1190 - Forsendubrestur

Er allt að fara til fjandans? Einhvern vegin finnst mér sumir haga sér eins og þeim finnist best sé að svo fari, úr því viðkomandi geta ekki fengið allar sínar óskir uppfylltar. Ég tók þátt í búsáhaldabyltingunni hans Harðar um áramótin 2008 og 2009 en nenni ekki á vettvang núna. Er samt ekki hræddur um að verða fyrir meiðingum en sýnist að of margir séu að sinna of mörgum málum að þessu sinni. Finnst að menn séu meira og minna bara að sýnast fyrir fjölmiðla og myndatökumenn en þegar á skal herða koðnar allt niður. 

Ármann Jakobsson, sem helst ekki má segja að sé bróðir Kötu menntamála, kallar Heiðu B. Heiðars og fleiri tunnuterrorista. Er ekki frá því að ég sé svolítið sammála Ármanni. Nasistafánarnir ollu mér hryllingi. Veit ekki af hverju. Sennilega eru þeir sem á þeim halda bara ágætisfólk. Fjölmiðlar hafa þó dregið upp svarta mynd af þeim.

Fjölyrt um forsendubrest. Forsendubrestur er ekki forsendubrestur nema brestur sé. Dómstólar virðast ekki viðurkenna svoleiðis skrautblóm. Ekki er samt fullreynt með Hæstarétt. Eru dómstólarnir ekki best færir um að ákveða hvað er forsendubrestur og hvað ekki?

Biðraðirnar hjá mæðrastyrksnefnd, fjölskylduhjálp og fleirum eru bara fyrirkomulagsatriði. Sú hefð sem komist hefur á varðandi matarúthlutanir lítillækkar fólk mjög. En einhverjum hlýtur að vera í hag að hafa þetta svona. Tiltölulega einfalt væri að hafa fyrirkomulagið öðruvísi, en þá hyrfu biðraðirnar og ekkert væri til að mynda. Kannski mundi það líka kosta eitthvað. Gefendur matarins vilja ráða hvað gefið er. Með því að halda ríkinu frá þessu (sem ætti þó skilyrðislaust að bera ábyrgðina) stjórna gefendur málinu alfarið.

Hvað er það sem skilar okkur fram á við? Er það viska hinna eldri eða kraftur og áræði ungdómsins? Ég er nefnilega ekki í neinum vafa um að við erum á framfaraleið. Úrtölumenn sem misst hafa kjarkinn segja að allt sé á hraðri niðurleið. Ég reyni að standa með ungdómnum. Hans er framtíðin. Skelfingar klisjur eru þetta. Hættur og farinn að sofa.

IMG 3578Kál á öðru ári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég hef þá tilfinningu líka að matarþiggjendur séu að stærstum hluta að drýgja tekjurnar.
Er ekki lágmarksframfærsla í landinu sem ætti að tryggja öllum mat og húsnæði? Samt velja margir að vera húsnæðislausir og matarlausir vegna þess að framfærslueyrinn er notaður í annað. Auðvitað eru dæmi um sára neyð en einhvern veginn held ég að það fólk standi nú ekki í biðröðum.  Og ég hef nú hálfgerða skömm á fólki sem hreykir eigin ágæti og notar sér til persónulegra metorða neyð annarra. Góðverkin eru ekki góðverk nema í kyrrþey séu unnin

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.11.2010 kl. 05:10

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, ég fer ekki ofan af því að þetta biðraðamál er til komið vegna þess að einhverjir vilja hafa þetta fyrirkomulag. Að þetta þekkist síður annars staðar er ekki bara vegna þess að neyð okkar Íslendinga sé meiri en annarra. Það eru alltaf allsstaðar einhverjir sem vilja meira og þeir blandast saman við hina sem raunverulega þurfa á þessu að halda. Og eins og þú bendir réttilega á Jóhannes er engin trygging fyrir því að allir sem þurfandi eru mæti í biðraðir.

Sæmundur Bjarnason, 4.11.2010 kl. 07:16

3 identicon

Svakalega er þetta fallegt Kál

aldrei séð það svona

Græðgin hefur komið í veg fyrir það svo oft

Kveðja

Æsir 4.11.2010 kl. 22:31

4 Smámynd: Grefill

Svona "kál" er í tíunda hverjum garði í Hveragerði. En ertu viss um að þetta sé kál? Hvað heitir það?

Grefill, 5.11.2010 kl. 00:07

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, mig minnir að kál, kartöflur og líklega fleiri grænmetistegundir séu það sem kallað er tvíært. Fyrra árið er hálfgert ómark eða vöxturinn fer allur í rótina en oft er það fallegra seinna árið og spírar þá og ber fræ. Þetta sést oft í kartöflugörðum þar sem ein og ein kartöflumóðir hefur orðið eftir þegar tekið var upp.

Sæmundur Bjarnason, 5.11.2010 kl. 00:08

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Grefill, ég er ekki viss um neitt. Svarið hér á undan var til Æsis en ekki þín. Ég er einmitt ættaður úr Hveragerði og ætti að vita svonalagað en er ákaflega fáfróður um alla ræktun. Bæði á káli og öðru.

Sæmundur Bjarnason, 5.11.2010 kl. 00:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband