þar um 30, en um 20 í viðbót sem sjaldan hringdu og svo fleiri sem létu kannski bara einu sinni til sin heyrast. Síðan þá hefur innhringiþáttum fjölgað (eru nú kl. 9-12 á morgnana og oft kl. 4-5 siðdegis að auki; ennfremur á það iðulega við um ESB-þátt Jóns Baldurs L'Orange og Jóns Elvars Arasonar á fimmtudögum (t.d. í dag).

Útvarp Saga er miðill hins frjálsa orðs og alþýðlegri en aðrir fjölmiðlar. Þetta er e.k. Hyde Park Corner íslenzks almennings. Sumt er gott, annað lakt og allt þar á milli.

Einhæfir alhæfendur gera sjálfum sér grikk með þvi að fullyrða hér það, sem stór hluti þjóðarinnar veit að stenzt ekki.

Og fjarri fer því, Axel, að þáttur minn þar á föstudögum kl. 12.40-13.00 (endurt. kl. 18) hafi verið fenginn mér "til að hann [ég] hætti að einoka innhringitímana," enda hef ég aldrei einokað þá, og það getur heldur enginn; þar að auki hringi ég inn eins og aðrir, ef ég sé ástæðu til og ef ég er ekki að vinna eða vant við látinn.

Sízt dytti mér í hug að spyrja róttæka vinstri menn og ríkisstj´rnarvini álits á því, hvort ég eigi að hringja þar inn í þætti !!!

Jón Valur Jensson, 25.8.2011 kl. 22:51

39 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jón Valur, það er ekki þitt hlutverk að spyrja mig útúr en svara engu sjálfur!!

Við skulum bara láta eins og orðið öfgar sé ekki til fyrst það fer svona illa í þig. Menn leggja líka mismunandi skilning í það og það er ekkert einkennilegt við það að ég sjái öfga þar sem þú sérð þá ekki.

Svipað má segja um þjóðrembu. Þið sem berjist á móti ESB látið samt alltaf (finnst mér) eins og allt sem íslenskt er sé best. Við vitum báðir að svo er ekki.

Andstaða við ESB er ekki stuðningur við EFTA og GATT þó þú reynir að láta líta svo út.

Þú segir að það séu ekki margir sem kalla þig öfgamann, en ég segi og stend enn við að þeir séu margir. Ertu hræddur um að þá hljóti það að vera rétt?  

Sæmundur Bjarnason, 25.8.2011 kl. 22:55

40 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sæmundur, Ríkis(stjórnar)útvarpið er með 3.600.000.000 krónur í skylduskatt frá almenningi og á því að hafa efni á stórri fréttastofu og raunar betri og hlutlægari en þeirri, sem þar er nú. Útvarp Saga hefur ENGAR slíkar tekjur og hefur ekki lengur efni á að vera með fréttastofu. Samt er þjónustan þar við almenning, þ.e. að koma til móts við lýðræðislegan þátttökuvilja fólks til að tala um þjóðmál og heimsins mál og hvað sem fólk vill ræða MARGFÖLD á við þetta pínu-pons sem finna má á Rás 2.

Jón Valur Jensson, 25.8.2011 kl. 22:57

41 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Seinna bréf Jóns Vals sá ég ekki fyrr en ég hafði sent inn svarið við því fyrra. Varðandi Sögu vil ég bara ítreka það sem ég hef áður sagt (t.d. í svari til Óskars). Ég hlusta yfirleitt ekki mikið á útvarp Sögu. Helst innhringiþættina fyrir hádegi, eða hluta af þeim. Mér hefur virst vera mikið um endurtekningar á útvarpi Sögu seinni partinn og á kvöldin.

Það jákvæða við útvarp Sögu er að þar er aðaláherslan á hið talaða orð. Það hefur alveg frá upphafi verið mín skoðun. Mér finnst stöðin þó ganga of langt í því að vera á móti öllu og stjórnendur innhringiþáttanna vera of hægri sinnaða.

Sæmundur Bjarnason, 25.8.2011 kl. 23:04

42 identicon

Komið þið sæl; enn - sem oftar !

Sæmundur !

Rangt; einn ganginn enn, hjá þér. Það eru ekki; alltaf sömu innhringjendur, að Útvarpi Sögu, svo fram komi. Með aukinni dreifingu; efnis þess, með fjölgun endurvarpa, ber svo við, að margt, hins mætasta fólks, bætist við, í raðir þeirra, sem fyrir voru.

Ógetins; hefi ég enn, þáttar Útvarps Sögu, gegn Icesave´s svika samningun um, sem reynt var að troða öfugum, ofan í kok Íslendinga, á sínum tíma.

Hvar; var varðstaða RÚV þá, Sæmundur ?

Kannski bara; óljós tilfinning mín, en mér finnst gæta lítilsvirðingar, í þínum orðum, gagnvart Nígeríumönnum - og þeirri skírskotun, sem ég gaf þangað, hér ofar á þræðinum, Sæmundur.

Eru Nígeríumenn; eitthvað óæðri Íslendingum, í þínum huga ?

Jón Valur !

Þakka þér; margfaldlega, þína upplýsingu varðandi Útavrp Sögu - Sæmundi síðuhafa, sem öðrum, til glöggvunar, nokkurrar.

Með; svipuðum kveðjum, gremjublendnum samt, með tilliti til viðhorfa Sæ mundar, gagnvart fjarlægari þjóðum, að þessu sinni /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason 25.8.2011 kl. 23:15

43 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Óskar, ekki veit ég neitt um sérfræðiþekkingu þína um Nígerísk málefni. Ef þú lest einhverja lítilsvirðingu útúr orðum mínum um Nígeríu þá er það þitt mál. Prófaðu að segja mér einhverja sögu frá öðru landi. Ég er bara ekki trúaður á það sem kallað er "Anecdotal evidence".

Af hverju átti RUV að standa vörð um þinn málstað (og fleiri) í Icesave-málinu?

Sæmundur Bjarnason, 26.8.2011 kl. 00:15

44 identicon

Komið þið sæl, á ný !

Sæmundur !

Öngva; hefi ég sérfræðiþekkinguna upp á að hlaupa, um Nígeríu, en ég tiltók það land, sem dæmi um lágmarks siðferðisvitund, sé miðað við þá orma gryfju, sem á Íslandi ríkir, í þeim efnum.

RÚV; átti að standa vörð, um hagsmuni okkar ALLRA; sem enn búum hér á landi - og ekki hafa hrakist til annarra landa, í Iceave´s málinu - ekki bara, minna hagsmuna, Sæmundur Bjarnason.

Eftir því; sem lengra líður á orðræðu okkar, finnst mér gæta meiri hroka, í minn garð - sem annarra, af þinni hálfu eftir því, sem þú tekur að mæðast, í andsvörum þínum, að minnsta kosti, mér til handa.

Hví; skyldi það nú vera ?

Finnir þú þig; tekinn að ellimæðast, ættir þú bara að taka þér hvíldina, frá snörpum orða sennum, frá mér - sem öðrum, sé viðþol þitt minna, en þú hugðir vera mundu, ágæti drengur.

Með; alveg þokkalegum kveðjum, að þessu sinni - þrátt; fyrir allt /

Óskar Helgi Helgason     

Óskar Helgi Helgason 26.8.2011 kl. 00:54

45 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

RUV átti að gæta hagsmuna allra, segir þú. Þó ekki þeirra sem atkvæði greiddu með Icesave. Eru þeir allir farnir til annarra landa eða hvað? Ég held að þú sjáir sjálfur hve vitlaust það er að halda svona fram.

Það er ímyndun þín að ég sé eitthvað farinn að þreytast á orðaskiptum við þig. Hrokinn er bara í þínu höfði. Mér finnst samt að við gætum vel stytt mál okkar.

Sæmundur Bjarnason, 26.8.2011 kl. 01:34

46 identicon

Mér finnst fyndið að heyra/sjá JVJ tala um lýðræði... hann trúir jú á einræði mest af öllu, allir sem ekki beygja sig undir einræðisguðinn hans verða pyntaðir að eilífu :)

DoctorE 26.8.2011 kl. 12:48

47 identicon

Komið þið sæl; sem fyrr !

Sæmundur !

Um leið; og ég læt lokið umræðunni, af minni hálfu, vildi ég árétta, að RÚV átti, að sjálfsögðu, að gæta samræmis - sem jafnræðis, okkar andstæðinga Icesave - ekki síður, en fylgjenda reikninga hrúgu, þeirrar.

Svo; fram komi, til fyrirbyggingar misskilnings, nokkurs.

Og; DoctorE !

Ætíð; velkominn á síðu mína, til frekara skrafs, hafir þú tóm til, ágæti drengur.

Með kveðjum þeim; sem fyrri /  

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason 26.8.2011 kl. 12:57

48 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nú, í gær átti RUV að styðja annan málstaðinn skildist mér. Núna báða virðist mér helst á skrifum þínum. Ég vil líka gjarnan ljúka þessu. Ég hef ekkert á móti Doktore, en eins og þú segir Óskar þá væri réttara hjá honum að skrifa á þína síðu ef hann vill tala við þig. Sennilega er hann ekki velkominn á síðu JVJ frekar en sumir aðrir. 

Sæmundur Bjarnason, 26.8.2011 kl. 13:42

49 Smámynd: Jón Valur Jensson

Því fer fjarri, Sæmundur, að allt sem íslenzkt er sé bezt. Það á ekki við um teið sem ég drekk, ekki heldur gæði menntunar hér á landi (sbr. alla grasserandi fáfræðina um ýmis mál -- og sbr. einnig lélega útkomu á samanburði á okkur við þjóðir eins og Finna eða Japani), og ótal margt gætum við talið upp, að sjálfsögðu, ekki sízt á tæknisviði, þar standa t.d. Bandaríkin og Þýzkaland miklu framar okkur. Og ekki veit ég hver kom því inn í höfuðið á þér að kúpla þessari fáránlegu hugmynd (að allt sem íslenzkt er sé bezt) saman við afstöðu þeirra sem eru andvígir því að láta innlima okkur í Evrópusambandið. Svona grobbhugsun kemur ekki rökstuddri afstöðu gegn ESB-innlimun hætishót við.

Jón Valur Jensson, 26.8.2011 kl. 19:57

50 Smámynd: Jón Valur Jensson

Rúvið tók leynt og ljóst afstöðu með stjórnvöldum hér í Icesave-málinu, ekki með þeim meirihluta þjóðarinnar sem HAFNAÐI Icesave. Rúvarar, bleikir og rauðir, handvöldu menn inn í umræðuþætti, og strax í upphafi seinasta skeiðs málsins, frá því að Icesave-III-samningarnir voru tilbúnir í öndverðum desember 2010, hófst mikil áróðursherferð á Rúv, með langri röð Icesave-sinnaðra álitsgjafa og hagsmunaaðila í mörgum fréttatímum Rúv og með rammhlutdrægum fréttum og "fréttaskýringum" Rúv af málunum -- Rúvarar fölsuðu t.d. álit InDefence á málinu o.s.frv. og hélt því fram, að þetta væri "miklu betri" (sic) samningur en Icesave I+II.

Og þú talar hér, Sæmundur, eins og einhver þörf hafi verið á því að halda uppi hlut Icesave-sinna, rétt eins og hinir (menn eins og við Óskar Helgi, Axel Þór o.fl. -- já, InDefence, Þjóðarheiður, Samstaða þjóðar gegn Icesave og AdvIce-hópurinn) hafi fengið að segja mikið á Rúvinu!!!

Rúv stóð með spilltri stjórnmálastétt og lagði þeirri afstöðu lið, að íslenzka þjóðin ætti að borga ólögvarða lygakröfu! Það væri okkur óbærilegt að borga nú 40 milljarða á ári, og þetta sömdu þeir upp á, þeir sem Rúv fylgdi frá A til Ö, og jafnvel Gylfi Arnbjörnsson í ASÍ tók þátt i þessari nýju tegund af Bretavinnu ...

Ríkisstjórnarútvarpið virðist því eðlilegt uppnefni á stofnuninni nú um stundir.

Jón Valur Jensson, 26.8.2011 kl. 20:18

51 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jæja, ég tek nú samt RUV fram yfir JVJ.

Sæmundur Bjarnason, 26.8.2011 kl. 20:55

52 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ekki voru það mín orð, Sæmundr, að í mér væri meira andlegt capacitet en í starfsliði Rúv, sem er annaðhvort á 5. eða 6. hundraðið! Vitaskuld eru þar margir hæfileikamenn, en Fréttastofa Rúv er EKKI hlutlaus og EKKI óhlutdræg, heldur höll undir slöppustu ríkisstjórn í sögu lýðveldisins.

Jón Valur Jensson, 26.8.2011 kl. 21:09

53 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það eru þín orð þetta um ríkisstjórnina. Mér finnst hún ekkert verri en aðrar. Annars hef ég það á tilfinningunni að þú sért að misnota bloggið mitt, en ég ætla mér að hafa síðasta orðið hér.

Sæmundur Bjarnason, 26.8.2011 kl. 21:53

54 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Það er óhjákvæmilegur fylgifiskur hlutlauss fréttaflutnings RUV að öfgarnar beggja vegna telja á sér brotið. Aðeins hreinn og klár áróður í anda Jóns Vals teljast að hans mati  hlutlausar "fréttir".

Til marks um princíperað jafnvægið fullyrðir, réttlætispostulinn Jón Valur, að á útvarpi Sögu ríki princíperuð jafnaðarmennska allra skoðana. Ekkert er fjarri sanni þó nefna megi einhver dæmi þess að ekki ríki þar alger skoðana einstefna.  

Það er spurning hvort jafna mætti ekki meintan hlutleysishalla á RUV með  vikulegri og hálftímalangri  messu Jóns Vals til að ná samskonar "jöfnuði" og á  útvarpi Sögu. Ég veit það svo gjörla, en hitt veit ég að það fækkaði hlustendum RUV eitthvað.

Úr því að Jonni er til umræðu og hann neitaði því að hafa einokað innhringi þætti Sögu, þá hlustaði ég á Sögu í morgun, þar var endurfluttur þáttur með Arnþrúði.

Hringir þar ekki inn Jón Valur, andstuttur að venju, og fer mikinn. Eftir drjúgan tíma reyndi Arnþrúður hvað hún gat að stoppa í honum vaðalinn. Hún minnti hann á hann ætti sinn þátt á stöðinni og gæti komið því sem honum lægi á hjarta á framfæri þar.  Jonni boy hélt sínu striki óð áfram og þau kölluðust á um tíma. Það var ekki fyrr en Jonni hafði lokið máli sínu sem hann gaf eftir og hvarf úr símanum.

Hvað hann ætlaði að segja fór fyrir ofan garð og neðan meðan hjúin hrópuðust á, en það skipti Jonna engu. Honum var fróað, hann heyri sína eigin rödd í útvarpi.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 26.8.2011 kl. 22:40

55 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

..... Ég veit það ekki svo gjörla,... átti þetta að vera.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 26.8.2011 kl. 22:44

56 identicon

"[...]einnig lélega útkomu á samanburði á okkur við þjóðir eins og Finna eða Japani), og ótal margt gætum við talið upp, að sjálfsögðu, ekki sízt á tæknisviði, þar standa t.d. Bandaríkin og Þýzkaland" - JVJ Kl. 19:57

En Jón Valur. Skv. þínum margyfirlýstu skoðunum er ekki til neitt þýskt eða finnskt. Þetta eru "innlimuð" héröð í vonda, vonda Evrópusambandsríkinu. Þú ert s.s. þarna að tala um japanska og ESBska menntun annars vegar og bandaríska og ESBska tækniþekkingu hins vegar kjánakollurinn þinn.

Páll 26.8.2011 kl. 23:23

57 Smámynd: Guðmundur Júlíusson

Ekki skal ég draga í dilka hér, útvarp Saga er eitt, Bylgjan annað og Rúv svo enn eitt, en þegar að menn ætla að rífast um hvort sé best, þá er komin  tími til þess að leggja sig!!

Mér hefur fundist aðdáunarvert hvernig Arnþrúði hefur tekist að  koma þessari stöð á laggirnar ein síns liðs, og það er þar af leiðandi akkúrat ekkert athugarvert að því þó að hún sé hlutdræg í sinni eiginn framleiðslu, ekki hef ég séð að það sé mannskemmandi!

Hvað varðar árásir ykkar á  Jón Val og hans viðhorf, tel ég að þú Sæmundur ásamt fleirum hér, Axel Jóhann, séuð að grafa í sandinn án þess að kanna undirlagið!!!

Ef þið eruð þverskurður af þjóðfélaginu, þá bið ég Guð um að hjálpa okkur!

Guðmundur Júlíusson, 26.8.2011 kl. 23:48

58 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Guðmundur þeir eru ekki þverskurður af þjóðfélaginu sem betur fer.  Ef ég einhvertíman hef haft álit á síðuhöfundi þá er það hér með farið.  fannst hann skemmtilegur og saklaus, en þessi þráður hefur sýnt mér að hann er eins og gamalt naut, því miður fastur í forinni og verður bara að fá að vera þar.   Hins vegar er ég ekki að bera í bætifláka fyrir Jón Val læt mitt álit þar liggja milli hluta.

En ætli ég láti þessu ekki lokið hér með og kveð hér með. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.8.2011 kl. 00:00

59 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

  "Ef ég einhvertíman hef haft álit á síðuhöfundi þá er það hér með farið. fannst hann skemmtilegur og saklaus, en þessi þráður hefur sýnt mér að hann er eins og gamalt naut, því miður fastur í forinni og verður bara að fá að vera þar."

Svonalagað finnst mér ekki samboðið þér, Ásthildur. Ber ég þá ábyrgð á öllu sem sagt er hér? Ef einhver lætur eins og gamalt naut hér þá er það JVJ. Það finnurðu raunar sjálf, en lætur samt svona. En þú segist vera hætt og feginn er ég.

Guðmundur Júlíusson ákallar guð og biður hann að hjálpa sér. Hann er víst í liðinu hans JVJ og gerir það eflaust ef hann má vera að.

Annars er ég hissa á að enn skuli rifist hér. Lít hingað öðru hvoru og sé að enn hópast menn hingað til að skrifa um RUV. Ef RUV færi að fara að öllu eins og JVJ vil þá væri illa fyrir því komið. En áróður hans og annarra af svipuðu sauðahúsi virðist vera farinn að hafa áhrif á ístöðulitla unglinga eins og SDG og Bjarna Ben.

Sæmundur Bjarnason, 27.8.2011 kl. 01:19

60 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ásthildur, hann Sæmundur er nú alveg hátíð hjá sumum róttækari.

Páll minn, æstu þig bara, þú hefur gott af því, en þetta er marklaust.

Aldrei fullyrti ég, að eitthvert gullið jafnvægi ríkti jafnan á Útvarpi Sögu -- né að hún væri merkisberi jafnaðarmennskunnar. Hitt er staðreynd, að þar eru jafnvel Evrópusambandssinnar gasprandi og m.a.s. allt of margir! Þar eru bæði verjendur Sjálfstæðisflokksins og þeir sem gera árásir á hann; þar er allt pólitíska litrófið, enda geta allir hringt inn; og já, ég játa það, að einstölu sinnum heyrast þar öfgar, þótt ekki taki ég undir neitt af því tagi.

Og rétt er það hjá Guðmundi, að Arnþrúður má alveg taka sína afstöðu, rétt eins og Pétur Gunnlaugsson, þeim á að vera það alveg frjálst, en um leið bjóða þau upp á það, að láti þau eitthvað hæpið út úr sér, getur hver sem er leiðrétt þau í beinni. Þau eru því ekki að messa athugasemdalaust yfir neinum, þetta er ekki huglaust fólk eins og sumir pistlahöfundar á Rúvinu, sem fá að tala truflunar til þjóðarinnar, en enginn kemst til þess að svara þeim nema kannski löngu seinna í 20-30 sekúndna innskoti í innhringitíma sem fjallar yfirleitt um allt önnur mál.

Axel Jóhann, henni Arnþrúði varð nú á í þessum þætti sem þú minntist á; ég var að tala þarna um brýnt mál, og ég veit ekki betur en Eiríkur Stefánsson (ESB-samherji Sæmundar) sé talandi þarna í innhringiþáttum nánast daglega, ef ekki tvisvar suma dagana, en ég hef ekki aðstöðu til þess yfirleitt, vegna vinnu minnar, og hef ég t.d. síðustu mánuði hringt svona að jafnaði inn einu sinni til tvisvar í viku (t.d. ekkert í þessari viku). Margir kunna mjög vel að meta mínar ábendingar í símtölunum, og þótt ég hafi 20 mín. þátt á föstudögum (ekki sérhvern þó í sumar), er það engin afsökun fyrir þig til að vera hér með þrýsting á mig, enda virði ég hann einskis og bendi þér á, að Eiíkur er líka með vikulegan þátt auk sinna hringinga.

PS. Axel, þú ert að fara hliðargötu með þessum aðfinnslum þínum -- getur síður rætt málefnin, líkar illa við, að rökstuddar skoðanir mínar fái að heyrast, og reynir því þetta.

Jón Valur Jensson, 27.8.2011 kl. 02:43

61 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gleymdi að lesa yfir!

Þarna átti t.d. að standa: ... fá að tala truflunarlaust til þjóðarinnar ...

Jón Valur Jensson, 27.8.2011 kl. 02:46

62 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Jón Valur, ég ber enga ábyrgð á Eiríki Stefánssyni, hans málflutningi, pistlum eða innhringingum. Ég sé ekki hvernig það bætir þína stöðu þó þú getir bennt á að Eiríkur sé líka dóni.

En skondið er að sjá þig kalla það mistök hjá Arnþrúði þegar hún reyndi árangurslaust að ritstýra sjálf sínum þætti þegar þú reyndir að taka af henni þáttastjórnina til að geta talað truflunarlaust til þjóðarinnar! (á maður ekki að bukta sig fyrir svona háborinnheitum?)

Ef Arnþrúður hefði notað á þig sömu meðul Jón Valur, og þú beitir við ritstjórn á þínu bloggi, væri núna lokað á þig fyrir fullt og fast á Sögu. Já sennilega eru það mistökin sem þú talar um.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 27.8.2011 kl. 13:20

63 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þín orð um meintan dónaskap eru þín, Axel, órökstudd og dónaleg, sýnist mér.

Rangt er hjá þér, að ég hafi viljað "tala truflunarlaust til þjóðarinnar" í símtalinu við Arnþrúði, ég kann vel að meta rökræður í simanum, hafi ekkert á móti því, að hún svaraði mér um málefnið, en þetta gekk ekki út á það, heldur hitt, að hún vildi ekki að ég fengi að ræða málið í þetta sinn, af því að ég sé þar með vikulega þætti. Þetta voru óeiginleg "rök" að mínu mati.

Annars tel ég Arnþrúði meðal minna góðu vina og kunningja og ekki síður Pétur Gunnlaugsson, þótt við séum ósammála um stjórnlagaóráðið hennar Jóhönnu og Össurar.

Það er fjöldi manns, sem andmælir mér á bloggi mínu, m.a. í stjórnlagaóráðs- og ESB-málum, enda eðlilegt, að tekizt sé á um hugmyndir. En guðlast leyfi ég þar ekki, það er rétt, og hef lokað á þá skæðustu í slíku og öðru níði.

Jón Valur Jensson, 27.8.2011 kl. 15:30

64 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Jón Valur. Þú lokar á marga en ég loka ekki á neinn. En þegar athugasemdir eru komnar út í karp milli annarra um málefni sem tengist bara lauslega því sem verið var að ræða um finnst mér nóg komið. Þú misnotar þetta blogg og ert með ritræpu.

Sæmundur Bjarnason, 27.8.2011 kl. 17:27

65 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég þakka innvirðulega, Sæmundur minn, og njóttu kvöldsins.

Jón Valur Jensson, 27.8.2011 kl. 21:28

66 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ekkert að þakka, en mig minnir endilega að ég hafi sagst ætla að eiga síðasta orðið hér.

Sæmundur Bjarnason, 27.8.2011 kl. 22:42

67 Smámynd: Guðmundur Júlíusson

Nú er orðið "allt of seint"

nánast orðið kvöld

kveð ég hér með hreint og beint

kátur hér við völd ! 

Guðmundur Júlíusson, 28.8.2011 kl. 02:44

68 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Liðið er nú langt á kveld.
Ljóðstafirnir fóru.
Andagiftin ofurseld
endarími stóru.

Sæmundur Bjarnason, 28.8.2011 kl. 07:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband