1192 - Tunnuslagur

Almenn mótmæli og tunnusláttur kemur því aðeins að tilætluðum notum fyrir mótmælendur að þeir sameinist um eitthvert eitt málefni. Vissulega hefur hópur manna sem hefur í frammi mikinn hávaða talsverð áhrif. Ef kröfurnar dreifast þá dreifast áhrifin einnig. Að deilt skuli um það hvort mótmælin á Austurvelli í gær beindust gegn ríkisstjórninni eða alþingi er bara vottur um það að þau voru misheppnuð.

Ef menn vilja endilega setja það sem er að gerast í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir í hægri-vinstri samhengi þá er greinilegt að vinstrisveiflan við hrunið er það mikil, hvað sem skoðanakannanir segja, að núverandi ríkisstjórn mun að líkindum verða við völd allar götur fram til 2012 eða 2013. Samt er hætt við að ESB-málið verði henni á endanum svo þungt í skauti að hún springi án þess að ljúka kjörtímabilinu.

Dilkadráttur vegna stjórnlagaþingskosninganna þann 27. nóvember er nú hafinn af fullum krafti. Sé að Friðrik Þór Guðmundsson er önnum kafinn við að hengja flokksmiða á sem flesta. Þeir virðast taka því misjafnlega. Engir þó sérlega illa enda eru þetta yfirleitt ekki neinar leynilegar upplýsingar. Margir þeirra kynna sig á Smugunni sýnist mér og það er í góðu lagi mín vegna. Stuttlistinn minn er að lengjast töluvert. Síðast þegar ég vissi var ég kominn í nærri 40.

Auðvitað skiptir miklu máli hverjir veljast á þetta blessað stjórnlagaþing. Ég ætla mér þó ekki þá dul að ráða neinu um það. Kjósa mun ég þó en fráleitt ætlast til að aðrir kjósi eins.

„Olía lak af mótmælatunnu". Þannig hljóðaði fyrirsögnin á Moggafrétt einni í gær. Litlu verður Vöggur feginn. Dæmigerð anti-frétt. Hverju var tunnan að mótmæla? Og hvaðan koma þessar tunnur? Er hugsanlega olía á fleirum? Blaðamaðurinn er alls ekki að standa sig. Um þetta hefði verið hægt að skrifa laaaanga frétt og jafnvel koma Bjarna Benediktssyni að.

Ein var sú „saying" í Formúlu eitt-fræðum forðum daga, sem hljóðaði þannig á ensku: „To win a race you have to finish." Já, einu sinni bilað bíllinn hjá Mansell þegar hann var í forystu og nokkra metra frá endamarkslínu. Fyrir nokkrum árum, þegar ég fylgdist vel með formúlunni var þessu breytt lítilsháttar og hljóðaði þá þannig: „To win a race you have to be finnish."

Upplifanir fólks af sama atburðinum geta verið furðulega mismunandi. Hef oft gert mér það að leik að rifja upp atburði úr grárri fjölskylduforneskju og komist að raun um þetta. Ekki aðeins geta áherslur verið mismunandi heldur geta minningarnar beinlínis stangast á.

IMG 3600Visnuð laufblöð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Enda leiðrétti mótmælandi sá er barði þessa tunnu,frásögn blaðsins af þessu lítilræði. Sagðist sjálf hafa bent lögreglu á þessa örlitlu brák og talið betra að þurrka hana.

Helga Kristjánsdóttir, 6.11.2010 kl. 01:15

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það sem einum finnst ómerkileg frétt finnst öðrum stórmerkilegt og vice versa. Þetta er bara til bóta. Slæmt væri ef allir hugsuðu eins.

Sæmundur Bjarnason, 6.11.2010 kl. 07:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband