1308 - Lögbannsmálið, Icesave og fleira

Lögbannsmálið gæti sem hægast verið nýtt níumenningamál. Þó DV beiti um sumt óhefðbundnum aðferðum og mistakist jafnvel oft, er því ekki að leyna að þeir hafa stundum rétt fyrir sér. Ef um er að ræða anga af þeirri leyndarhyggju sem oft ræður alltof miklu hér á landi ber auðvitað að styðja DV í þessu máli. Þetta gæti fljótlega orðið að stórmáli því ef Landsbankamenn og sýslumaður gefa sig ekki gæti sjálft embættismannavaldið verið í hættu.

Þó sýslumanni takist að fá dómara til liðs við sig er ekki þar með sagt að málið sé unnið. Að mörgu leyti er þetta mál eins vaxið og Wikileaks-málið. Ef fjölmiðlar láta kúga sig til að gefa upp heimildarmenn er sjálfstæði þeirra í voða. Auk þess er ekki með nokkru móti hægt á tímum netsins að halda uppi því sem sýslumaður vill.

Moggabloggarinn Lúðvík Júlíusson hefur skrifað mikið um Icesave-málið. Er já-maður eins og ég og hefur allar tölur á hreinu. Sjálfur nenni ég ekki að setja mig nákvæmlega inn í þessháttar. Sumir vilja þó eflaust vita meira um þessi mál. Þessvegna linkurinn.

Að mörgu leyti er það að krefjast þess að kjósendur segi nei við Icesave meira en bara lögfræðilegt spursmál. Það er ekki síður pólitískt. Með því að umbylta því hagkerfi sem komið hefur verið á er líka verið að krefjast mikilla breytinga á þjóðskipulaginu öllu.

Hagkerfið er nátengt bankakerfinu. Með því að afneita þeirri þrautavaraleið sem ríkisábyrgð auðvitað felur í sér er verið að fara fram á umbyltingu hagkerfisins alls. Þessu þurfa þeir hægrisinnar sem sumir kalla öfgafulla að gera sér grein fyrir. Annars er ekki hægt að álíta annað en að þeir vilji valda sem mestum glundroða. Kommúnistar vilja auðvitað byltingu og alræði öreiganna eins og var í ráðstjórnarríkjunum sálugu.

Þetta er líka sanngirnismál að því leyti að þeir útlendingar sem trúðu íslenskum bönkum í góðri trú fyrir sparifé sínu eru ekkert verra fólk en Íslendingar.

Atli féll á eigin bragði
Arnþór segir Helgason

Þetta gæti næstum verið upphaf á vísu. Las blogg Arnþórs um Atlamáið og það sem ég hef um þetta að segja gæti allt eins verið athugasemd á hans bloggi. Ég er bara svo eigingjarn að mér finnst að maður eigi að búa að sínu þegar maður er atvinnulaus og einskis nýtur.

Það er löng hefð fyrir því á alþingi að menn haldi sig áfram þar þó skilið sé við þingflokk eða gengið í nýjan. Þetta er bara svona. Það er ekki hægt að berjast gegn flokksræði í öðru orðinu en segja í hinu að flokkarnir eigi öllu að ráða.

Hvort eru draumar hugarástand eða upplifun? Það er spurningin. Þegar mig dreymir (eða man eftir draumunum) þá finnst mér það sem gerist vera að jafnmiklu leyti hugarástand eins og eitthvað annað. Það í hvernig skapi ég er, hvað mér finnst um það sem á sér stað o.s.frv. er eins mikill hluti af draumnum eins og það sem gerist. Upplifun annarra er ugglaust önnur.

Taldi fram til skatts um daginn. Held ég hafi aldrei verið svona tímanlega í því. Nýtti ekki einu sinni heimild til framlengingar. Jánkaði reyndar öllu sem beint var til mín. Mikil guðsblessun eru þessi rafrænu skattskil. Nú þarf maður engar áhyggjur af þessu að hafa. Áður fyrr þurfti maður þess oftast nær. Gerði það a.m.k.

IMG 4983Horft til hliðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Árið 2007 sagði Sigurjón Árnason þáverandi bankastjóri Landsbankans að Ice Save reikningarnir væru "algjör snilld" Þegar hann var inntur eftir því af hverju við íslendingar fengjum ekki að njóta góðs af þessari frábæru snilld, var svarið á þá leið að þessir reikningar væru EKKI fyrir íslendinga því bankaútibúið í Englandi væri ekkert tengt því íslenska. Semsagt, þessir reikningar voru og hafa aldrei verið fyrir Íslendinga og enginn á Íslandi gat fengið að taka þátt í þessari frábæru snilld. Græðgin í þessa ofurvexti varð þessu fólki að falli og ef eitthvað er of gott til að vera satt þá er það næstum því öruggt að það er eitthvað að. Bretar og Hollendingar hafa í hundruðir ára verið nýlenduherrar og kunna alveg að taka svona aula eins og Íslendinga í bakaríðið.   Ég sá ekki samninganefndina með beina útsendingu í seinustu viku þegar Nikkei vísitalan féll um 11% og IceSave hækkaði um 60 milljarða og  það bara á einni nóttu. Og það eru fleiri nætur eftir. Hér höfum við aldrei búið við stöðugt gengi og það kemur ekkert til með að breytast, þannig að allt tal um einhverjar litlar upphæðir er bara fáránlegt og það ættir þú nú að vita Sæmundur ef þú rifjar nú aðeins upp örfá ár til baka. Hér eigum við að bíða með þessa samþykkt uns liggur fyrir hvort neyðarlögin haldi. Það eru ansi mikla líkur á því að þau falli og þá munum við fá á okkur 1200 milljarða í hausin. Ástæðan fyrir þessum hraða er alveg augljós fyrir þá sem það vilja sjá. Bretar og Hollendigar vildu ekki fá eingreiðslu uppá 49 milljarða. Af hverju. Jú, þeir eu með þá færustu lögfræðinga í fullri vinnu að fá þessum lögum hnekkt. Verði þeim hnekkt og við búin að samþykkja, verður ekki búandi á þessu landi næstu 35 árin takk fyrir. Ef lánshæfimat Íslendinga er við ruslflokk núna, þá verður það ekkert af þetta kæmi til. Hér myndu þeir sem ennþá geta farið, farið og enn og aftur sætu Íslendingar í nauð, sem tók okkur mörg ár að komast út úr. Meira að segja Færeyingjar eru ekki búinir ennþá eftir 25 ár að ná sama fólksfölda og eftir hrunið þar. Þeir hafa varað okkur við að fara þessa ógæfuleið, en eins og venjulega, þá ætlum við að fara að finna upp hjólið að nýju.

Kveðja.

Sigurður Kristján Hjaltested, 24.3.2011 kl. 09:45

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ef þú heldur Sigurður að það sem þú skrifar hér sé allt sem um þetta mál er að segja þá er það misskilningur. Margt af því sem þú segir í þessu skrifi þínu álít ég vera rangt. Heimurinn stendur ekki og fellur með þessari Icesave-vitleysu. Við erum bara ósammála um þetta atriði og lítið við því að segja.

Kveðja.

Sæmundur Bjarnason, 24.3.2011 kl. 09:59

3 identicon

Það þarf mörg orð að verja rangan málstað. Ég vorkenni samt ekki óláns nei-liðinu.
Ég þekki nokkra nei-menn og eru 4 af þeim óreiðu menn í fjármálum.  Ekki húsum hæfir.

Ólafur Sveinsson 24.3.2011 kl. 12:03

4 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Það er enginn að segja að allir geti verið sammála. En eigum við semsagt ekkert að læra af þeim þjóðum sem hafa farið í gegnum samskonar ófarir. Það voru bankar og útgerðarmenn sem komu Færeyingum á kaldan klaka og þeir tóku ranga ákvörðun með því að verja fjármálkerfið en ekki heimilin. 25 ár liðin og þeir ekki ennþá búnir að ná sama styrk. Sjáið Írland, Girkkland og núna Portúgal. Þetta er ekkert gæfulegt úr því regluverkið er svona brenglað að í hvert skipti sem eitthvða gerist þá bitnar það á almennum borgurum. Svo langar mig að benda Ólafi á að allt þetta IceSafe klúður er tilkomið vegna óreiðumanna í fjármálum, ekki almenning eða okkar börnum. Ég þekki líka nokkra Já menn sem eru með allt niður um sig og heldur ekki húsum hæfir.

Kveðja.

Sigurður Kristján Hjaltested, 24.3.2011 kl. 12:18

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þessi köttur er ansi valdsmannslegur eða valdskattslegur og ætti að vera sýslumaður.

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.3.2011 kl. 12:23

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sýsluköttur ætlaði ég að segja.

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.3.2011 kl. 12:23

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk allir fyrir þessar athugasemdir. Ég er ekki sammála Sigurði Kristjáni um að líkja ástandinu hér sífellt við Færeyjar. Aðstæður eru bara allt aðrar hér og ólíku saman að jafna. Sama er að segja um Grikkland, Írland og Portúgal. Svona samlíkingar rugla bara í stað þess að upplýsa.

Sigurði Þór er ég hinsvegar alveg sammála varðandi köttinn. Lísa er ansi valdskattarleg þegar hún vill það við hafa.

Sæmundur Bjarnason, 24.3.2011 kl. 13:47

8 identicon

Sæmundur hin góði. Ég vil benda þér á svona í gamni að bloggarnir og bræðurnir Lúðvík Júlíusson og Stefán Júlíusson eru bræður Katrínar ráðherra Júlíusdóttur. Þessir bræður komu núna inná bloggið fyrir nokkrum vikum síðan og það má alveg sjá tilgang þeirra innkomu enda er það auðséð. Já Sæmundur hin góði,þú ert svo góður að koma skuldum óþokka á afkomendur þína og þig hlakkar til það má lesa í pistlum þínum undanfarið,,,,,,bless Sæmundur fyrrverandi verslunarmaður að Vegamótum,og núverandi dreifari fyrir því að þjóð sín eigi að borga skuldir óþokkagengis.

Númi 24.3.2011 kl. 18:10

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Númi minn. Verst að ég veit ekkert hver þú ert.

Sæmundur Bjarnason, 24.3.2011 kl. 20:47

10 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ég verð nú aðeins að leiðrétta Núma um Lúðvík og Stefán þótt ég sé nánast aldrei sammála þeim mönnum frekar en systur þeirra.  Báðir hafa þeir bloggað hérna á moggablogginu í það minnsta svipað lengi og ég, sem er komið yfir tvö ár.

En þeir eru sjálfum sér samkvæmir og hafa talað fyrir öllum Icesave-samningunum og eru jafnframt mjög hlynntir aðild að ESB.  Þetta virðast vera þau tvö mál sem þeir skrifa mest um af því sem ég hef séð, en ég er ekki reglulegur lesandi þeirra.

Axel Þór Kolbeinsson, 25.3.2011 kl. 09:37

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Axel. Ég er ekki heldur reglulegur lesandi þeirra. Reyndar fer þeim sífækkandi þeim bloggum sem ég les reglulega. Lít samt alltaf lauslega á blogg-gáttina á hverju kvöldi.

Sæmundur Bjarnason, 25.3.2011 kl. 18:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband