30.6.2011 | 00:11
1407 - Kvótinn og Efnahagsbandalagið
Gamla myndin.
Hér er Hveramörkin í Hveragerði. Þessu útsýni man ég vel eftir. Jú, jú pollarnir, mölin og gangstéttarleysið er fremur óhrjálegt, en svona var þetta bara.
Kvótinn og Efnahagsbandalagið eru mál málanna í stjórnmálarifrildi dagsins. A.m.k. meðan ekki kemur neitt ákveðið og áþreifanlegt frá stjórnlagaráði. Um þessi mál má rökræða fram og aftur. Sú umræða sem einkum fer fram núna er í upphrópanastíl og lítið á henni að græða. Andstæðingar ESB og vinir kvótans hafa hátt. Oft er þetta sama fólkið en alls ekki alltaf.
Ég hef ekki þekkingu til að tala um kvótamál. Hef aldrei verið sjómaður. Heldur ekki fengist neitt við útgerð eða fiskvinnslu af nokkru tagi. Hinsvegar hef ég fylgst með ESB lengi og tel mig þekkja sæmilega þau mál sem þar eru aðallega til umræðu. Einkum þó af fréttum og allskyns áróðri en lítið af eigin raun.
Ég get ekki að því gert að ég er þeirrar skoðunar að eðlilegt sé fyrir okkur Íslendinga að gerast aðilar að ESB. Undanfarið hefur mér fundist áróður andstæðinga bandalagsins mun háværari en hinna. Einnig hafa þeir haft meirihluta í hverri skoðanakönnuninni eftir aðra. Ég held að með öllum þeim hamagangi hafi þeir ofgert sjálfum sér á röngum tíma. Það er ekki líklegt að æsingur og gauragangur ráði úrslitum varðandi mögulega aðild.
Þjóðaratkvæðagreiðsla verður örugglega um þetta mál. Eitt af því sem andstæðingar ESB hafa haldið fram er að alls ekki sé víst að svo verði. Sú kenning þeirra á vafalaust eftir að springa illilega í andlitið á þeim eins og margar fleiri. Að hugsanlegt sé að landbúnaðurinn og útgerðin fari illa útúr aðildinni eða þar verði a.m.k. miklar breytingar er alls engin röksemd fyrir því að gerast ekki aðili. Eina marktæka röksemdin fyrir slíku er sú að framtíðarþróun ESB komi ekki til með að henta okkur Íslendingum.
Á sama hátt er það auðvitað eina gilda röksemdin fyrir ESB-aðild að framtíðarþróun bandalagsins sé hentug okkur Íslendingum. Slíkt getur einungis byggst á því að kynna sér málin eða taka mark á og trúa þeim sem það hafa gert. Engin leið er fyrir hvern einstakan að kynna sér nægilega öll þau mál sem aðild snerta. Alls ekki er hægt að reikna út peningalega hvort hagstæðari sé aðild eða ekki aðild. Samkomulag, um hvað telja beri með og hvernig skuli meta það, næst aldrei. Lagatæknileg rök eru nákvæmlega það sem þau virðast vera. Bölvuð þvæla.
Þetta er nú orðið langt mál um lítið (eða stórt) efni og tími til kominn að snúa sér að öðru.
Ég neita að gera bloggið mitt að sérstöku stjórnmála- trúmála- kynferðisafbrota- veðurfars- eða fræga fólksbloggi. Miklu fremur á þetta að vera allsherjarblogg. Þetta segi ég eftir að vera nýbúinn að predika ESB-pólitík linnulítið í þessu bloggi. Já, en ef allt er lagt saman þá minnist ég á margt fleira. Með daglegu bloggi er líka erfitt að komast hjá því að minnast á ESB.
Ég veit ekki til að ég hafi snúið nokkrum með þessu ESB-þvaðri mínu. Sé svo þá er það mestmegnis óvart. Mér er alveg sama hvort lesendur mínir eru mér sammála eða ekki.
Ég hef fylgst nokkuð með ritdeilu Hörpu Hreinsdóttur og Gunnlaugs Haraldssonar um verkið Sögu Akraness sem út komu nýlega tvö bindi af. Harpa hefur gagnrýnt tilurð þessa verks á ýmsan hátt, en Gunnlaugur, bæjarstjórn Akraness, ritnefnd verksins og fleiri hafa reynt að svara þeirri gagnrýni. Ég hef fengið að láni seinna bindi verksins á Bókasafni Kópavogs og flett því nokkuð og sýnt öðrum.
Það sem eftir situr hjá mér sem ósérfróðum aðila að öllu leyti er það að ritið er of stórt og alltof dýrt. Fagmennskuna má deila um auk annars en ekki er við því að búast að bæjarstjórn og ritnefnd snúi allt í einu við blaðinu og fordæmi verkið. Tvennt er það sem vantar. Dómar fagmanna og svo er eftir að vita hve útbreitt og vinsælt verkið verður. Bækur af þessu tagi eiga auðvitað fremur heima á Internetinu en að verið sé að prenta þær út. Á margan hátt er efnið orðið úrelt löngu áður en það kemur út.
Kannski skrifa ég á morgun um Exeter-dóminn. Mér veitir ekki af að melta þessi ósköp.
Fíflar að flaðra upp um sólina.
Athugasemdir
Ég myndi nú ekki beint kalla þetta ritdeilu, frekar leðjuslag. Og nú nenni ég ekki að leika meir við strákana í svoleiðis.
Var að klára að skrifa Sögu Sögu Akraness (munurinn á mér og Gunnlaugi er t.d. sá að ég klára verkin mín). Og ég trúi ekki öðru en Gunnlaugur verði ljómandi ánægður með þá spá sem ég birti í lok lokafærslunnar.
Harpa Hreinsdóttir 30.6.2011 kl. 00:49
Mér finnst þú hafa gert það sem þurfti að gera. Það sem ég held að sitji eftir hjá fólki er það að allt of miklum peningum hefur verið hent í þetta. Dæmigerð sjálftaka. Mér finnst að Akurnesingar standi í þakkarskuld við þig. Það þarf að benda á þetta þegar næstu bæjarstjórnarkosningar fara að nálgast. Svona lagað á alls ekki að líðast.
Sæmundur Bjarnason, 30.6.2011 kl. 07:23
Heyrðu Sæmundur. Er eðlilegt að gefa sjálfstæði sitt öðru landi. Væri eðlilegt að bandaríki norður Ameríka gengust undir ESB. væri eðlilegt að Noregur gengist undir ESB. Væri eðlilegt að Grænland Gengist undir ESB. Var eðlilegt að Írland gaf sjálfstæði sitt í hendur ESB og Bretland á sínum tíma án þess að fólk réði ríkjum.
Heimska og aftur heimska. Við höfum 197 lönd til að selja okkar afurðir án þess að þau lönd komi til með að setja fleiri lög á okkur. Það eru aðeins ein stétt sem mun gera það gott en það eru opinberir aðilar,menntafólk/málafólk og Lögfræðingar. Þeir munu hafa nóg að gera.
Valdimar Samúelsson, 30.6.2011 kl. 08:04
Valdimar, mér finnst þú vaða svolítið um í villu og svíma. Skoðanir okkar á sjálfstæði og ýmsu fleiru eru greinilega ekki eins. Lögfræði og önnur menntun er ekki af hinu illa eins og mér finnst þú vera að boða. Annars er þetta mál allt yfirgripsmeira en svo að hægt sé að afgreiða það í stuttu máli.
Sæmundur Bjarnason, 30.6.2011 kl. 09:13
Ég hef ekki komið auga á nokkurn kost við að ganga í ESB. En mér finnst Valdimar hér að ofan rása um hagann eins og tannlaus belja án þess að grípa nokkurs staðar niður. Skil bara ekki hót hvað hann er að vaða. Ég skil þó hvað þú ert að segja, Sæmundur, þó ég sé öngan veginn sammála þér í ESB umræðunni.
Sigurður Hreiðar, 30.6.2011 kl. 11:12
Sigurður, ég skil það vel að ekki séu allir sammála um aðild að ESB. Það sem einkum er deilt um núna finnst mér vera hvort hætta skuli viðræðum eða ekki. Mér finnst það heimska úr því verið var að byrja á þeim. Atkvæðagreiðsla um það hvort hefja bæri viðræður fannst mér alveg koma til greina á sínum tíma. Svo var þó ekki gert. Ef til greina kemur að ganga í ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu er ég alfarið á móti því.
Sæmundur Bjarnason, 30.6.2011 kl. 11:28
Sæmundur Allsherjar.. ESB er málið, þeir sem ekki sjá það eru forpokaðir sjálfselskupúkar og afturhaldssinnar.. :)
Óskar Þorkelsson, 30.6.2011 kl. 12:08
Mér þykir Óskar hrista pilsin!
Sigurður Hreiðar, 30.6.2011 kl. 12:38
Man eftir einhverjum vísum um gömlu vetrarmánuðina. Þar var talað um að Góa væri á éljapilsi síðu. Datt það bara í hug í framhaldi af því sem Sigurður skrifar.
Óskar, til þess að ná árangri í ESB-áróðri þarf líka að tala við forpokaða sjálfselskupúka. Jafnvel endurskoðunarsinna!! :)
Sæmundur Bjarnason, 30.6.2011 kl. 12:59
Sæll Sæmundur! Það er rétt við andstæðingar aðildar,höfum haft betur í hverri skoðanakönnun eftir aðra. Ríkisútvarpi allra landsmanna ber að flytja þær frettir,rétt eins og aðrar,en gerir það ekki. Það ásamt öðrum þöggunum,veldur okkur gremju. Þannig er mér innanbrjósts,þegar ég skynja þær rótæku breytingar,sem verða ef við göngum þarna inn. Nóg var nú að upplifa höggið af kreppunni. Kveðja.
Helga Kristjánsdóttir, 30.6.2011 kl. 22:14
Ég vísa bara í það sem ég hef sagt áður hér í kommentunum. Ágreiningurinn nú er einkum sá hvort hætta skuli viðræðunum. Mér finnst svo ekki vera. Um RUV vil ég sem minnst fullyrða en bendi á að ég minnist á það fyrirbrigði í blogginu sem ég set upp á eftir. Margir vilja stjórna fréttaflutningi þar. M.a. ég. En auðvitað finnst starfsfólkinu þar ekki svo.
Sæmundur Bjarnason, 30.6.2011 kl. 22:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.